Hnakkaþon

Hnakkaþon er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur til að beita hæfni sinni og hæfileikum til að þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Keppnin er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og hefur verið haldin árlega síðan 2015. Keppnin fer fram í HR 24. – 26. janúar 2019.

Hnakkaþon 2018

Um keppnina

Hnakkaþonið er skipulagt eins og hakkarakeppni eða „hackathon“ og stendur yfir í þrjá sólahringa, frá fimmtudegi til laugardags. Nemendurnir vinna saman í liðum og setja fram hugmynd eftir þriggja daga vinnu þar sem þeir fá leiðsögn frá sérfræðingum í atvinnulífinu. Þátttaka krefst ekki sérstakrar kunnáttu, heldur einungis skapandi hugsunar og góðrar samvinnu. Keppendur þurfa ekki að hafa þekkingu á sjávarútvegi til að taka þátt. Keppnin er opin öllum nemendum HR og eru verkefnin mismunandi frá ári til árs.

Iceland Seafood

Samstarfsfyrirtækið í ár verður Iceland Seafood, sem sel­ur, fram­leiðir og markaðsset­ur sjáv­ar­af­urðir um all­an heim. Fyr­ir­tækið er með höfuðstöðvar í Reykja­vík og starf­semi í sex lönd­um. Ice­land Sea­food In­ternati­onal er skráð á Nas­daq First North Ice­land og nemur ár­leg sala fyr­ir­tæk­is­ins 250 millj­ón­um evra í 45 lönd­um. Áskorunin mun að þessu sinni snúa að neytendahegðun og hvernig Icelandic Seafood getur mætt óskum neytenda og framtíðarneytenda.  

Af hverju taka þátt?

 • Þú leysir verkefni fyrir alvöru fyrirtæki
 • Þú þróar og setur fram hugmynd á þremur dögum
 • Þú kynnir hugmynd fyrir dómnefnd
 • Þú nýtir athugasemdir sérfræðinga úr atvinnulífinu
 • Þú færð útrás fyrir sköpunargleðina

Ávinningur nemenda af því að taka þátt í Hnakkaþoni er margvíslegur. Nemendur öðlast dýrmæta reynslu með því að leysa alvöru verkefni fyrir starfandi fyrirtæki í sjávarútvegi, fá framsöguþjálfun og aðgang að sérfræðingum í greininni. Sigurvegarar Hnakkaþonsins fara fyrir hönd HR á sjávarútvegssýninguna í Boston þar sem þeirra bíður dagskrá skipulögð í samráði við sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Allt nýtist þetta nemendum vel og hjálpar þeim að ná forskoti á vinnumarkaði.

Kynningar

Á lokadegi keppninnar kynna liðin niðurstöður sínar og tillögur að lausnum fyrir dómnefnd sem skipuð er einvala liði sérfræðinga. Að kynningum loknum fer fram verðlaunaafhending í Sólinni þar sem sigurliðið er tilkynnt.

Verðlaun

Icelandair og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi eru stærstu bakhjarlar keppninnar en sigurliðið hlýtur að launum ferð á sjávarútvegssýninguna í Boston.

Liðin

Keppendur skrá sig eða sitt lið til leiks. Í hverju liði mega vera að hámarki fimm þátttakendur en einnig er hægt að skrá sig sem einstaklingur. Skilyrði er að lið séu skipuð þáttakendum af báðum kynjum.

Markmið

Markmið með Hnakkaþoninu er að kynna þau ótalmörgu tækifæri til nýsköpunar og fjölbreyttu störf sem íslenskur sjávarútvegur býður upp á og kalla fram nýjar og frískar hugmyndir frá nemendum HR. Einnig er Hnakkaþonið mikilvægur liður í áherslu Háskólans í Reykjavík á að bjóða nemendum að leysa raunhæf verkefni í samvinnu við íslenskt atvinnulíf.

