Þjónusta við kennslu og rannsóknir

Þjónusta við kennslu

Þjónusta bókasafnsins við kennslu er tvíþætt. Hún felst annars vegar í fræðslu, upplýsingaráðgjöf og leiðbeiningum í tengslum við verkefnavinnu nemenda, hins vegar í því að bjóða uppá fjölbreytt efni á prenti og rafrænu formi til nota í námskeiðum sem ítarefni, kennsluefni og heimildir.

Boðið er uppá kynningar fyrir kennara, bæði einstaklinga og hópa. Tengiliðir deilda sérhæfa sig í upplýsingum á fræðasviði einstakra deilda og leggja sig fram um að bjóða starfsmönnum þeirra sem besta þjónustu.

Verkefnavinna

 • Bókaðu upplýsingafræðing í kennslustund þegar verkefni standa fyrir dyrum
  Í samráði við kennara tekur upplýsingafræðingurinn saman fræðslupakka sem er sérsniðinn fyrir viðkomandi verkefni, fer í heimildaleitir í gagnasöfnum á viðkomandi fræðasviði og heimildaskráningu sé þess óskað.
  - Nánari upplýsingar um upplýsingafræðinga sem sinna fræðslu hjá bókasafninu og sérhæfingu þeirra

 • Skráning heimilda samkvæmt heimildaskráningarstaðli
  Bókasafnið hefur tekið saman, íslenskað og staðfært, leiðbeiningar og dæmasöfn með helstu heimildaskráningarstöðlum sem notaðir eru við verkefnavinnu.

   -  APA – Publication Manual of the American Psychological Association, vinsæll skráningarstaðall í hug- og félagsvísindum, en einnig í ýmsum greinum raunvísinda. Notaður í viðskiptadeild, sálfræðideild og íþróttafræðideild.
  -  OSCOLA
  – The Oxford University Standard for Citation of Legal Authorities, skráningarstaðall í lögfræði. Notaður í lagadeild.
  -  IEEE
  – skráningarstaðall Institute of Electrical and Electronics Engineers, víða notaður í tækni- og verkfræðigreinum. Notaður í verkfræðideild, tölvunarfræðideild og iðn- og tæknifræðideild.

 • Skemman.is Skemman er rafrænt varðveislusafn íslensku háskólanna þar sem m.a. eru vistuð lokaverkefni nemenda á grunn- og framhaldsstigi. Samkvæmt samþykktum námsráðs og framkvæmdastjórnar skulu öll lokaverkefni nemenda vera vistuð í Skemmunni og er mælt með því að þau séu opin nema þau innihaldi trúnaðarupplýsingar

 • Turnitin
  Turnitin er hugbúnaður til varnar ritstuldi sem háskólar á Íslandi hafa tekið í notkun.  Hugbúnaðurinn ber texta/verkefni nemanda saman við gagnasafn sem innbyggt er í kerfið og skilar samanburðarskýrslu. Nemendur geta nýtt sér hugbúnaðinn í verkefnaskrifum og þjálfast í að vinna með heimildir, í gerð tilvísana og í heimildaskráningu. Kennarar geta nýtt hugbúnaðinn sem hjálpartæki til að greina mögulegan ritstuld. Turnitin forritið er notað inn í Canvas sem "external tool". Sjá frekari upplýsingar um Turnitin.

 • Reglur um skil lokaverkefna

 • Reglur um verkefnavinnu (Þitt hugverk) 

Námsefni

 • Kennslubókasafn
  Í kennslubókasafni er eitt eintak af öllum kennslubókum sem kenndar eru í grunnnámi á yfirstandandi misseri, auk valinna bóka í framhaldsnámi. Bókasafnið sækir upplýsingar um kennslubækur yfirstandandi misseris í bókalista HR á vef Bóksölu stúdenta. Verkefnastjórar sem hafa umsjón með bókapöntunum sinna deilda eru jafnframt hvattir til að senda umsjónarmanni kennslubókasafns bókalista ásamt upplýsingum um ítarefni í hverju námskeiði. Kennurum stendur til boða að láta taka frá efni úr safnkosti bókasafnsins, að fá efni útvegað annars staðar frá og/eða láta efni úr einkasafni liggja frammi í kennslubókasafni vegna kennslu í einstökum námskeiðum. Efni úr einkasafni kennara er eingöngu til afnota á safninu. Umsjón með kennslubókasafni hefur Anna Kristín Stefánsdóttir upplýsingafræðingur.

