Rafmagnstæknifræði BSc

12.2.2016

Rafmagnstæknifræðingar fást við hluti sem eru allt í kringum okkur: í tæknibúnaði, orkuverum, farartækjum, framleiðslu og iðnaði. Ör þróun er fyrirsjáanleg í faginu í nánustu framtíð með tilkomu nýjunga í líftækni, sjálfvirkni og kraftrafeindatækni. 

Um námið

Nemendur og kennarar segja frá náminu í rafmagnstæknifræði við HR

Hagnýt verkefni og tenging við atvinnulífið

Í rafmagnstæknifræði fást nemendur við rafmagnsfræði, rafeindatækni, raforkufræði, fjarskiptatækni, stýritækni, tölvutækni, stóriðju og orkutækni á breiðum grundvelli. Nemendur taka þátt í spennandi hönnunarverkefnum strax á fyrsta ári. Lokaverkefni eru tengd sérhæfingu á sviði sterkstraums, veikstraums, eða tölvutækni og endurspegla hagnýta hlið námsins. Þau eru oftar en ekki unnin í samstarfi við leiðandi tæknifyrirtæki.

Starfsnám

Tækni- og verkfræðideild er með samninga við um 40 fyrirtæki og stofnanir og nemendum býðst að taka allt að 24 ECTS í starfsnámi. Stærri verkefni, eins og lokaverkefni í tæknifræði, eru oftast unnin í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir. Margir nemendur hafa fengið tilboð um starf til lengri eða skemmri tíma í kjölfar starfsnáms og lokaverkefna sem unnin eru í samstarfi við fyrirtæki.

Dæmi um fyrirtæki þar sem tæknifræðingar starfa og nemendur hafa farið í starfsnám:

Orka náttúrunnar • Mannvit • HB Grandi • HS Orka •Jáverk • Orkuveita Reykjavíkur • Ístak • VSÓ Ráðgjöf • Landsvirkjun • Össur • Marel • Míla • Trefjar • VSB verkfræðistofa • Verkís • VHE vélaverkstæði • Efla • Landsnet • Norðurorka • Alcoa • Stálsmiðjan • Framtak

Frekara nám

Tæknifræðinám veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í verkfræði á tengdum sviðum innanlands sem erlendis.

Í hópi framsækinna tækniháskóla

HR tekur þátt í alþjóðlegu samstarfsneti framsækinna háskóla um allan heim sem kenna tæknigreinar. Samkvæmt hugmyndafræðinni sem höfð er til hliðsjónar er verkfræðingum framtíðarinnar er veittur traustur, fræðilegur grunnur en þeir vinna þar að auki raunhæf verkefni ásamt því að leysa verkefni í hópum. Nemendur kunna því á ferlið frá hugmynd yfir í hönnun, framkvæmd og rekstur þegar þeir koma á vinnumarkaðinn. Samstarfsnetið heitir CDIO, sem stendur fyrir „Conceive, Design, Implement, Operate“. Aðrir skólar í DCIO eru meðal annars:

MIT - Massachusetts Institute of Technology • Danmarks Tekniske Universitet (DTU) • Chalmers Tekniska Högskola • KTH • Aalborg University • Delft University of Technology • Duke University • University of Michigan • University of Sydney • Beijing Jiaotong University

Strax á fyrstu önn kynnast nemendur hugmyndavinnu í hópum í námskeiðinu Inngangur að tæknifræði.  Færni í hugmyndavinnu, verkefnastjórnun, samskiptum og kynningum er síðan þjálfuð í ýmsum námskeiðum gegnum allt námið, með áherslu á hugmyndafræði CDIO.

Í lok hverrar annar vinna nemendur yfirleitt að hagnýtt, raunhæft verkefni þar sem markmiðið er að undirbúa nemendur fyrir atvinnulífið. Hagnýtu verkefnin eru umfangsmikil, oftast hönnunarverkefni sem byggjast á því að nýta og samþætta þekkingu úr bóklegu námskeiðunum. 

