Stjórnun og forysta í ferðaþjónustu

Í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar (SAF)


Námskeiðslýsing

Nám fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu þar sem áherslan er á hagnýta þekkingu og færni. Leitast verður við efla og styrkja stjórnendur í ferðaþjónustu við að takast á við áskoranir í sínu starfsumhverfi og nýta til þess sannreyndar og hagnýtar leiðir.

Námið samanstendur af fjórum lotum sem kenndar eru með fjögurra vikna millibili. Kennsluaðferðir eru í senn fjölbreyttar og hagnýtar og kalla á virka þátttöku nemenda. Auk fyrirlestra munu umræður og verkefnavinna því spila stórt hlutverk í heildarupplifun þátttakenda. Notast er við raunhæf verkefni í náminu. 

Einnig má skrá sig á stakar námslotur en námið byggir á eftirfarandi lotum:

Áætlanagerð - Jón Hreinsson
Farið verður yfir helstu þætti sem hafa ber í huga við áætlanagerð, svo sem tengingu markaðsmála og fjármagns, samþættingu fjárhagsáætlana og stefnumótunar, gerð kostnaðargreininga og fjárhagslegt eftirlit. Þá verða kynntir grunnþættir rekstrar- og birgðastjórnunar auk þess sem kennt verður hvernig staðið er að því að fylgja áætlun eftir. 

Stefnumótun - Hulda Dóra Styrmisdóttir
Lögð verður áhersla á þá þætti sem brýnt er að hafa í huga við stefnumótunarvinnu. Góð stefna hefur áhrif á sérhvert fyrirtæki og setur mark sitt á framtíðarviðskipti. Eitt af megin hlutverkum stjórnenda felst í því að endurskoða reglulega stefnu síns fyrirtækis og búa þau þannig betur undir óvissa framtíð. Þátttakendur verða því kynntir fyrir aðferðafræði stefnumótunar og kennt að nýta verkfæri hennar við greiningarvinnu og gerð stefnu. Áhersla verður lögð á hagnýta nálgun, jafnt hvað varðar fyrirlestra sem og verkefni.  

Með lögum skal land byggja og um það ferðast - Helgi Jóhannesson
Farið verður yfir dómstólaskipan og helstu reglur stjórnsýslunnar. Þá verður lögð áhersla á stofnun félaga, mismunandi félagaform, ábyrgð eigenda og stjórnenda auk þess sem grunnhugtök kröfuréttar og gjaldþrotaréttar verða kynnt. Helstu reglur í vinnurétti og samkeppnisrétti verða einnig til umræðu. Þá fá lög og reglur sem eiga sérstaklega við um rekstur ferðaþjónustufyrirtækja sérstakt vægi, svo sem leyfisveitingar og reglur um frjálsa för um land. 

Sjálfbærni og ábyrg ferðaþjónusta - Ketill B. Magnússon
Frumforsenda sjálfbærni í ferðaþjónustu er að huga að því að gengið sé um umhverfi og samfélag af virðingu. Sjálfbærni í rekstri nær einnig til þátta er snúa að efnahagslífi og rekstraraðilanum sjálfum. Markmið sjálfbærrar ferðaþjónustufyrirtækja er að tryggja að þróun starfsemi þeirra hafi jákvæð skammtíma- og langtímaáhrif á samfélagið í heild, önnur ferðaþjónustufyrirtæki og ekki síst ferðamennina sjálfa. Því verða helstu hugtök og aðferðir er snúa að sjálfbærni í ferðaþjónustu kynnt en megináhersla verður þó lögð á innlegg og umræður þátttakenda.

Netmarkaðssetning í ferðaþjónustu - Valdimar Sigurðsson
Markaðssetning á netinu er helsta tæki ferðaþjónustunnar til að auglýsa framboð sitt. Fjallað verður um helstu verkfæri sem geta, án mikils tilkostnaðar, stórbætt árangur markaðssetningar. Farið verður yfir leitarvélabestanir, kostaðar leitarniðurstöður, samfélagsmiðla og fleira sem hefur orðið ómissandi í kjarnafærni markaðsfólks á síðustu árum.

Sala og þjónusta - Lára Óskarsdóttir
Markmiðið er að efla skilning á grunnþáttum þjónustu, skoða hvernig bæta megi þjónustu til viðskiptavina sem og innri þjónustu fyrirtækis og skapa þar með markaðsforskot með því að byggja upp og styrkja viðskiptatengsl til langs tíma. Fjallað verður um góða og slæma siði í sölu og þjónustu auk grundvallar aðferðafræði í þjónustustjórnun með upplifun viðskiptavinarins að leiðarljósi.  

Mannauðsmál og árstíðarsveiflur - Ketill B. Magnússon
Fjallað verður um hvernig takmarka megi starfsmannaveltu í ljósi þess að mannauður og þeir hæfileikar sem honum fylgja eru mikilvægasta auðlind þjónustugreina. Þá verður rætt um hlutverk stjórnandans sem mannauðsstjóra og hvernig nýta megi aðferðir mannauðsstjórnunar til að framfylgja stefnu skipulagsheildarinnar. Sérstök áhersla verður lögð á lykilþætti svo sem mönnun og ráðningar, starfsþróun, launa- og frammistöðustjórnun. 

Verkefna- og viðburðastjórnun - Þórunn Sigurðardóttir
Áhersla verður lögð á skipulagningu viðburða, s.s. sýninga, hátíða, tónleika, ráðstefna, allt frá því að hugmynd kviknar þar til viðburði er lokið. Verkefna- og viðburðastjórnun verður einnig skoðuð út frá sjónarhorni upplýsingafulltrúa og almannatengla sem vilja koma viðburði á framfæri með árangursríkum hætti. Farið verður í gerð verkáætlunar sem grundvöll að farsælli verkefnastjórnun og skoðað að hverju þarf að huga við undirbúning og skipulag viðburðar, markaðssetningu, markmiðasetningu, framkvæmd, samantekt og mat á viðburði. Rík áhersla er lögð á verkefnavinnu þar sem þátttakendur eru hvattir til að vinna með eigin tillögur af verkefnum, viðburðum o.s.frv.   

Skipulag

Kennt verður í fjórum lotum, tvo daga í senn, með mánaðar millibili.

Tími: Hefst í október 2016

Lengd: 48 klst.

Staður: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík. 2. hæð í Mars-álmu.

Kennsluáætlun verður birt síðar.

Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist.

Leiðbeinendur

Eftirtaldir leiðbeinendur kenna í náminu:

  • Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður hjá LEX lögmannsstofu og leiðsögumaður.
  • Jón Hreinsson, fjármálastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
  • Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu og stundakennari við Háskólann í Reykjavík.
  • Lára Óskarsdóttir, ACC-stjórnendamarkþjálfi.
  • Valdimar Sigurðsson, PhD í markaðsfræðum og dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.
  • Þórunn Sigurðardóttir, kennari í menningarstjórnun við Listaháskóla Íslands og fv. listrænn stjórnandi Listahátíðar Reykjavíkur og Reykjavíkur Menningarborgar.
  • Þröstur Olaf Sigurjónsson, dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.
  • Auk ofangreindra kemur að námskeiðinu fjöldi gestafyrirlesara úr ferðaþjónustu.

Verð

Verð: 270.000 kr.
Aðilar að SAF fá 10% afslátt.

Opni háskólinn hvetur umsækjendur til þess að kynna sér greiðsluskilmála Opna háskólans áður en sótt er um í námið. Sjá greiðsluskilmála.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika.

Hafðu samband

Lýdía Huld Grímsdóttir, verkefnastjóri
lydiahuld@ru.is
Sími: 599 6348