Samstarfsverkefni

HR starfar með íslensku atvinnulífi á fjölbreyttan hátt. Þar má nefna nemendaverkefni, starfsnám og stærri verkefni um rannsóknir og menntun sem fela í sér margra ára samstarf. Samstarfsaðilar HR eiga það sameiginlegt að meta samstarfið sem fjárfestingu til framtíðar, jafnt fyrir fyrirtækið og samfélagið í heild.

Hér má sjá lista yfir nokkur af stærri samstarfsverkefnum HR og atvinnulífsins:

Advania
Samstarfssamningur til þriggja ára um þróun kennslu til að fjölga sérfræðingum á Íslandi með þekkingu á bæði upplýsingatækni og viðskiptum. Samstarfið snýr einnig að eflingu menntunar á sviði viðskiptagreindar (e. business intelligence).

CCP
Samstarfssamningur til fimm ára um kennslu og rannsóknir. CCP fjármagnar nýja stöðu við tölvunarfræðideild sem mun sinna bæði rannsóknum og kennslu í tölvuleikjagerð. Gert er ráð fyrir nánu samstarfi við gervigreindarsetur HR, CADIA, og íslenskan tölvuleikjaiðnað.

Deloitte
Samstarf um framþróun í kennslu og rannsóknum í reikningshaldi og endurskoðun við viðskiptadeild. Lagt verður kapp á að vekja áhuga ungs fólks á námi í þessum fræðum og þeim starfsmöguleikum sem þau kunna að bjóða.

Icelandair
Samstarfssamningur til þriggja ára um rannsóknarverkefni nemenda og kennara með áherslu á ferðaþjónustu og flugsamgöngur og samstarf á sviði frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar. Áhersla á þverfaglega nálgun og að verkefni séu leyst við raunverulegar aðstæður á vinnumarkaði.

IFS Ráðgjöf
Samstarf við viðskiptadeild um að efla fjármálafræði sem fag á Íslandi. Með virkri þátttöku beggja aðila verður unnið að framþróun í kennslu, greiningum og rannsóknum í fjármálafræðum og ímynd fagsins efld.

Isavia
Samstarfssamningur til þriggja ára um rannsóknir á sviði flugsamgangna, einkum flugleiðsögu og flugvallarreksturs. Meginmarkmið samningsins er að byggja upp þekkingu á sviði flugsamgangna á Íslandi í samvinnu við erlenda háskóla og innlenda hagsmunaaðila. 

Íslandsbanki
Samstarfssamningur um eflingu menntunar við HR til að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Íslandsbanki og HR munu einnig auka samstarf sitt um fjármálafræðslu fyrir almenning.

KPMG
Samstarf um framþróun í kennslu og rannsóknum í reikningshaldi og endurskoðun við viðskiptadeild. Lagt verður kapp á að vekja áhuga ungs fólks á námi í þessum fræðum og þeim starfsmöguleikum sem þau kunna að bjóða.

Landsnet
Samstarfssamningur til þriggja ára um rannsóknir og menntun á sviðum áhættugreiningar, raforkuflutnings, kerfisreksturs og upplýsingatækni. Landsnet fjármagnar stöðu akademísks starfsmanns á sviði raforku. Samstarfið við Landsnet og Landsvirkjun gerir HR kleift að bjóða upp á meistaranám í raforkuverkfræði.

Landsvirkjun
Samstarfssamningur til fimm ára um menntun og rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðefnafræði, raforkuverkfræði og öðrum fræðisviðum háskólans. Landsvirkjun styrkir starfsemi HR á þessum tíma með árlegu fjárframlagi, sem HR nýtir til að fjármagna stöðu akademísks starfsmanns á sviði raforkuverkfræði. Samstarfið við Landsvirkjun og Landsnet gerir HR kleift að bjóða upp á meistaranám í raforkuverkfræði.

LS Retail

Háskólinn í Reykjavík og LS Retail, sem þróar hugbúnað fyrir þjónustu- og smásölufyrirtæki, hafa gert með sér samning um rannsóknir og menntun á sviði upplýsingatækni og viðskipta. Samkvæmt samningnum verður meðal annars stofnaður rannsóknasjóður sem mun veita fé til rannsókna og verkefna starfsmanna og nemenda HR á þessu sviði. Markmiðið er að kynna fyrir nemendum HR nýtingu fræðanna við þróun hugbúnaðar fyrir rekstur. Nemendur hafa meðal annars tekið þátt í nýsköpunarhátíð LS Retail  - sjá myndband frá keppninni

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)
Samstarfssamningur SFS og HR snýst um að efla rannsóknir og nýsköpun í sjávarútvegi með það að markmiði að auka sjálfbærni, nýtingu afurða og atvinnusköpun í greininni. Nemendum verður gert kleift að vinna nýsköpunarverkefni í starfsnámi hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og meistaranemum að tengja verkefni sín fyrirtækjum í greininni.

Syndis
Samstarf á fagsviðum sem tengjast tölvu- og upplýsingaöryggi til að efla menntun, rannsóknir og þróun á þessum sviðum.

Verkís
Samningur um bætta starfsemi tækni- og verkfræðideildar og fleiri hagnýtar áherslur í námi verk-, tækni- og iðnfræðinema í virku samstarfi við leiðandi fyrirtæki á fagsviðinu. 

VSÓ Ráðgjöf
Samningur um bætta starfsemi tækni- og verkfræðideildar og fleiri hagnýtar áherslur í námi verk-, tækni- og iðnfræðinema í virku samstarfi við leiðandi fyrirtæki á fagsviðinu.   
Var efnið hjálplegt? Nei