Að námi loknu

Lögverndað starfsheiti

Þeir sem ljúka BSc-náminu í tæknifræði hljóta staðfestingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og full réttindi til að starfa sem tæknifræðingar og nota lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur (enska: certified engineer). Þeir sem útskrifast úr náminu, eru með sveinsbréf og hafa lokið tilskildum starfstíma fá jafnframt meistarabréf í iðngreininni.

Hönnun, eftirlit og margt fleira

Starfssvið rafmagnstæknifræðinga er fjölbreytt, hvort heldur unnið er við hönnun, framkvæmdir, stjórnun eða eftirlit með raforkukerfum og rafeindabúnaði. Góð og hagnýt tækniþekking veitir fjölbreytileg atvinnutækifæri í nútímasamfélagi og eru rafmagnstæknifræðingar frá HR eftirsóttir á vinnumarkaði. 

Aðstaða

Þjónusta og góður aðbúnaður 

Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR í Nauthólsvík. Þar er einnig aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.

Verkleg kennsla

Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. Nemendur í rafmagnstæknifræði hafa aðgang að rafeindatæknistofu. Auk þess hafa þeir aðgang að efnafræðistofu og í sumum tilvikum kjallara háskólabyggingarinnar fyrir stærri verkefni. Vísindamenn við véla- og rafmagnssvið eru jafnframt með rannsóknarstofur þar sem framkvæmdar eru ýmsar tilraunir.

Rafeindatæknistofa

Lab

Í rafeindatæknistofu er unnið að verkefnum og tilraunum á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, raforku, stýringum og sjálfvirkni. Í stofunni er fjölbreytt safn af verklegum tilraunum er tengjast námsefni á þessum sviðum. Stofan býður jafnframt upp á aðsetur fyrir nemendur sem vinna að stærri verkefnum eða lokaverkefnum í grunnnámi eða meistaranámi. Í stofunni er fjöldinn allur af tækjum og mælitækjum, á borð við sveiflusjár, örtölvur, AD-breytur, iðnaðarróbóta o.s.frv. Mikið safn er af íhlutum fyrir rásavinnu og góð aðstaða til að setja saman rásir. Ábyrgðarmaður verkstæðis er Hannes Páll Þórðarson.

Kennslustofur og lesherbergi

Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.

Góð þjónusta

Í háskólabyggingunni í Nauthólsvík er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu

Verslanir og kaffihús

Í HR er jafnframt Háskólabúðin sem selur helstu nauðsynjavörur, Bóksala Stúdenta, Te og kaffi, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.

Kennarar

Vísindamenn og sérfræðingar

Nemendur í rafmagnstæknifræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur. Rafmagnstæknifræði heyrir undir véla- og rafmagnssvið

Default.aspx

Ragnar Kristjánsson

PhD

Kennir námskeið á sviði raforku sem m.a. fjalla um uppbyggingu, líkanagerð og rekstur raforkukerfa. Einnig er hermun raforkukerfa, gæði raforku og snjallnet umfjöllunarefni í þessum námskeiðum. Hann leggur mikla áherslu á að nemendur fái tækifæri til að takast á við raunhæf verkefni og kennir sérstök námskeið („Hagnýt verkefni“)  vor og haust sem hafa það að markmiði. Hann hefur umsjón með starfsnámi og lokaverkefnum rafmagnstæknifræðinga á raforkusviði og er jafnframt námsbrautarstjóri rafmagnstæknifræðinnar. Ragnar hefur auk þess yfirumsjón með nýrri raforkulínu í meistaranáminu, kennir þar námskeið og er leiðbeinandi í meistaraverkefnum. Rannsóknir snúa einkum að  áreiðanleikagreiningu raforkukerfa í rauntíma, snjallnetum og líkanagerð raforkukerfa en einnig rannsóknir á áhrifum jarðstrengja á raforkukerfi. Ragnar lauk MSc-prófi  í raforkuverkfræði  frá Tækniháskóla  Danmerkur (DTU ) 1998 og PhD-gráðu frá sama skóla 2001. Doktorsverkefnið fjallaði um raforkugæði, líkanagerð raforkukerfisins á hærri tíðnum og notkun þess til að þróa aðferðir til að staðsetja truflanir. Hann hefur 15 ára reynslu af hönnun og uppsetningu raforkukerfa og búnaðar s.s. háspennulína, jarðstrengja, tengivirkja,  og  launaflsvirkja, bæði sem starfsmaður dreifiveitunnar NESA A/S í Kaupmannahöfn samhliða PhD-námi og sem verkfræðingur og verkefnastjóri í verkefnum bæði hér heima og erlendis, síðast sem sviðstjóri Raforkusviðs hjá  Verkfræðistofunni EFLU.
Stefan-Arnar-Karason

