Samstarfsverkefni

HR starfar með íslensku atvinnulífi á fjölbreyttan hátt. Þar má nefna nemendaverkefni, starfsnám og stærri verkefni um rannsóknir og menntun sem fela í sér margra ára samstarf. Samstarfsaðilar HR eiga það sameiginlegt að meta samstarfið sem fjárfestingu til framtíðar, jafnt fyrir fyrirtækið og samfélagið í heild.

HR starfar með íslensku atvinnulífi á fjölbreyttan hátt. Þar má nefna nemendaverkefni, starfsnám og stærri verkefni um rannsóknir og menntun sem fela í sér margra ára samstarf.

Hér má sjá lista yfir nokkur af stærri samstarfsverkefnum HR og atvinnulífsins:

CCP

Samstarfssamningur til fimm ára um kennslu og rannsóknir. CCP fjármagnar nýja stöðu við tölvunarfræðideild sem mun sinna bæði rannsóknum og kennslu í tölvuleikjagerð. Gert er ráð fyrir nánu samstarfi við gervigreindarsetur HR, CADIA, og íslenskan tölvuleikjaiðnað.

Deloitte

Samstarf um framþróun í kennslu og rannsóknum í reikningshaldi og endurskoðun við viðskiptadeild. Lagt verður kapp á að vekja áhuga ungs fólks á námi í þessum fræðum og þeim starfsmöguleikum sem þau kunna að bjóða.

Eimskip

Háskólinn í Reykjavík og Eimskip hafa gert með sér samkomulag um samstarf á sviði frumkvöðla- og nýsköpunarstarfs, rannsókna og menntunar tengt sjó- og landflutningalausnum. Með samningnum var settur á fót rannsóknarsjóður sem styrkir rannsóknar- og þróunarverkefni nemenda og kennara við HR þar sem áherslur eru lagðar á þarfir Eimskips. Sem dæmi um möguleg viðfangsefni má nefna flæðisstjórnun, endurnýtingu gáma og bretta, lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa og samfélagsverkefni.

Icelandair

Samstarfssamningur til þriggja ára um rannsóknarverkefni nemenda og kennara með áherslu á ferðaþjónustu og flugsamgöngur og samstarf á sviði frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar. Áhersla á þverfaglega nálgun og að verkefni séu leyst við raunverulegar aðstæður á vinnumarkaði.

Isavia

Samstarfssamningur til þriggja ára um rannsóknir á sviði flugsamgangna, einkum flugleiðsögu og flugvallarreksturs. Meginmarkmið samningsins er að byggja upp þekkingu á sviði flugsamgangna á Íslandi í samvinnu við erlenda háskóla og innlenda hagsmunaaðila. 

Arion banki

Nemendur og sérfræðingar Háskólans í Reykjavík munu í samstarfi við starfsfólk Arion banka vinna að rannsóknum og þróun á nýjum hugbúnaði, þjónustu og fjölbreyttum lausnum fyrir bankakerfi framtíðarinnar. Markmiðið með samstarfssamningnum er að nýta tækifærin í breyttu landslagi til framþróunar svo Ísland verði í fararbroddi á sviði fjártækni.

Landsnet

Samstarfssamningur til þriggja ára um rannsóknir og menntun á sviðum áhættugreiningar, raforkuflutnings, kerfisreksturs og upplýsingatækni. Landsnet fjármagnar stöðu akademísks starfsmanns á sviði raforku. Samstarfið við Landsnet og Landsvirkjun gerir HR kleift að bjóða upp á meistaranám í raforkuverkfræði.

LS Retail

Háskólinn í Reykjavík og LS Retail, sem þróar hugbúnað fyrir fyrirtæki í verslunar- og veitingarekstri, vinna saman að rannsóknum á smásöluverslun innan rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði. Rannsóknirnar miða að því að greina hvernig hefðbundin smásala geti brugðist við nýrri tækni og sífellt auknum kröfum neytenda.

Marel 

Háskólinn í Reykjavík og Marel hafa gert með sér samstarfssamning með það að markmiði að efla rannsóknir og þróun á sviðum framleiðslu tækja, hugbúnaðar og lausna fyrir matvælaiðnað. Samkvæmt samningnum munu nemendur og sérfræðingar HR í samstarfi við Marel, vinna að allt að fjórum verkefnum á ári. Verkefnin geta verið af ýmsum toga en munu taka mið af stöðu Marel sem alþjóðlegs hátæknifyrirtækis sem er í fararbroddi í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og lausna fyrir alþjóðlegan matvælaiðnað.

Síminn

Samstarf Símans og HR miðar að því að kynna fyrir nemendum háskólans nýtingu upplýsingatækni í þróun lausna fyrir fjarskiptaþjónustu og skyldan rekstur, sem og að auka áhuga þeirra á störfum sem tengjast fjarskiptum og upplýsingatækni. Síminn og HR munu vinna að samstarfi sem eflir fræðslu- og rannsóknarverkefni nemenda og kennara þar sem áhersla er lögð á þróun tækni fyrir Símann á sviði fjarskiptaþjónustu og upplýsingatækni.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)

Samstarfssamningur SFS og HR snýst um að efla rannsóknir og nýsköpun í sjávarútvegi með það að markmiði að auka sjálfbærni, nýtingu afurða og atvinnusköpun í greininni. Með samningnum hefur meistaranemum verið gert kleift að tengja verkefni sín fyrirtækjum í greininni. Auk þess hafa aðilar í sameiningu skipulagt viðburðinn Hnakkaþon, hugmyndasamkeppni þar sem nemendur þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Keppnin hefur verið haldin árlega í skólanum frá árinu 2015.



Var efnið hjálplegt? Nei