Fréttir

Lið Kvennó kom, sá og sigraði

3.10.2014

Kvennaskólinn í Reykjavík bar sigur úr býtum í Boxinu í ár. Meðlimir sigurliðsins eru þau Ólöf Svafarsdóttir, Hrönn Kjartansdóttir, Heiðar Benediktsson, Rögnvaldur Konráð Helgason og Daniel Adam Pilkington.

Þetta var í þriðja skiptið sem Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna var haldin en markmið keppninnar er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði. Lið Fjölbrautarskóla Suðurlands var í þriðja sæti og lið Menntaskólans í Reykjavík í öðru.

Keppnin var óvenju jöfn og úrslit skýrðust ekki fyrr en eftir síðustu þarutina.

Lið Kvennaskólans í Reykjavík

Sigurlið Kvennaskólans í Reykjavík ásamt Ara Kristni Jónssyni, rektor HR og Svönu Helen Björnsdóttur, formanni Samtaka iðnaðarins.

Alls tóku 18 lið þátt í forkeppni og komust átta efstu liðin áfram. Liðin sem kepptu til úrslita í gær voru: Menntaskólinn í Reykjavík, Verslunarskóli Íslands, Tækniskólinn, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Flensborgarskóli, Kvennaskólinn og Menntaskólinn við Hamrahlíð. Þess má geta að í ár voru stelpur í úrslitakeppninni sjö talsins en voru aðeins tvær í fyrra.

Í Boxinu þurfa keppendurnir að geta unnið hratt og vel að sameiginlegu markmiði og sýna fram á ákveðið hug- og verkvit auk þess sem liðsheild skiptir miklu máli. Keppni af þessu tagi er því góð leið til að gera margvíslegum hæfileikum hátt undir höfði.

Við mat á lausnum réð meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki. Liðin þurftu til dæmis að útbúa lítið fley sem gat flotið á vatni, leysa forritunarþrautir, búa til píanó úr álpappír með aðstoð tölvuforrits og setja saman ýmsa hluti.

Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna í ár eru Ístak, Marel, Skema, Járnsmiðja Óðins, Promens, TM Software og Marorka.

Sjá myndir úr keppninni:

www.facebook.com/boxid

Meira um Boxið:

boxid.ru.is