Safnkostur

Bókasafn og upplýsingaþjónusta Háskólans í Reykjavík er sérfræðisafn á fræðasviðum háskólans, félagsvísinda, verk- og tæknivísinda. Uppbygging safnsins tekur mið af þeim undirflokkum þessara sviða sem lögð er stund á í HR.

BUHR á u.þ.b. 24.000 titla á prenti, kaupir rúmlega 20.000 vísindatímarit í rafrænni áskrift og aðgang að fjölmörgum gagnasöfnum. Háskólinn í Reykjavík er þátttakandi í verkefni um Landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum en Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur umsjón með verkefninu.

Safnkosti BUHR er einkum ætlað að mæta þörfum HR vegna kennslu og náms til bakkalár- og meistaraprófs og hefur uppbygging safnkosts á fyrstu starfsárunum einkum miðað að því að mæta þörfum þessa hóps. Í framtíðinni vill BUHR mæta betur þörfum þeirra fjölmörgu sem stunda rannsóknir við skólann. Bæði starfsmanna og doktorsnema  eftir því sem við verður komið.

BUHR kaupir flest allt íslensk efni á fræðasviðum HR sem komið hefur út frá því safnið hóf starfsemi árið 1999. Einnig lykilefni í lögfræði frá upphafi útgáfu, Alþingistíðindi, Stjórnartíðindi, Hæstaréttardóma og íslensku lagatímaritin Úlfljót og Tímarit lögfræðinga. Um annað eldra íslenskt efni sem ekki er til í HR er notendum bent á Landsbókasafn Íslands í Þjóðarbókhlöðu. Samkvæmt lögum um skylduskil nr. 20 frá 2002 er Landsbókasafn Íslands varðveislusafn allra íslenskra útgáfurita. Tilgangurinn með varðveislunni er m.a. " ... að efnið geti verið tiltækt til nota vegna rannsókna og fræðiiðkana eða annarra réttmætra þarfa".

Um leið og BUHR miðar efniskaup við þarfir Háskólans í Reykjavík, er jafnframt litið til annarra íslenskra háskólabókasafna við val á efni. Oft er aðgangur allt sem þarf og öflug millisafnalánaþjónusta er mikilvægur þáttur í starfsemi BUHR.

Frá upphafi hefur uppbygging safnsins mótast af þeirri upplýsingatæknibyltingu sem sett hefur mark sitt á bókasöfn og upplýsingamiðstöðvar s.l. 15 - 20 ár og er safnkosturinn að stærstum hluta rafrænn. Meginstefnan er að stúdentar og starfsmenn HR hafi aðgang að rafrænu efni á sínum fræðasviðum sambærilegan við það sem best gerist í alþjóðlegu háskólasamfélagi.

Leiðarljós við uppbyggingu safnkosts BUHR eru:

  • Þarfir notenda í öndvegi
  • Aðgangur að gæðaupplýsingum
  • Áhersla á rafrænan safnkost

Var efnið hjálplegt? Nei