Spin-off fyrirtæki

Svokölluð „spin-off“-fyrirtæki skapa verðmæti úr þeirri þekkingu sem verður til við rannsóknir og verkefnavinnu, til dæmis ný hátæknistörf.

Nokkur slík fyrirtæki hafa verið stofnuð innan HR af nemendum og starfsmönnum með stuðningi háskólans.

Hér eru nokkur nýleg dæmi um fyrirtæki sem HR á hlut í:

Videntifier Technologies
Sérsvið Videntifier Technologies er hraðvirk margmiðlunarleit á stórum skala. Meginnotkun Videntifier-tækninnar í dag felst í leitarkerfi fyrir lögregluyfirvöld sem þurfa að finna ólöglegt myndefni eins og barnaklám á geymslumiðlum. Tæknin getur nýst á fleiri sviðum í náinni framtíð, t.d. á afþreyingar- og auglýsingamarkaði.  

FiRe
FiRe (Finger Rehabilitation) ehf. var stofnað árið 2010. Rannsóknir fyrirtækisins miða að þróun gervihandleggja sem stjórnast af taugaboðum til að auðvelda einstaklingum með mænuskaða að auka hreyfigetu fingra. Þetta er gert með því að nota raförvun (FES, Functional Electrical Stimulation) og er nýi gervilimurinn þróaður þannig að einstaklingurinn geti notað tækið án utanaðkomandi aðstoðar. Gervilimurinn er með samlaga rafskautum og er jafnframt stjórntæki. Markmið FIRe er að setja vöruna á markað innan skamms.

Skema og reKode Education
Skema veitir börnum fræðslu í forritun samkvæmt sérstakri hugmyndafræði sem hefur verið þróuð innan fyrirtækisins með áherslu á að laga nám að tækninýjungum. Fyrirtækið Skema var stofnað árið 2011 og hefur starfsfólk þess kennt yfir 2000 börnum og 200 kennurum. Fyrirtækið er óðum að verða helsti ráðgjafi í skólastarfi varðandi tækni hér á Íslandi. Á haustmánuðum 2013 var hafin innleiðing á Skema aðferðafræðinni undir merkjum reKode. Tæknisetur reKode var opnað í Washington fylki vorið 2014.

3Z Pharmaceuticals

3Z ehf. er ungt sprotafyrirtæki sem vill markaðssetja nýja aðferð við skimun í lyfjaþróun. Hjá 3Z eru sebrafiskar notaðir til skimunar á sameindum sem hafa áhrif á miðtaugakerfið en þannig má stunda skipulega leit að miðtaugakerfislyfjum framtíðarinnar.

Aðferðirnar eru mun ódýrari, hraðvirkari og mannúðlegri en þær sem mest eru notaðar í dag. 3Z stefnir á að bjóða skimunarþjónustuna til fyrirtækja í lyfjaþróun.  


Var efnið hjálplegt? Nei