Munnlegar heimildir

Í Gagnfræðakveri handa háskólanemum, fjórðu útgáfu frá 2007, eftir Friðrik H. Jónsson og Sigurð J. Grétarsson segir:

Munnlegar heimildir á aðeins að nota ef ritaðar heimildir eru ekki til. Þær lýsa yfirleitt persónulegri skoðun eða sérstöku sjónarhorni heimildarmanns, oftast í sögulegu ljósi. Munnlegar heimildir geta verið af ýmsu tagi, til dæmis sendibréf, minnisblöð, símtöl, tölvupóstur, viðtöl og fyrirlestrar. Þar sem ekki er um að ræða gögn sem aðrir hafa greiðan aðgang að á ekki að tilgreina munnlegar heimildir í heimildaskrá heldur eingöngu að geta þeirra í texta. Líta ber á kennslustundir og fyrirlestra sem munnlega heimild þar sem viðkomandi fyrirlestur er ekki til prentaður eða ljósritaður. Almennt séð á ekki að vísa í slíkt efni í ritgerðum þar sem yfirleitt eru til ritaðar heimildir um viðfangsefnið. Birta skal upphafsstafi fornafna auk eftirnafns í erlendum nöfnum en að öðru leyti skal farið með þessar heimildir eins og aðrar tilvitnanir í texta. (bls. 100-101)

Dæmi:

  • J.P. Smith (munnleg heimild, tölvupóstur, 30. desember 2011) ...
  • (M. Morris, munnleg heimild, viðtal, 30. desember 2011) ...
  • Alda Jónsdóttir (munnleg heimild, símtal, 14. apríl 1999) ...

Æskilegt getur verið að taka fram upplýsingar um viðmælanda, t.d. starfsheiti (forstjóri fyrirtækis) eða sérfræðingur á ákveðnu sviði tengdu umfjöllunarefninu. Einnig má geta í tilvísun hvaðan upplýsingarnar eru fengnar, svo sem hvar og hvenær, t.d. símtal, tölvupóstur, viðtal o.s.frv.

Dæmi:

  • (Sigurður Jónsson, forstjóri XXXX, munnleg heimild, viðtal, 5. september 2012)
  • (Guðmundur Gunnarsson, símtal, 28. janúar 2011)

ATH Munnlegar heimildir eru aldrei skráðar í heimildaskrá.

Síðast uppfært 23. mars. 2017


Var efnið hjálplegt? Nei