Greinar

Opinn aðgangur að rannsóknum aldrei mikilvægari

25. mars 2020

Háskólabókasöfn heimsins eins og önnur bókasöfn fara ekki varhluta af áhrifum COVID -19 faraldursins. Í síðustu viku var gefin út yfirlýsing af hálfu alþjóðasamtaka bókasafna um mikilvægi þess að útgefendur opni aðgang að rannsóknum sem gætu flýtt fyrir vinnu við bóluefni gegn vírusnum en einnig og ekki síður að útgefendur opni aðgang að kennslubókum og -efni sem nýtist nemendum og kennurum í fjarkennslu svo hægt sé að ljúka önninni.

Bókasafn Háskólans í Reykjavík er hluti af samtökum bókasafna á Íslandi sem kallast Landsaðgangur (sjá vef verkefnisins: hvar.is) en Landsaðgangur er einmitt dæmi um samtök bókasafna á Íslandi sem greiðir fyrir aðgang að annars lokuðu efni frá fjölmörgum útgefendum.

Yfirlýsing alþjóðlegra samtaka bókasafna í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins

Útgáfudagur:

13. mars 2020

Yfirlýsing: Statement on the Global COVID-19 Pandemic and ItsImpact on Library Services and Resources

Þessi yfirlýsing, rituð fyrir hönd ICOLC (International Coalition of Library Consortia), alþjóðlegra samtaka bókasafna hefur tvíþættan tilgang. Í fyrsta lagi er yfirlýsingunni ætlað að hjálpa útgefendum og og öðrum efnisbirgjum sem bókasöfn eiga viðskipti við (hér eftir nefnd einu nafni útgefendur) að öðlast betri skilning á áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins á upplýsingasamfélagið um heim allan. Í öðru lagi er tilgangur yfirlýsingarinnar að koma með tillögur að aðferðum til lausna sem við teljum vera gagnkvæman hag bókasafna og útgefenda.

Í ljósi þess fordæmalausa veirufaraldurs sem nú geysar getur ICOLC ekki gengið út frá því að bókasöfn og útgefendur deili sameiginlegri sýn á hverjar séu bestu leiðirnar til að takast á við ástandið. Meðlimir ICOLC hafa því undanfarið skipst á sjónarmiðum um hvernig COVID-19 heimsfaraldurinn muni hafa áhrif á samtökin og meðlimasöfn þeirra.

Þegar þetta er ritað (13.3.2020) hefur starfsemi háskóla og skóla í 49 löndum að hluta eða öllu leyti verið felld niður en samkvæmt tölum frá UNESCO hafa þessar lokanir áhrif á nám og kennslu um 391 milljón nemenda.

Fjölmargir háskólanemar munu ljúka yfirstandandi önn í fjarnámi í kjölfar beiðni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og fleiri um lokun fjölmennra staða til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Við biðjum útgefendur huga strax að eftirfarandi:

  1. Að opna aðgang að öllum gögnum, gagnasettum og upplýsingum varðandi COVID-19, kórónavírusa (óháð tegundum sem þessir vírusar hafa áhrif á), bóluefni, veirulyf, o.fl. sem annars eru í seldum aðgangi til bókasafna.
    Við biðjum um að þetta sé gert til að styðja við rannsóknir, leiðbeina almannavörnum og flýta fyrir uppgötvunum á árangursríkum meðferðarúrræðum gegn veirunni.
  2. Að aflétta notendatakmörkunum á stafrænu efni sem háskólabókasöfn greiða venjulega fyrir aðgengi að, nú þegar starfsemi háskóla færist á netið, til að leyfa rannsóknum, nýsköpun og námi að halda áfram þrátt fyrir ástandið.
  3. Að aflétta tímabundið samningsbundnum takmörkunum á millisafnalánum og/eða skönnunartakmörkunum svo bókasöfn geti aðstoðað nemendur sína við að ljúka önninni.
  4. Að leyfa hámarks svigrúm á höfundarréttartakmörkunum og leyfi til sanngjarnra notkunnar (e. fair use) og veita einnig undantekningar frá höfundarrétti jafnvel þó að samningar segi annað til að gera stofnunum kleift að halda áfram mikilvægum kennsluverkefnum þegar háskólasvæðin lokast og færast á netið með fjarkennslu.

Við biðjum útgefendur um að huga að áætlunum til að:

  1. Að leyfa sveigjanlegri endurnýjunartíma og lengja í gjalddögum vegna greiðslna þar sem við vitum ekki hvaða framtíðaráhrif faraldurinn hefur á heilsufar starfsfólks bókasafna sem sjá um viðskiptaferlana gagnvart útgefendum. Ef endurnýjunarferlið truflast biðjum við útgefendur að halda aðgangi að efninu opnum gagnvart meðlimasöfnum okkar, jafnvel þótt núverandi samningur samtakanna eða stofnunarinnar gæti verið útrunninn.
  2. Að fresta eða lágmarka fyrirhuguðum verðhækkunum þar til þær truflanir sem við sjáum nú í notendasamfélögum okkar, lýðheilsukerfi og á hlutabréfamörkuðum um allan heim róast. Fjárhagsleg áhrif á menntastofnanir og efnahag heimsins eru enn óþekkt og verðhækkanir munu auka enn álag á háskóla og sveitarfélög undir þessum kringumstæðum. Skilmálar og stöðluð verðlagning geta virkað á tímum stöðugleika en undir núverandi kringumstæðum munu bókasöfn eins og aðrar stofnanir finna fyrir fjárhagslegum þrýstingi til að hagræða.
  3. Þróa áætlanir um að aflétta tímabundið greiðsluhindrunum eða þróa aðrar aðferðir til að auðkenna notendur og auðvelda þannig aðgengi að áskriftarefni sem er undir miklu notendaálagi um þessar mundir vegna óvenjumikillar umferðar (VPN og proxy þjónar).
  4. Að aflétta háskólasvæðis-takmörkunum þannig að nám geti haldið áfram með fjarkennslu þrátt fyrir lokanir háskóla.

Við hvetjum útgefendur til að vinna með alþjóðasamtökum bókasafna og bókasöfnum almennt í þágu allra samfélaga. Samtök bókasafna eru vel í stakk búin til að vera skilvirkasta leiðin til að gæta að hagsmunum bæði lesenda og útgefenda og skapa lausnir sem þjóna hagsmunum samfélagsinsins í heild sinni.

Það er í þágu bæði útgefenda og samtaka bókasafna að leita skapandi lausna að aðgengi að lífsnauðsynlegum rannsóknarupplýsingum í eigu útgefenda fyrir áframhaldandi rannsóknir í lýðheilsuvísindum.

Að lokum mælumst við til þess að bókasöfn, samtök bókasafna og útgefendur nýti þessar tillögur í samtölum sín á milli svo hægt sé að koma eins miklum upplýsingum og mögulegt er til notenda sem þurfa á þeim að halda. Við teljum að tillögur okkar veiti traustan grunn fyrir upplýsingasamfélagið, þar með talið útgefendum fræðilegra upplýsinga, til að halda áfram á þessum fordæmalausu tímum.

Við erum þakklát viðbrögðum bókasafna og útgefenda á þessum viðsjárverðum tímum.

Reykjavík, 24.3.2020
Þýtt og staðfært af stjórn Landsaðgangs
(hvar.is)


Var efnið hjálplegt? Nei