Hnakkaþon

Hnakkaþon er samkeppni fyrir upprennandi sérfræðinga í markaðsmálum, hugbúnaði, tækni og vörustjórnun til að sanna hæfni sína og hæfileika í að þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Keppnin er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og hefur verið haldin árlega síðan 2015. 

Keppnin 2017

Um keppnina

Hnakkaþonið er skipulagt eins og hakkarakeppni eða „hackathon“ og stendur yfir í þrjá sólahringa, frá fimmtudegi til laugardags. Þá daga vinna liðin að ákveðnu verkefni sem tengist sjávarútvegi og fá aðstoð og ráðgjöf sérfræðinga úr íslenskum fyrirtækjum í greininni. Keppnin er opin öllum nemendum HR og eru verkefnin mismunandi frá ári til árs.

Kynningar

Á lokadegi keppninnar kynna liðin niðurstöður sínar og tillögur að lausnum fyrir dómnefnd sem skipuð er einvala liði sérfræðinga. Að kynningum loknum fer fram glæsileg verðlaunaafhending í Sólinni þar sem sigurliðið er tilkynnt.

Verðlaun

Icelandair og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi eru stærstu bakhjarlar keppninnar en sigurliðið hlýtur að launum ferð á sjávarútvegssýninguna í Boston. Sjávarútvegssýningin verður haldin næst í mars 2018. 

Markmið

Markmið með Hnakkaþoninu er að kynna þau ótalmörgu tækifæri til nýsköpunar og fjölbreyttu störf sem íslenskur sjávarútvegur býður upp á og kalla fram nýjar og frískar hugmyndir frá nemendum HR. Einnig er Hnakkaþonið mikilvægur liður í áherslu Háskólans í Reykjavík á að bjóða nemendum að leysa raunhæf verkefni í samvinnu við íslenskt atvinnulíf.

Næsta keppni

Hnakkaþon HR og SFS verður haldið 18. – 20. janúar 2018. Keppendur skrá sig saman í lið og mega vera að hámarki fimm í hverju liði. Skilyrði er að liðin séu skipuð þáttakendum af báðum kynjum. Nánar auglýst síðar!

Mikilvægasta atvinnugreinin

Sjávarútvegurinn á Íslandi er margþætt atvinnugrein sem krefst mikillar þekkingar og sérhæfs starfsfólks. Meðal viðfangsefna í greininni eru fiskveiðar, matvælavinnsla, markaðssetning, nýsköpun og tækniþróun, flutningar, rannsóknir, umhverfismál og margt fleira. Ætla má að framlag sjávarútvegs og tengdra greina til landsframleiðslu Íslands sé rúmlega 20% sem gerir sjávarútveg að mikilvægustu atvinnugrein okkar.

Tækniframfarir og þróun

Íslensk tæknifyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi eru í fremstu röð í heiminum. Gífurleg þróun hefur átt sér stað síðustu þrjátíu árin en á meðan störfum í hefðbundnum veiðum og vinnslu hefur fækkað, hafa verðmætin tvöfaldast. Þetta skýrist af auknum tækniframförum sem hámarka nýtingu flaksins og aukinni nýtingu aukaafurða. Aukaafurðir eru vörur sem unnar eru úr þeim óhefðbundnu hlutum fisksins sem áður þóttu ekki álitlegir til framleiðslu. Sem dæmi um fjölbreytileika þessara afurða má nefna að fiskafurðir eru nú einnig notaðar í lyfjaframleiðslu, snyrtivörur, vítamín og bætiefni, framleiðslu sáraumbúða og svo mætti áfram telja.


Var efnið hjálplegt? Nei