 • Innkaupapöntun fyrir kennslubókasafn (rafrænt form)
  Vinsamlegast notið rafræna formið til að panta inn kennslubækur fyrir kennslubókasafnið sem ekki eru nú þegar til. Hægt er að fletta upp á Leitir.is til að sjá hvaða bækur eru til á bókasafninu. Aðeins er pantað eitt eintak af kennslubókum.

 • Rafrænt námsefni á leslista námskeiðs í Canvas
  Bókasafnið hvetur kennara til að nýta sér safnkostinn í kennslu en minnir jafnframt á að mikilvægt er kynna sér vel reglur og vinnulag sem miða að því að virða höfundarétt og þá samninga sem gerðir hafa verið við eigendur efnis. Helstu leiðbeiningar fara hér á eftir og eru kennarar hvattir til að kynna sér þær. Hafið endilega samband við bókasafnið ef vafaatriði koma upp. Fræðigreinar í erlendum gagnasöfnum Sjá einnig Rafrænar greinar á kennsluvef

 • Efni á Leitir.is á leslista námskeiðs í Canvas. Leitir.is inniheldur upplýsingar um allt efni á prenti sem til er hjá bókasafninu og um efni í helstu gagnasöfnum sem bókasafnið kaupir aðgang að. Á Leitir.is er mögulegt að merkja efni, bækur og/eða tímaritsgreinar með efnisorði að eigin vali t.d. heiti námskeiðs s.s. V-502-ADFR. Nemendur geta síðan fundið efni sem kennari hefur sérmerkt með því að slá inn viðkomandi efnisorði. Allar frekari upplýsingar færðu hjá tengiliði þinnar deildar hjá bókasafninu eða með því að kynna þér leiðbeiningar á glærum.

Fræðsla

Helstu fræðsluleiðir eru:  

 • Kynningar á þjónustu bókasafnsins. Almennar kynningar á nýnemadögum, sérhæfðar kynningar á efnissviði eða fyrir einstaka hópa s.s. nemendur í MPM námi, nemendur Iceland School of Energy og doktorsnema.

 • Nemendur á fyrsta ári. Fræðsla með áherslu á að nemendur þekki viðurkennd gagnasöfn á fræðasviði og geta leitað að upplýsingum í þeim. Fræðslan er skipulögð í samráði við deildir og/eða einstaka kennara.

 • Upprifjun í tengslum við lokaverkefni; heimildaleitir, heimildaskráning, skil í Skemmu og fleira hagnýtt. Fræðslan er skipulögð í samráði við deildir og/eða einstaka kennara.

 • Fræðsla í námskeiðum sérsniðin að þörfum viðkomandi námskeiðs samkvæmt óskum kennara.

 • Kennsla í notkun heimildaskráningarforritsins Zotero.

Vinnubrögð í háskólanámi gera þá kröfu til nemenda að þeir búi yfir færni til að finna, meta og nota upplýsingar og heimildir á skilvirkan og ábyrgan hátt. Samkvæmt skilgreiningu American Library Association (ALA) frá árinu 2000, er sá sem býr yfir slíkri færni upplýsingalæs. Einnig er áhugavert að kynna sér Pragyfirlýsinguna frá 2003 um eflingu upplýsingalæsis í samfélaginu og Alexandríuyfirlýsinguna frá 2005 um upplýsingalæsi og símenntun.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vísar til upplýsingalæsis í viðmiðum sínum um æðri menntun og prófgráður frá 16. maí 2011, en þar kemur m.a. fram að nemendur sem ljúka bakkalárprófi frá háskóla viðurkenndum af ráðuneytinu samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 geti beitt aðferðum starfsgreinar eða fræðigreinar. Í því felst að nemandi „ ... greini hvenær þörf er á upplýsingum og hafi færni til að finna þær ... geti nýtt sér viðurkennd gagnasöfn og upplýsingalindir á viðkomandi fræðasviði ... “