Stefán Arnar Kárason

BSc

Kennir áfanga á sviði rafeindatækni, einkum stafræna tækni, þar með talið notkun og forritun stýritölva, en einnig hönnun og smíði rafeindatækja. Einnig hefur hann sérhæft sig í mælitækni, kennt áfanga í því fagi og samið kennslubókina Mælitækni. Stefán kennir m.a. áfangann Róbótar en þar smíða nemendur sjálfráðan róbóta og forrita stýritölvu hans. Stefán lauk prófi í rafmagnstæknifræði með áherslu á stafræna tækni frá Aarhus Teknikum 1971. Eftir nám starfaði hann hann á fjarskiptadeild Pósts og síma en seinna á Tæknideild Fiskifélags Íslands þar sem hann vann við rannsóknir á aflnýtni skuttogara. Stefán þróaði mæli- og gagnasöfnunarbúnaðinn sem notaður var við rannsóknirnar en á þessum árum var Tæknideild Fiskifélagsins fulltrúi Íslands í samnorræna orkusparnaðarverkefninu Oliefisk.
Baldur

Baldur Þorgilsson

MSEE

Baldur kennir námskeið á sviði rafeindatækni, véleindatækni og heilbrigðstækni sem fjalla t.d. um nema, magnara, örgjörva, forritun, mótorstýringar og mælingar á hreyfingum líkamans. Auk þess að kenna við HR er hann með annan fótinn í iðnaðinum þar sem hann hefur komið að nokkrum frumkvöðlafélögum. Baldur er rafeindavirki frá Iðnskólanum í Reykjavík 1982, tæknifræðingur frá Odense Teknikum 1987 og rafmangsverkfræðingur frá DTH 1992.Baldur starfaði hjá Bruel og Kjær í Danmörku og á Eðlisfræði- og tæknideild Landspítalans, Kine ehf og Pi Verkfræðiþjónustu. Hann hefur verið virkur í félagssörfum sem tengjast sviðinu, m.a. verið meðstofnandi að Heilbrigðistæknifélagi Íslands, setið í ýmsum stjórnum innan SI er varða frumkvöðlafyrirtæki.
Mohamed

Mohamed F. Abdel-Fattah

PhD

Mohamed kennir námskeið sem tengjast rafmagns- og orkuverkfræði svo sem Raforkukerfi I, Kraftrafeindatækni II, Greiningu rafrása, Hönnun rása og Samþætt verkefni í raforkuverkfræði. Í kennslu leggur Mohamed áherslu á að kynna raunveruleg viðfangsefni fyrir nemendum til að ná jafnvægi milli fræða og verklegrar þjálfunar. Rannsóknir hans snúast um vernd raforkukerfa þar með talin staðsetning og greining jarðbilunar í háspennukerfum, sjálfslökkvandi ljósboaga í jarðbilun og þróun á verndarbúnaði sem byggir á kvikri svörun. Mohamed hlaut PhD-gráðu árið 2006 frá Zagazig University í Egyptalandi í raforkuverkfræði þar sem hann rannsakaði hraðvirkan verndarbúnað. Árið 2007 var hann ráðinn til Aalto University í Finnlandi við raforkurannsóknir, til að sinna kennslu og sem nýdoktor á sviði verndarbúnaðar með kvika hegðun (2007-2009). Að því loknu starfaði hann sem rannsakandi við snjallkerfi og orkumarkaði (“smart grids and energy markets”) verkefnið á árunum 2009-2014, með það að markmiði að þróa snjallt flutningskerfi sem getur lagað sig sjálft.
Ingunn-Gunnarsdóttir

Ingunn Gunnarsdóttir

Cand. Scient.


