Heimildaskráningarstaðlar

APA - IEEE - OSCOLA

Í HR er mikið lagt upp úr faglegum vinnubrögðum og þar undir fellur skráning á heimildum skv. viðurkenndum heimildaskráningarstöðlum.  Rétt skráning heimilda í verkefnum og ritgerðum á háskólastigi getur gert útslagið um fræðilegt mat á verkefninu. Helstu heimildaskráningarstaðlar sem notaðir eru í deildum háskólans eru APA, IEEE og OSCOLA.

APA staðallinn

APA (American Psychological Association) heimildaskráningarstaðal er skylda að nota í viðskiptafræði, sálfræði og íþróttafræði, en getur verið valfrjálst að nota hann í ýmsum öðrum deildum. 

Önnur hjálpargögn: 

Það sem einkum þarf að hafa í huga við notkun heimilda er annars vegar að geta þeirra heimilda sem stuðst er við með skýrum og skipulegum hætti í texta, hins vegar að skrá heimildir rétt í heimildaskrá. Samkvæmt APA-staðlinum "... samanstendur vísun í texta af nafni höfundar eða höfunda og útgáfuári verksins sem vísað er til eða vitnað í" (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007, bls. 80).

Bein tilvitnun

Þegar texti er tekinn orðréttur úr heimild er talað um beina tilvitnun. Í slíkum tilfellum verður að geta höfundar, útgáfuárs og blaðsíðutals. Beinar tilvitnanir sem eru innan við 40 orð eru auðkenndar með gæsalöppum og felldar inní texta. Beinar tilvitnanir sem eru lengri en 40 orð eru hafðar inndregnar í texta (5 stafabil) án gæsalappa. Langar tilvitnanir þykja ekki prýða texta og er miðað við að bein tilvitnum sé ekki lengri en 10 línur. Ekki er mælt með að nota beinar tilvitnanir nema í undantekningartilfellum þegar orðalag skiptir öllu máli. Athugið að þýðingar af einu tungumáli á annað teljast vera beinar tilvitnanir og hlíta því ofangreindum reglum.

Blaðsíðutal þarf alltaf að fylgja þegar um beinar tilvitnanir er að ræða, sjá eftirfarandi dæmi: 
"Inngangur hefst oftast á því að rannsóknin er sett í víðara samhengi" (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007, bls. 30).

Óbein tilvitnun

Ekki þykir gott að nota mikið af beinum tilvitnunum í texta. "Betra er að umorða texta þess höfundar sem vitnað er í og vitna þannig óbeint í hann" (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007, bls. 82). Í slíkum tilvikum eru ekki notaðar gæsalappir, hins vegar er höfundar og útgáfuárs rits getið. Valkostur í staðlinum er að nota líka blaðsíðutal þegar vitnað er óbeint til heimilda, og getur kennari óskað eftir því enda auðveldar það að finna hvar tilvitnunin er staðsett í heimild. 
Hægt er að haga orðalagi óbeinna tilvitnanna á fleiri en einn veg. Einnig geta tilvísanir, þ.e. hvernig vitnað er í heimildir, verið mismunandi. Sjá eftirfarandi dæmi:

 • Apar ná ekki tökum á setningafræði. Það staðfesta tilraunir manna til að kenna þeim að tala (Gleitman, 1986).
 • Af tilraunum manna til að kenna öpum að tala má vera ljóst að þeir ná ekki tökum á setningarfræði (Gleitman, 1986, bls. 72). 
 • Árið 1986 sýndi Gleitman fram á að apar ná ekki tökum á setningafræði.
 • Rannsóknarniðurstöður Gleitmans (1986) staðfesta að apar ná ekki tökum á setningafræði.

Heimild í heimild

Samkvæmt APA má ekki vísa í heimild nema hafa lesið hana. Alltaf er mælt með því að vísa í frumheimildir. Frumheimild er upprunaleg heimild, t.d. niðurstöður rannsókna, skýrslur og ræður. Það kemur þó oft fyrir að ekki er mögulegt að nálgast frumheimildina t.d. ef hún er hvorki aðgengileg í gagnasöfnum sem aðgangur er að, eða ef frumheimildin er hvorki fáanleg á landinu né í millisafnaláni. Þá verður að vísa í afleidda heimild, þ.e. heimild sem vitnað er í í frumheimild.

