Máltækni

Við tölvunarfræðideild er boðið upp á tveggja ára (120 ECTS eininga) framhaldsnám til meistaragráðu í máltækni. Skipulag og umsjón námsins er á höndum Máltækniseturs, sem er vettvangur fyrir samstarf Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um rannsóknir, þróun og kennslu í máltækni.

Markmið með náminu er tvíþætt: annars vegar að útskrifa nemendur með þekkingu til að stjórna verkefnum og útfæra lausnir á sviði máltækni; hins vegar að undirbúa nemendur undir doktorsnám á sviðinu. 

Nám í máltækni er bæði fyrir nemendur með BA-próf í hugvísindagreinum og BS-próf í raungreinum.

Hvað er máltækni?

Máltækni (tungutækni) er rannsóknar- og þróunarsvið sem hefur það að markmiði að smíða kerfi sem geta unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu. Máltækni er þverfaglegt svið sem spannar t.d. tölvunarfræði, málvísindi, gervigreind, tölfræði og sálfræði.

Viltu vita meira?

Nánari upplýsingar um máltækni má finna á vef Máltækniseturs (Icelandic Centre for Language Technology, ICLT). Nánari upplýsingar veita verkefnastjórar deildarinnar og Hrafn Loftsson, lektor við tölvunarfræðideild HR.


Var efnið hjálplegt? Nei