Tinna Brá Sigurðardóttir var í sigurliðinu árið 2018

Tinna_Bra_SigurdardottirTinna segist hafa þekkt mjög lítið til íslensks sjávarútvegs þegar keppnin hófst og ekki hafa gert sér grein fyrir hvað störfin í greininni geta verið fjölbreytt og viðfangsefnin spennandi. „Það fyrsta sem ég þurfti að gera var hreinlega að fara inn á Google og fletta upp orðinu „ufsi“ því ég vissi svo lítið um tegundina.“ Sýn Tinnu á sjávarútveginn virðist hafa gjörbreyst eftir keppnina. „Þá daga sem að keppnin stóð yfir uppgötvaði ég að sjávarútvegurinn getur verið ótrúlega spennandi og í nokkra daga voru fiskveiðar, -vinnsla, og -sala það eina sem ég talaði um við fólkið í kringum mig,“ segir Tinna og bætir við að í framtíðinni muni hún vafalítið fylgjast vandlega með hvort áhugaverð atvinnutækifæri verði í boði í greininni fyrir manneskju með hennar menntun.

Úr grein í Morgunblaðinu, 25. janúar 2018

Mikilvægasta atvinnugreinin

Sjávarútvegurinn á Íslandi er margþætt atvinnugrein sem krefst mikillar þekkingar og sérhæfs starfsfólks. Meðal viðfangsefna í greininni eru fiskveiðar, matvælavinnsla, markaðssetning, nýsköpun og tækniþróun, flutningar, rannsóknir, umhverfismál og margt fleira. Ætla má að framlag sjávarútvegs og tengdra greina til landsframleiðslu Íslands sé rúmlega 20% sem gerir sjávarútveg að mikilvægustu atvinnugrein okkar.

Tækniframfarir og þróun

Íslensk tæknifyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi eru í fremstu röð í heiminum. Gífurleg þróun hefur átt sér stað síðustu þrjátíu árin en á meðan störfum í hefðbundnum veiðum og vinnslu hefur fækkað, hafa verðmætin tvöfaldast. Þetta skýrist af auknum tækniframförum sem hámarka nýtingu flaksins og aukinni nýtingu aukaafurða. Aukaafurðir eru vörur sem unnar eru úr þeim óhefðbundnu hlutum fisksins sem áður þóttu ekki álitlegir til framleiðslu. Sem dæmi um fjölbreytileika þessara afurða má nefna að fiskafurðir eru nú einnig notaðar í lyfjaframleiðslu, snyrtivörur, vítamín og bætiefni, framleiðslu sáraumbúða og svo mætti áfram telja.

Skráning

Skráning er með tölvupósti til Margrétar H. Þóroddsdóttur (margretth@ru.is) verkefnastjóra atvinnulífstengsla. Hún veitir einnig frekari upplýsingar um Hnakkaþonið.


Dagskrá Hnakkaþons 2019

Keppendur fá áskorun senda í tölvupósti þegar skráningarfrestur keppninnar rennur út, á miðnætti þriðjudaginn 22. janúar. 

Fimmtudagur 24. janúar

TímiViðburðurStaður
14:00

Setningarathöfn keppninnar

 • Ari Kristinn Jónsson, rektor HR
 • Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS
 • Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood International

M208
15:00KaffihléM208
15:00
 • Sérfræðingar Iceland Seafood International ganga á milli hópa (20 mín. tímamörk)
Opni Háskólinn


Föstudagur 25. janúar

Það er engin formleg dagskrá föstudaginn 25. janúar. Þátttakendum stendur til boða að leita ráða hjá Joseph Karlton Gallogly, en hann er meistaranemi í markaðsfræði við HR og er Bandaríkjamaður. Joseph gjörþekkir bandaríska markaðinn og getur veitt nemendum aukna innsýn í markhópinn. Nemendur mega hafa samband við Joseph í tölvupósti, joseph17@ru.is, á milli 12:00-22:00 á föstudeginum.


Laugardagur 26. janúar

TímiViðburðurStaður
12:00Skilafrestur á lausnum á atvinnulif@ru.is/ margretth@ru.is 
13:00

Kynningar fyrir dómnefnd 
Liðin fá ekki að fylgjast með öðrum kynningum, heldur bíða frammi þar til röðin kemur að þeim.

Dómnefnd skipa:

 • Ari Kristinn Jónsson, rektor HR
 • Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS
 • Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood International
 • Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo 
 • Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR 

V101
 Dómnefnd að störfumM306
16:00Móttaka fyrir þátttakendur
Kokteill og pinnamatur fyrir þátttakendur
Sólin
17:00

Verðlaunaafhending

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS

Jill Esposito, bandaríska sendiráðinu

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo 

Sólin

Var efnið hjálplegt? Nei