Reglur fyrir Evrópuréttarstofnun við lagadeild Háskólans í Reykjavík


1.    gr.

Almennt

Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík er  rannsóknar- og fræðslustofnun sem starfrækt er af Háskólanum í Reykjavík og heyrir undir lagadeild.

2. gr.
Hlutverk

Hlutverk stofnunarinnar er einkum:
a. að stuðla að og efla rannsóknir á sviði Evrópuréttar,
b. að efla tengsl rannsókna og kennslu á sviði Evrópuréttar,
c. að veita háskólanemum aðstöðu til rannsókna á sviði Evrópuréttar,
d. að sinna lögfræðilegum þjónustuverkefnum á sviði Evrópuréttar,
e. að veita fræðslu og ráðgjöf varðandi Evrópurétt þ. á m. gangast fyrir námskeiðum, ráðstefnum og fyrirlestrum um Evrópurétt.

3. gr.
Aðstaða

Háskólinn í Reykjavík lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.

4. gr.
Forstaða

Forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík ræður forstöðumann stofnunarinnar. Forstöðumaðurinn kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar. Hann skal eiga frumkvæði að stefnumótun og þróun. Hann skal að höfðu samráði við fagráð stofnunarinnar marka henni stefnu til fjögurra ára í senn. Stefnumótunin skal lögð undir deildarfund í lagadeild Háskólans í Reykjavík til samþykktar.

5. gr.
Fagráð

Fagráð sérfræðinga á sviði Evrópuréttar skal vera stofnuninni til ráðgjafar um stefnumörkun og einstaka þætti í starfsemi stofnunarinnar, s.s. einstök verkefni og rannsóknir sem stofnunin vinnur að. Fagráðið skal skipað a.m.k. 5 mönnum sem hafa víðtæka þekkingu á Evrópurétti og/eða réttarsviðum sem tengjast Evrópurétti.

Forstöðumaður stofnunarinnar skal gera tillögu um skipan ráðsins til deildarforseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík sem tekur ákvörðun um skipanina. Fagráðið skal að jafnaði halda fund einu sinni á hvorri skólaönn (vorönn og haustönn). Forstöðumaður stofnunarinnar boðar til fundarins. Forstöðumaður getur einnig ráðfært sig við fagráðið eða einstaka meðlimi þess utan reglulegra funda.

6. gr.
Fjármál

Tekjur stofnunarinnar eru eftirfarandi:
a.  framlag frá lagadeild,
b. almennir styrkir eða til einstakra verkefna,
c. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
d. tekjur af útgáfustarfsemi,
e. aðrar tekjur, t.d. gjafir og ríkisframlög.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Fjárhagsáætlun hennar skal vera hluti af fjárhagsáætlun lagadeildar, nema framkvæmdastjórn skólans ákveði annað.

Þannig samþykkt á deildarfundi lagadeildar 8. desember 2010.
Reglurnar taka þegar gildi.