Meðferð heimilda samkvæmt APA staðli

APA (American Psychological Association) heimildaskráningarstaðal er skylda að nota í viðskiptafræði, sálfræði og íþróttafræði, en getur verið valfrjálst að nota hann í ýmsum öðrum deildum. 


Flýtilyklar:


Önnur hjálpargögn: 

Það sem einkum þarf að hafa í huga við notkun heimilda er annars vegar að geta þeirra heimilda sem stuðst er við með skýrum og skipulegum hætti í texta, hins vegar að skrá heimildir rétt í heimildaskrá. Samkvæmt APA-staðlinum "... samanstendur vísun í texta af nafni höfundar eða höfunda og útgáfuári verksins sem vísað er til eða vitnað í" (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007, bls. 80).

Bein tilvitnun

Þegar texti er tekinn orðréttur úr heimild er talað um beina tilvitnun. Í slíkum tilfellum verður að geta höfundar, útgáfuárs og blaðsíðutals. Beinar tilvitnanir sem eru innan við 40 orð eru auðkenndar með gæsalöppum og felldar inní texta. Beinar tilvitnanir sem eru lengri en 40 orð eru hafðar inndregnar í texta (5 stafabil) án gæsalappa. Langar tilvitnanir þykja ekki prýða texta og er miðað við að bein tilvitnum sé ekki lengri en 10 línur. Ekki er mælt með að nota beinar tilvitnanir nema í undantekningartilfellum þegar orðalag skiptir öllu máli. Athugið að þýðingar af einu tungumáli á annað teljast vera beinar tilvitnanir og hlíta því ofangreindum reglum.

Blaðsíðutal þarf alltaf að fylgja þegar um beinar tilvitnanir er að ræða, sjá eftirfarandi dæmi:
"Inngangur hefst oftast á því að rannsóknin er sett í víðara samhengi" (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007, bls. 30).

Óbein tilvitnun
Ekki þykir gott að nota mikið af beinum tilvitnunum í texta. "Betra er að umorða texta þess höfundar sem vitnað er í og vitna þannig óbeint í hann" (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007, bls. 82). Í slíkum tilvikum eru ekki notaðar gæsalappir, hins vegar er höfundar og útgáfuárs rits getið. Valkostur í staðlinum er að nota líka blaðsíðutal þegar vitnað er óbeint til heimilda, og getur kennari óskað eftir því enda auðveldar það að finna hvar tilvitnunin er staðsett í heimild.
Hægt er að haga orðalagi óbeinna tilvitnanna á fleiri en einn veg. Einnig geta tilvísanir, þ.e. hvernig vitnað er í heimildir, verið mismunandi. Sjá eftirfarandi dæmi:

  • Apar ná ekki tökum á setningafræði. Það staðfesta tilraunir manna til að kenna þeim að tala (Gleitman, 1986).
  • Af tilraunum manna til að kenna öpum að tala má vera ljóst að þeir ná ekki tökum á setningarfræði (Gleitman, 1986, bls. 72). 
  • Árið 1986 sýndi Gleitman fram á að apar ná ekki tökum á setningafræði.
  • Rannsóknarniðurstöður Gleitmans (1986) staðfesta að apar ná ekki tökum á setningafræði.

Heimildir:
Friðrik H. Jónsson og Sigurður H. Grétarsson. (2007). Gagnfræðakver handa háskólanemum (4. útg.) . Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Síðast uppfært 24. nóv. 2015

 


Var efnið hjálplegt? Nei