Þjónusta við kennslu

Þjónusta BUHR við kennslu er tvíþætt. Hún felst annars vegar í fræðslu, upplýsingaráðgjöf og leiðbeiningum í tengslum við verkefnavinnu nemenda, hins vegar í því að bjóða uppá fjölbreytt efni á prenti og rafrænu formi til nota í námskeiðum sem ítarefni, kennsluefni og heimildir.

Boðið er uppá kynningar fyrir kennara, bæði einstaklinga og hópa. Tengiliðir deilda sérhæfa sig í upplýsingum á fræðasviði einstakra deilda og leggja sig fram um að bjóða starfsmönnum þeirra sem besta þjónustu.


Verkefnavinna
 • Bókaðu upplýsingafræðing í kennslustund þegar verkefni standa fyrir dyrum
  Í samráði við kennara tekur upplýsingafræðingurinn saman fræðslupakka sem er sérsniðinn fyrir viðkomandi verkefni, fer í heimildaleitir í gagnasöfnum á viðkomandi fræðasviði og heimildaskráningu sé þess óskað.
  - Nánari upplýsingar um upplýsingafræðinga sem sinna fræðslu hjá BUHR og sérhæfingu þeirra

 • Skráning heimilda samkvæmt heimildaskráningarstaðli
  BUHR hefur tekið saman, íslenskað og staðfært, leiðbeiningar og dæmasöfn með helstu heimildaskráningarstöðlum sem notaðir eru við verkefnavinnu.
   -  APA – Publication Manual of the American Psychological Association, vinsæll skráningarstaðall í hug- og félagsvísindum, en einnig í ýmsum greinum raunvísinda. Notaður í viðskiptadeild og íþróttafræði í tækni- og verkfræðideild
   -  OSCOLA – The Oxford University Standard for Citation of Legal Authorities, skráningarstaðall í lögfræði. Notaður  í lagadeild 
   -  IEEE – skráningarstaðall Institute of Electrical and Electronics Engineers, víða notaður í tækni- og verkfræðigreinum

 • Skemman.is 
  Skemman er rafrænt varðveislusafn íslensku háskólanna þar sem m.a. eru vistuð lokaverkefni nemenda á grunn- og framhaldsstigi. Samkvæmt samþykktum námsráðs og framkvæmdastjórnar skulu öll lokaverkefni nemenda vera vistuð í Skemmunni og er mælt með því að þau séu opin nema þau innihaldi trúnaðarupplýsingar

 • Turnitin
  Turnitin er hugbúnaður til varnar ritstuldi sem háskólar á Íslandi hafa tekið í notkun.  Hugbúnaðurinn ber texta/verkefni nemanda saman við gagnasafn sem innbyggt er í kerfið og skilar samanburðarskýrslu. Nemendur geta nýtt sér hugbúnaðinn í verkefnaskrifum og þjálfast í að vinna með heimildir, í gerð tilvísana og í heimildaskráningu. Kennarar geta nýtt hugbúnaðinn sem hjálpartæki til að greina mögulegan ritstuld. Turnitin forritið er notað inn í Canvas sem "external tool". Sjá frekari upplýsingar um Turnitin.

 • Reglur um skil lokaverkefna
 • Reglur um verkefnavinnu (Þitt hugverk) 


Námsefni
 • Kennslubókasafn
  Í kennslubókasafni er eitt eintak af öllum kennslubókum sem kenndar eru í grunnnámi á yfirstandandi misseri, auk valinna bóka í framhaldsnámi. Bókasafnið sækir upplýsingar um kennslubækur yfirstandandi misseris í bókalista HR á vef Bóksölu stúdenta. Verkefnastjórar sem hafa umsjón með bókapöntunum sinna deilda eru jafnframt hvattir til að senda umsjónarmanni kennslubókasafns bókalista ásamt upplýsingum um ítarefni í hverju námskeiði.

  Kennurum stendur til boða að láta taka frá efni úr safnkosti BUHR, að fá efni útvegað annars staðar frá og/eða láta efni úr einkasafni liggja frammi í kennslubókasafni vegna kennslu í einstökum námskeiðum. Efni úr einkasafni kennara er eingöngu til afnota á safninu. Umsjón með kennslubókasafni hefur Anna Kristín Stefánsdóttir upplýsingafræðingur.

 • Innkaupapöntun fyrir kennslubókasafn (nýtt form)
  Vinsamlegast notið þetta rafræna form til að panta inn kennslubækur fyrir kennslubókasafnið sem ekki eru nú þegar til. Hægt er að fletta upp á Leitir.is til að sjá hvaða bækur eru til á bókasafninu. Aðeins er pantað eitt eintak af kennslubókum.

