Þróun geira og klasa

Grunnhugmyndin að baki klösum er sú að öflugar tengingar aðila innan klasans auki samkeppnishæfni hópsins í heild. Landfræðileg nálægð og/eða sameiginlegir málaflokkar eru yfirleitt forsendur þess að klasinn myndist. Háskólar gegna mikilvægu hlutverki innan klasa enda hafa menntun og rannsóknir áhrif á öll svið atvinnulífsins.

Háskólinn í Reykjavík tekur virkan þátt í fjölda íslenskra klasa og annarra samstarfsverkefna um eflingu ákveðinna atvinnugreina. Þátttakan skiptir bæði háskólann og atvinnulífið miklu máli því það styrkir nýsköpun og samstarf um sameiginleg úrlausnarefni.

Iceland Geothermal
Háskólinn í Reykjavík er stofnaðili að Iceland Geothermal klasanum sem hefur það hlutverk að nýta sérstöðu Íslands sem jarðvarmalands til aukinnar hagsældar og verðmætasköpunar.

Ríflega 40 stofnfélagar Iceland Geothermal endurspegla breiða þátttöku frjálsra félagasamtaka, fyrirtækja og samtaka í jarðvarmaiðnaðinum. Markmið samstarfsins er að skapa ný tækifæri til öflugrar nýsköpunar og þróunar og stóraukins útflutnings á sviði orkuframleiðslu og fjölnýtingar.

Klasasamstarf íslensku ferðaþjónustunnar
Klasasamstarf íslensku ferðaþjónustunnar leiðir saman fyrirtæki og opinberar stofnanir sem starfa á sviði ferðaþjónustu, auk fjölda annarra aðila með beina og óbeina hagsmuni af iðnaðinum. Meginmarkmið klasasamstarfsins er að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskrar ferðaþjónustu með því að byggja á þekkingu og reynslu allra þátttakenda í klasanum.

Samtök íslenskra leikjaframleiðenda
Samtök íslenskra leikjaframleiðenda (Icelandic Gaming Industry, IGI) voru stofnuð árið 2009 sem starfsgreinahópur innan Samtaka Iðnaðarins.

Hlutverk samtakanna er að vera samstarfsvettvangur um hagsmuni og stefnumótun í leikjaiðnaðinum á Íslandi, að auka miðlun þekkingar milli leikjaframleiðenda, auka þekkingu almennings á iðnaðinum, veita leikjaframleiðendum stuðning og þjónustu og auðvelda þeim að tala einni röddu gagnvart stjórnvöldum og atvinnulífi.

Gervigreindarsetur HR (CADIA) var meðal stofnenda IGI. Háskólinn í Reykjavík og IGI hafa átt í formlegu samstarfi frá árinu 2010 um nýsköpun í kennslu og rannsóknum í leikjaframleiðslu.

Fjártækniklasinn
Tilgangur Fjártækniklasans er að efla nýsköpun í fjármálum og gera viðskipti af öllu tagi auðveldari og betri. Hann er samfélag þeirra sem starfa við fjártækni og vilja stuðla að aukinni verðmætasköpun, samkeppni og bættum lífskjörum.


Var efnið hjálplegt? Nei