Um bókasafnið

Hlutverk bókasafns og upplýsingaþjónustu HR (BUHR) er að styðja og efla sköpun og miðlun þekkingar við Háskólann í Reykjavík með því að safna efni á fræðasviðum skólans, gera það aðgengilegt og veita notendum safnsins góða þjónustu. Nánar um safnkost BUHR .

Þjónusta er kjarninn í starfsemi BUHR. Þjónustan er einkum ætluð nemendum og starfsfólki Háskólans í Reykjavík. Öllum er þó velkomið að heimsækja safnið á auglýstum afgreiðslutíma og nýta sér safnkostinn.

 Alla virka daga er upplýsingafræðingur á vakt til að aðstoða við heimildavinnu. Hægt er að panta tíma eða líta við á auglýstum afgreiðslutíma.

Fræðsla er mikilvægur þáttur í þjónustu safnsins. Markmið fræðslunnar er tvíþætt. Hún miðar að því að efla með notendum færni í upplýsingalæsi, þ.e. að finna, nota og meta upplýsingar með faglegum og ábyrgum hætti og kynna bókasafnið og fjölbreyttar upplýsingalindir þess fyrir nemendum og starfsfólki.

Stærstur hluti safnefnis er á rafrænu formi og til að það nýtist nemendum sem best í námi sínu við háskólann þurfa þeir að þekkja leiðir til að nálgast efnið og kunna skil á innihaldi þess. Nánar um fræðslu BUHR og upplýsingalæsi.

Samstarf
um rafræna miðlun safnkosts er BUHR mikilvægt. BUHR er áskrifandi að bókasafnskerfinu  Leitir.is. Leitir er samskrárkerfi íslenskra bókasafna og upplýsingamiðstöðva. Landskerfi bókasafna sér um rekstur kerfisins, en starfsmenn BUHR reyna að leggja sitt af mörkum til áframhaldandi þróunar kerfisins og innleiðingar nýjunga sé leitað til þeirra um slíkt.

Annað mikilvægt samstarfsverkefni er Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum í umsjón Landsbókasafns Íslands. Loks má nefna þátttöku BUHR frá 2010 í Skemman.is, rafrænu varðveislusafni íslenskra háskóla.

 

 


Var efnið hjálplegt? Nei