Kennir stærðfræði; stærðfræðigreiningu, línulega algebru og tölulega greiningu. Í kennslu leggur Ingunn áherslu á að nemendur öðlist sterkan fræðilegan grunn í stærðfræði sem þeir geta nýtt sér í hinum ýmsu viðfangsefnum verkfræðinnar. Ingunn vill að nemendur öðlist góðan skilning á námsefninu og geti beitt stærðfræðilegri röksemdarfærslu við lausn á verkefnum. Og svo er allt í lagi að hafa stundum gaman. Ingunn notar mikið stutta myndbandsfyrirlestra í kennslunni sem nemendur geta horft á ítrekað ef þeir þess óska. Ingunn lærði stærðfræði í Roskilde Universitet í Danmörku, lokaverkefni hennar fjallaði um breytingar í blóðfræði í augum einstaklinga með sykursýki.
Joseph-Timothy-Foley

Joseph Timothy Foley

PhD

Joseph Timothy Foley (MIT BSc ‘99, MEng, ‘99, PhD ‘07) previously worked at iRobot's Government and Industrial division designing and building shape-changing robots. At Reykjavik University, he focuses on Mechatronics and Mechanical Design for teaching. His research interests include Axiomatic Design, aircraft maintenance, product design, embedded smart devices, wireless communication, physical security, and engineering-artist collaborations.
Jón-Gudnason

Jón Guðnason

PhD

Jón Guðnason kennir námskeið á sviði merkjafræði, kerfisfræði, mynsturgreiningar og tölvugreindar. Hann hefur einnig tekið þátt í að skipuleggja og halda námskeið á sviði sjálfráða vélmenna og tölvusjónar.  Rannsóknir Jóns fjalla um að beita merkja- og mynsturgreiningaraðferðum við að greina mælt mál og rödd.  Hagnýtar niðurstöður þessara rannsókna felast til dæmis í að tölvur geta skilið mælt mál og greint hver sé að tala.  Jón starfar meðal annars með Isavia, Tern Systems, Alþingi, Landspítalanum og Google við að greina raddir og skilja.  Jón er rafmagns- og tölvuverkfræðingur frá Háskóla Íslands (BSc 1999 og MSc 2000) með sérhæfingu í merkjafræði og talgreiningu frá Imperial College London (PhD 2007).
Slawomir

Slawomir Koziel

PhD

Kennir námskeið í rafmagnsverkfræði, þar á meðal rásagreiningu, hönnun rása og rafeindatækni, og verkfræðilega bestun. Slawomir Koziel lauk MSc- og PhD-gráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í Gdansk, Póllandi árin 1995 og 2000. Hann lauk jafnframt MSc-gráðum í kennilegri eðlisfræði og í stærðfræði árin 2000 and 2002 ásamt PhD-gráðu í stærðfræði árið 2003 frá Háskólanum í Gdansk. Slawomir er prófessor við tækni- og verkfræðideild HR. Rannsóknarsvið hans eru töluleg líkanagerð og bestun, tölvustudd hönnun, sem og staðgöngumiðuð bestun reiknifrekra hermunarlíkana með hagnýtingu í hönnun örbylgjukerfa og loftneta, flugvélaverkfræði, vökvaaflfræði og öðrum greinum.
Kristinn-Sigurjonsson

Kristinn Sigurjónsson

MSc

Kristinn lauk BS gráðu í efnafræði og CS í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann lauk MSc gráðu í efnaverkfræði frá Tækniháskóla Noregs (áður NTH, nú NTNU) í Þrándheimi.  Hann starfaði sem rannsóknamaður hjá málblendifélaginu að Grundartanga og var rekstrarstjóri rannsóknastofu Landakotsspítala.  Kristinn kenndi efnafræði við lífeinda- og geislafræðideild Tækniháskóla Íslands.  Undanfarin ár hefur Kristinn kennt greiningu rása, raforkufræði og kraftrafeindatækni við Háskólann í Reykjavík, auk þess sem hann hefur verið umsjónarkennari og leiðbeinandi fjölda lokaverkefna á þessu sviði.