Meðal faglegra gilda bókasafnsins er þetta: "Bókasafnið styður akademísk heilindi og vinnur gegn ritstuldi með fræðslu og ráðgjöf". Í samræmi vð það  og til að bæta akademísk vinnubrögð nemenda, býður bókasafnið reglulega uppá fræðslu sem opin er nemendum og kennurum í HR. Auk þess eru kennarar hvattir til að nýta sér þjónustu upplýsingafræðinga bókasafnsins og panta fræðslu fyrir nemendur sína. Best er að upplýsingafræðingur komi inní kennslustund í tengslum við verkefnavinnu svo hagnýtt gildi fræðslunnar sé augljóst og nemendum gefist kostur á að nýta hana sem best.

Þjónusta við rannsóknir

Upplýsingafræðingar bókasafnsins eru sérfræðingar í safnkosti bókasafnsins og hvernig hann getur nýst fræðasviðum háskólans. Þeir geta upplýst um hvaða efni er í boði og hvar það er að finna og þannig flýtt fyrir heimildaleit.

Einnig geta þeir aðstoðað við að hafa uppá frumheimildum, ráðstefnuritum, skýrslum o.fl. og veitt margvíslega hagnýta aðstoð.

Þjónusta

Upplýsingafræðingar bókasafnsins

 • Veita hagnýtar upplýsingar um heimildaskráningarforritið Zotero 

 • Veita hagnýtar upplýsingar um helstu stílsnið sem notuð eru; APAIEEE og OSCOLA

 • Finna réttar upplýsingar um tilteknar heimildir fyrir heimildaskrár

 • Aðstoða við að finna áhrifastuðla tímarita og höfunda

 • Veita upplýsingar um stefnu einstakra tímarita varðandi opinn aðgang 

 • Aðstoða við vöktun upplýsinga sem tengjast ákveðnu viðfangsefni

 • Útvega efni frá öðrum bókasöfnum: Greina- og bókapantanir, millisafnalán

 • Bjóða aðgang að gagnasöfnum og rafrænum tímaritum utan HR með fjaraðgangi

Birtingar og opinn aðgangur

Val á tímariti
Áhrifastuðlar tímarita (e. journal impact factors) segja til um mikilvægi tímarita innan tiltekins rannsóknarsviðs. InCites Journal Citation Report (JCR) inniheldur upplýsingar um áhrifastuðla alþjóðlegra vísindatímarita sem eru skráð og efnistekin í Web of Science (WoS)  frá 2006 til dagsins í dag. Veljið tímarit eða fagsvið sem við á hverju sinni á vinstri valseðlinum (select category). Aðrir gagnlegir listar yfir vísindatímarit sem bókasafnið mælir með eru:


Opinn aðgangur
Gott er að íhuga birtingu í opnum aðgangi þegar kemur að útgáfu tímaritsgreina.

Opinn aðgangur (e. open access) er opinn, ókeypis aðgangur að heildartexta fræðigreina og öðru fræðilegu efni s.s. rannsóknargögnum og skýrslum á Internetinu. Leyfilegt er að lesa og nota efnið, dreifa og afrita, með því skilyrði að vitnað sé rétt til höfundar. Birting í opnum aðgangi er í sumum tilfellum val en kröfur um birtingu rannsókna í opnum aðgangi aukast jafnt og þétt. Í Stefnu Háskólans í Reykjavík um opinn aðgang, sem samþykkt var í framkvæmdastjórn þann 13. nóvember 2014, eru starfsmenn HR hvattir til að birta afurðir vísindastarfa sinna í opnum aðgangi.