Sjá eftirfarandi dæmi:

 • Ég hef lesið fræðilega tímaritsgrein (afleidd heimild) eftir John Greenberg þar sem hann vitnar í aðrar fræðilegar heimildir (frumheimildir). Mig vantar frumheimildirnar fyrir verkefnið sem ég er að skrifa, en get hvorki fengið aðgang að heimildunum hér á landi né í millisafnaláni frá erlendum bókasöfnum.

  John Greenberg er m.a. að vitna í rannsókn eftir Miller og Gray sem ég get ekki fengið aðgang að og mætti þess vegna ekki nota. Ég má hins vegar vísa í hana með ákveðnum hætti.

  Þ.e. í megintexta verkefnisins kemur "Rannsókn Millers og Gray (eins og vísað er til í Greenberg) leiddi í ljós ..."

  Ég má ekki vísa í heimild í heimildaskrá sem ég hef ekki lesið og því kemur afleidda heimildin í heimildaskrána:

  Greenberg, J. (1997). The effects of globalization on the 3rd world. Journal of Global Economy,67(2), 67-79. 

Heimild: Friðrik H. Jónsson og Sigurður H. Grétarsson. (2007). Gagnfræðakver handa háskólanemum (4. útg.) . Reykjavík: Háskólaútgáfan. 

IEEE staðallinn

IEEE heimildaskráningarstaðall er notaður í tæknifræði, iðnfræði, verkfræði og tölvunarfræði.  

Institute of Electrical and Electronics Engineers (IEEE), IEEE-staðallinn er víða notaður í vísindagreinum og ritgerðum einkum á sviði tækni. Samkvæmt IEEE staðlinum eru tilvísanir númeraðar í hornklofum inni í meginmáli og heimildaskrá sett upp  aftast í grein/ritgerð. IEEE staðallinn og Zotero vinna vel saman. 

IEEE staðall - þegar skrifað er á ensku:  

OSCOLA staðallinn

OSCOLA - The Oxford University Standard for Citation Of Legal Authorities - heimasíða staðalsins OSCOLA er heimildaskráningastaðall sem notaður er í lögfræði.

OSCOLA leiðarvísir HR   Nýtt september 2020
      - Almennar reglur á íslensku

OSCOLA Fourth Edition            
      - Almennar reglur      
      - Frumheimildir (Stóra Bretland, EU gögn, Evrópudómstóllinn og Mannréttindadómstóll Evrópu)
      - Afleiddar heimildir (bækur, tímarit, greinar, skýrslur, vefsíður…)

OSCOLA: Citing international law sources section

      - Þjóðarréttarsamningar, alþjóðasamningar

Íslensk aðlögun OSCOLA  (mars 2020)
      - Íslenskar frumheimildir
      - Aðlögun Oscola að íslenskum rithætti (þýðingar, skammstafanir ofl.)

      - Þjóðaréttarsamningar sem Ísland er aðili aðili að
      - Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu
      - Sérreglur fyrir viðtöl, bréf og tölvupósta

Guide to Foreign and International Legal Citations 2006
      - Nota einungis fyrir frumheimildir annarra landa en Oscola 4. útg. nær til

Flýtilyklar:

Önnur hjálpargögn:

 • FAQ (heimildir sem ekki eru komnar í fjórðu útgáfu staðalsins, t.d. orðabækur, ræður, myndskeið...)

Zotero og OSCOLA

Gengur vel með hjálparforritinu Zotero. Allar leiðbeiningar um uppsetningu Zotero og OSCOLA er að finna í OSCOLA leiðarvísinum. Oscola í Zotero: 

 • heldur utan um heimildirnar
 • "grípur" heimildir af vefsíðum
 • sækir tilvísanir úr heimildasafninu inn í greinina/ritgerðina með Word Add-In
 • býr til neðanmálsgreinar
 • býr til heimildaskrá 
 • vinnur vel með afleiddar heimildir "secondary sources"
 • vinnur takmarkað með íslenskar frumheimildir "primary sources"

Notið Google til þess að finna svör við spurningum sem upp kunna að koma um OSCOLA.

 

 


Var efnið hjálplegt? Nei