Fyrir utan ofangreinda fræðimenn koma að kennslu í rafmagnstæknifræði kennarar í stærðfræði og eðlisfræði, umsjónarmenn verkstæða og fjöldi stundakennara.

Skipulag náms BSc

Námstími: 3 1/2 ár í fullu námi
Einingar: 210
Prófgráða: Lokapróf í tæknifræði (BSc)
Starfsréttindi: Tæknifræðingur (lögverndað starfsheiti)
Skiptinám mögulegt:
Fjarnám: Nei

Öll námskeið eru 6 ECTS nema annað sé tekið fram.

1. önn

Stærðfræði I

Eðlisfræði I

Stafræn tækni

Forritun í C++

Hugmyndavinna
(1 ECTS)

Inngangur að tæknifræði og tölvustudd hönnun

2. önn

Stærðfræði II

Eðlisfræði II

Greining rása

Gagnaskipan

Hagnýtt verkefni
 - róbótar

3. önn

Stærðfræði III

Rafsegulfræði og
hálfleiðarar

Hönnun rása

Mælitækni

Verkefnastjórnun

4. önn

Rafeindatækni I

Raforkukerfi I

Merkjafræði

Aðferðafræði og tölfræði

Hagnýtt verkefni - rafeindatækni

5. önn 

Kraftrafeindatækni

Reglunarfræði

Fjarskiptakerfi I 

Hagnýtt verkefni í 

sterk- eða veikstraumi

Valfög í sérhæfingu

Lýsingartækni

Mechatronics I

Starfsnám I

6. önn 

Iðntölvur og vélmenni 

Hagnýtt verkefni í sterk- eða veikstraumi

Valfög í sérhæfingu

Rafmagnsvélar 

Raforkukerfi II

Mechatronics II

Fjarskiptakerfi II

Rafeindatækni II

Aðgerðargreining

Starfsnám II og III

7. önn

Lokaverkefni (24 ECTS)

Rekstur, stjórnun og nýsköpun

Á 5. og 6. önn taka nemendur valfög sem bjóða upp á sérhæfingu á sterkstraums- eða veikstraumssviði.  Sérhæfingarsviðsins er getið á prófskírteini nemanda ef hann hefur lokið a.m.k. 3 sérhæfðum valnámskeiðum ásamt lokaverkefni á sviðinu.

Lokaverkefni í rafmagnstæknifræði eru tengd sérhæfingu á veikstraum- eða sterkstraumssviði.

Inntökuskilyrði

Nemendur sem stefna á nám í rafmagnstæknifræði þurfa að hafa lokið stúdentsprófi, frumgreinaprófi eða sambærilegu prófi.

Undirbúningur

Námsefni og kennsla á fyrsta ári í tæknifræði er miðuð við að nemendur hafi lokið eftirfarandi:

  • 18 einingum eða 30 FEIN í stærðfræði (þ.m.t. STÆ503 eða sambærilegu)
  • 6 einingum eða 10 FEIN í eðlisfræði (þ.m.t. EÐL203 eða sambærilegu)

Vantar þig grunninn? Byrjaðu strax í HR

Þeim nemendum sem vilja hefja nám í rafmagnstæknifræði en vantar nauðsynlegan undirbúning, til dæmis í stærðfræði og eðlisfræði, er bent á frumgreinanám HR sem er undirbúningsnám fyrir háskóla. Þar er hægt að velja strax áherslulínu fyrir tæknigreinar. Nám til frumgreinaprófs tekur eitt ár. 

Frekari upplýsingar

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og þiggja einstaklingsráðgjöf. Hver nemandi er metinn sérstaklega.

Verkefnastjóri námsins veitir frekari upplýsingar:

Vilborg Hrönn Jónudóttir
Netfang: vilborg@ru.is
Sími: 599-6255


Fara á umsóknarvef

Var efnið hjálplegt? Nei