Tvær leiðir eru helstar þegar birta á í opnum aðgangi; gullna leiðin og græna leiðin. Gullna leiðin er birting í tímaritum í opnum aðgangi og hefur hún yfirleitt í för með sér kostnað sem fellur á höfund eða stofnun hans. Græna leiðin felur í sér samhliða birtingu í tímariti og vistun í varðveislusafni stofnunar eða fræðilegu varðveislusafni (t.d. Skemman, Hirslan, arXiv.org, Europe PMC). Upplýsingar um útgáfustefnu einstakra útgefenda og tímarita eru aðgengilegar á SherpaRomeo.

 • Opin vísindi - íslenskt varðveislusafn fyrir vísindaleg gögn, s.s. ritrýndar fræðigreinar, í opnum aðgangi sem allir íslensku háskólarnir eiga aðild að, þ.e. gögn birt á Íslandi eða erlendis eftir starfsfólk íslenskra háskóla og rannsóknastofnana eða með þátttöku þeirra

 • OpenAIRE er netgátt og varðveislusafn fyrir afurðir rannsókna sem kostaðar eru af Evrópusambandinu- safn greina og hrágagna, upplýsingar um vísindamenn og kennitölur fræðimanna, styrki og rannsóknastofnanir 

 • OpenDOAR yfirlit yfir opin fræðileg varðveislusöfn

 • ORCiD - umsókn um og leit að kennitölu fræðimanns Creative Commons - safn af leyfisskilmálum sem höfundar geta sett á hugverk sín og leyfa þannig notkun verka sinna svo framarlega sem skilmálarnir eru virtir

Lög og yfirlýsingar um opinn aðgang

Ýmislegt um opinn aðgang

Áhrif og sýnileiki

Hefðbundin leið til að meta sýnileika og áhrif vísindaskrifa er að reikna út áhrifastuðul höfundar (e. impact factor). Áhrifastuðlar eru jafnframt mikilvægur þáttur í mati á rannsóknarframlagi háskóla-
kennara.

Áhrifastuðull höfundar
Þekktasti áhrifastuðull höfunda er hið svokallaða h-index sem til eru nokkrar útgáfur af. Það er auðvelt að reikna út h-index einstakra höfunda í Web of Science  þ.e.a.s. þeirra sem birt hafa í tímaritum sem þar eru skráð og efnistekin. Clarivate Analytics Master Journal List gefur upplýsingar um tímarit í WoS. Anne-Will Harzing, prófessor við háskólann í Melbourne í Ástralíu hefur þróað hugbúnaðinn Publish or Perish til að auðvelda sambærilega greiningu úr Google Scholar og er hægt að hlaða niður hugbúnaðinum án endurgjalds. Gott er að kynna sér Google Scholar Citations. Aðrir áhrifastuðlar eru g-index og i10-index.

Altmetric
Altmetric er kerfi sem greinir hversu mikla athygli rannsóknir og fræðigreinar á netinu fá. Kerfið safnar gögnum frá m.a.: samfélagsmiðlum eins og Twitter, Facebook og Google+, hefðbundum fjölmiðlum eins og The Guardian, New York Times, New Scientist og Bird Watching, blogg hjá bæði stærri samtökum eins og Cancer Research UK og hjá einstaklingum og heimildatólum eins og Mendeley og CiteULike.

Meira um áhrifastuðla og mat á áhrifum vísindaskrifa
Citations metrics. (1990-2013). Í Publish or Perish 4 User's Manual.
Garfield, E. (1955). Citation indexes to science: A new dimension in documentation through association of ideas. Science, 122(16), bls. 108-111.
Marnett, A. (2010). H-index: What it is and how to find yours.

Fyrir doktorsnema

 • Upplýsingar um efni á fræðasviði og heimildaleitir.

  Upplýsingafræðingar sem sinna ráðgjöf hjá bókasafninu búa yfir þekkingu á því efni sem til er á bókasafninu á öllum fræðasviðum háskólans. Þeir geta upplýst um hvað er í boði og hvar það er að finna og þannig auðveldað heimildaleit. Einnig geta þeir aðstoðað við að hafa uppá frumheimildum, ráðstefnuritum og skýrslum.

 • Upplýsingar vegna heimildavinnu.