 • Rafrænt námsefni á leslista námskeiðs í Canvas
  Bókasafnið hvetur kennara til að nýta sér safnkostinn í kennslu en minnir jafnframt á að mikilvægt er kynna sér vel reglur og vinnulag sem miða að því að virða höfundarétt og þá samninga sem gerðir hafa verið við eigendur efnis. Helstu leiðbeiningar fara hér á eftir og eru kennarar hvattir til að kynna sér þær. Hafið endilega samband við bókasafnið ef vafaatriði koma upp.
  Fræðigreinar í erlendum gagnasöfnum Sjá einnig Rafrænar greinar á kennsluvef

 • Efni á Leitir.is á leslista námskeiðs í Canvas
  Leitir.is inniheldur upplýsingar um allt efni á prenti sem til er hjá BUHR og um efni í helstu gagnasöfnum sem BUHR kaupir aðgang að. Á Leitir.is er mögulegt að merkja efni, bækur og/eða tímaritsgreinar með efnisorði að eigin vali t.d. heiti námskeiðs s.s. V-502-ADFR. Nemendur geta síðan fundið efni sem kennari hefur sérmerkt með því að slá inn viðkomandi efnisorði. Allar frekari upplýsingar færðu hjá tengiliði þinnar deildar hjá BUHR eða með því að kynna þér leiðbeiningar á glærum.


Fræðsla BUHR

Vinnubrögð í háskólanámi gera þá kröfu til nemenda að þeir búi yfir færni til að finna, meta og nota upplýsingar og heimildir á skilvirkan og ábyrgan hátt. Samkvæmt skilgreiningu American Library Association (ALA) frá árinu 2000, er sá sem býr yfir slíkri færni upplýsingalæs. Sjá frekari upplýsingar um viðmið samtakanna. Einnig er áhugavert að kynna sér Pragyfirlýsinguna frá 2003 um eflingu upplýsingalæsis í samfélaginu og Alexandríuyfirlýsinguna frá 2005 um upplýsingalæsi og símenntun.


Mennta- og menningarmálaráðuneytið vísar til upplýsingalæsis í viðmiðum sínum um æðri menntun og prófgráður frá 16. maí 2011, en þar kemur m.a. fram að nemendur sem ljúka bakkalárprófi frá háskóla viðurkenndum af ráðuneytinu samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 geti beitt aðferðum starfsgreinar eða fræðigreinar. Í því felst að nemandi „ ... greini hvenær þörf er á upplýsingum og hafi færni til að finna þær ... geti nýtt sér viðurkennd gagnasöfn og upplýsingalindir á viðkomandi fræðasviði ... “


Meðal faglegra gilda bókasafnsins er þetta: "Bókasafnið styður akademísk heilindi og vinnur gegn ritstuldi með fræðslu og ráðgjöf". Í samræmi vð það  og til að bæta akademísk vinnubrögð nemenda, býður BUHR reglulega uppá fræðslu sem opin er nemendum og kennurum í HR. Auk þess eru kennarar hvattir til að nýta sér þjónustu upplýsingafræðinga BUHR og panta fræðslu fyrir nemendur sína. Best er að upplýsingafræðingur komi inní kennslustund í tengslum við verkefnavinnu svo hagnýtt gildi fræðslunnar sé augljóst og nemendum gefist kostur á að nýta hana sem best.


Helstu fræðsluleiðir eru:  

 • Kynningar á þjónustu BUHR. Almennar kynningar á nýnemadögum, sérhæfðar kynningar á efnissviði eða fyrir einstaka hópa s.s. nemendur í MPM námi, nemendur Iceland School of Energy og doktorsnema.
 • Nemendur á fyrsta ári. Fræðsla með áherslu á að nemendur þekki viðurkennd gagnasöfn á fræðasviði og geta leitað að upplýsingum í þeim. Fræðslan er skipulögð í samráði við deildir og/eða einstaka kennara.
 • Upprifjun í tengslum við lokaverkefni; heimildaleitir, heimildaskráning, skil í Skemmu og fleira hagnýtt. Fræðslan er skipulögð í samráði við deildir og/eða einstaka kennara.
 • Fræðsla í námskeiðum sérsniðin að þörfum viðkomandi námskeiðs samkvæmt óskum kennara.
 • Kennsla í notkun heimildaskráningarforritsins Zotero.

  Bókaðu fræðslu hjá tengilið þinnar deildar


Hafðu samband

  Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir, upplýsingafræðingur
1. hæð í Úranusi (Ú103)
hafdisdh@ru.is sími: 599 6295
Viðskiptafræði / Sálfræði / Íþróttafræði / Opni háskólinn
Frumgreinar / Erlendir skiptistúdentar
APA staðall / Zotero aðstoð

  Kristína Benedikz, upplýsingafræðingur
1. hæð í Úranusi (Ú103)
kristinab@ru.is sími: 599 6410
Lögfræði
OSCOLA staðall / Zotero aðstoð / Skemman 

  Ragna Björk Kristjánsdóttir, upplýsingafræðingur
1. hæð í Úranusi (Ú103)
ragnabjork@ru.is sími: 599 6235 / 698 8910
Tækni- og verkfræði / Tölvunarfræði
IEEE staðall / APA staðall / Zotero aðstoð

  Anna Kristín Stefánsdóttir, upplýsingafræðingur
1. hæð í Úranusi (Ú101)
annast@ru.is sími: 599 6491
Umsjón með námsbókasafni
Var efnið hjálplegt? Nei