  Upplýsingafræðingar hafa tekið saman greinargóðar leiðbeiningar um helstu stílsnið sem notuð eru við verkefnavinnu: APA, IEEE, OSCOLA. Einnig leiðbeina þeir um notkun heimildaskráningarforrita, einkum Zotero, og ritstuldarvörnina Turn-it In .

 • Doktorsnemar skila sínum lokaritgerðum inn í Opin vísindi. Sjá leiðbeiningar.


Við getum líka:

Upplýsingafræðingar mæla með Phd on track þar sem er að finna ítarlegar upplýsingar fyrir doktorsnema.

Hafðu samband við upplýsingafræðing þinnar deildar og bókaðu tíma í upplýsingaráðgjöf.

Turn-it-in

Háskólinn er að nota Turn-it-in  ritstuldarvörnina sem gerir notendum kleift að koma auga á ritstuld og/eða rangar tilvísanir og heimildaskráningu. Kennarar ákveða hvort þeirra nemendur noti Turn-it-in. Ef kennari lætur nemendur sína ekki skila inn í Turn-it-in þá þurfa nemendur ekki að skila sínum verkefnum inn í forritið. Nemendur geta ekki óskað eftir að fá aðgang að Turn-it-in fyrir einstök verkefni.

Vönduð akademísk vinnubrögð í háskólum

HR leggur mikla áherslu á vönduð akademísk vinnubrögð eins og víða er kveðið á um í reglum skólans.

Í  Reglum um verkefnavinnu er gerð sú krafa til nemenda að þeir virði höfundarétt og að öll verkefni sem nemendur skila séu þeirra eigin hugverk. Einnig skal hvert verkefni sem nemandi skilar vera einstakt. Með því er átt við að öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan námskeiðs, milli námskeiða eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Þá segir í 8. grein  Siðareglna HR: "Við virðum hugverkaréttindi, eignum okkur ekki heiðurinn af hugmyndum annarra, og getum ávallt þeirra heimilda sem við notum, í samræmi við venjur vísindasamfélagsins."

Í  Náms og námsmatsreglum HR er einnig lögð áhersla á virðingu hugverka skv. eftirfarandi: "HR gerir þá kröfu til þín sem nemanda að öll verkefni sem þú skilar séu þitt eigið hugverk. Í því felst meðal annars að þú vinnur verkefnið sjálf(ur) frá grunni, án aðstoðar annarra, og tekur aldrei upp texta annarra eða vinnu annarra og setur fram sem þitt eigið verk. Ávallt skal geta heimilda og reglur um heimildanotkun gilda einnig um afritun eigin verka. Hvert verkefni sem skilað er, skal vera einstakt. Öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan námskeiðs, milli námskeiða eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé tekið fram."

Ritstuldur varðar við íslensk  Höfundalög nr. 73/1972, og þeirra viðurlaga sem lögin kveða á um. Höfundalög ná til hugverka sem teljast birt, þ.e. þegar eintök af verkinu með réttri höfundarheimild eru boðin til sölu, láns eða leigu, eða dreift til almennings með öðrum hætti, í einhverju magni.

Hafðu samband

Irma Hrönn Martinsdóttir


1. hæð í Úranus (Ú103)
irmam@ru.is sími: 599 6249
Sálfræðideild | Viðskiptadeild | MBA | Háskólagrunnur | APA staðall | Zotero aðstoð

Kristína Benedikz

Upplýsingafræðingur

1. hæð í Úranusi (Ú103)
kristinab@ru.is sími: 599 6410
Lagadeild | OSCOLA staðall | Zotero aðstoð | Skemman

Ragna Björk Kristjánsdóttir

Upplýsingafræðingur

1. hæð í Úranusi (Ú103)
ragnabjork@ru.is sími: 599 6235 / 698 8910
Iðn- og tæknifræðideild | Íþróttafræðideild | Verkfræðideild | Tölvunarfræðideild | IEEE staðall | APA staðall | Zotero aðstoð

Anna Kristín Stefánsdóttir

Upplýsingafræðingur

1. hæð í Úranusi (Ú103)
annast@ru.is sími: 599 6491
Umsjón með kennslubókasafni

Var efnið hjálplegt? Nei