Fara á umsóknarvef

Doktorsnám við lagadeild

Doktorsnám (PhD) við lagadeild HR er á eftirfarandi réttarsviðum:

Bótaréttur, þar á meðal skaðabótaréttur og vátryggingaréttur, og sjóréttur.
Nánari upplýsingar veitir dr. Guðmundur Sigurðsson, prófessor, netfang: gudmundur@ru.is

EES-réttur.
Nánari upplýsingar veitir dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor, netfang: margreteinars@ru.is

Evrópuréttur.
Nánari upplýsingar veitir dr. Gunnar Þór Pétursson, prófessor, netfang: gunnarthor@ru.is

Loftslagsréttur, umhverfisréttur, hafréttur og þjóðaréttur.
Nánari upplýsingar veitir dr. Snjólaug Árnadóttir, lektor, netfang: snjolauga@ru.is

Stjórnskipunarréttur, stjórnskipunarsaga og samanburðarstjórnskipun.
Nánari upplýsingar veitir dr. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor, netfang: ragnhildurh@ru.is

Stjórnsýsluréttur.
Nánari upplýsingar veitir dr. Margrét Vala Kristjánsdóttir, dósent, netfang: margretvala@ru.is

Verðbréfamarkaðsréttur, fjármálamarkaðsréttur og félagaréttur.
Nánari upplýsingar veitir dr. Andri Fannar Bergþórsson, dósent, netfang: andrib@ru.is




Um námið

Doktorsnám er fullt nám í þrjú ár og er 180 einingar. Gert er ráð fyrir því að námstíminn vari í fjögur ár ef nemandi sinnir kennslu eða öðrum störfum með náminu.

Til að uppfylla kröfur til að öðlast doktorsgráðu frá lagadeild Háskólans í Reykjavík skal doktorsnemi, undir leiðsögn doktorsmenntaðs leiðbeinanda, hafa unnið vísindalegar rannsóknir sem fela í sér sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á sviði lögfræði.

Doktorsgráðu skal því aðeins veita að doktorsnemi hafi unnið sjálfstæðar frumlegar rannsóknir sem hafi nægjanlegt nýnæmi og vísindalegt gildi og séu af nægu umfangi til þess að verðskulda gráðuna.

Stundakennsla og starfssvið

Doktorsnemi sem velur að vinna hjá HR með námi stendur til boða 25% starf sem stundakennari/aðstoðarmaður á ári. Doktorsnemi í 25% starfi kennir 2 námskeið á 4 árum, eða sem svarar 1/2 námskeiði á ári. Doktorsnemi sinnir að öðru leyti störfum aðstoðarmanns, s.s. aðstoð við yfirferð prófa, umsjón með námsverkefnum eða rannsóknaraðstoð hjá leiðbeinanda í einn mánuð á ári. Verkefni skulu vera skýrt skilgreind.   

Námskeið

Ekki er sérstök námskeiðalína í doktorsnámi. Þess í stað eru námskeið og rannsóknarmálstofur skipulögð ad hoc, eða í samstarfi við aðra háskóla og rannsóknasamstarf. Leiðbeinandi og doktorsnemi skipuleggja saman einstaklingsbundna námsáætlun sem er til þess fallin að auka hæfni og þekkingu doktorsnemans til að vinna að rannsóknum og kennslu á sínu sérsviði.

Skólagjöld                                                                                                     

Doktorsnemar greiða skólagjöld sambærileg skólagjöldum í ML-námi í eina önn. Skólagjöld í HR eru ákveðin árlega. Lesa reglur um skólagjöld.

Starfsstöð                                          

Doktorsnemum er skylt að stunda rannsóknir sínar við HR og að vera búsettir í nágrenni skólans í 18 mánuði af námstímanum. Doktorsnemi skal dvelja við erlenda háskólastofnun í allt að 6 mánuði. 


Inntökuskilyrði

Umsækjendur þurfa að hafa lokið meistaranámi í lögfræði eða skyldum greinum og hafa sýnt afburðaárangur í námi og/eða starfi og vera líklegir til að geta tekið frumkvæði í þekkingarsköpun á sviði vísinda eða atvinnulífs.

Umsóknir

Athugið að allar lausar doktorsnámsstöðu eru auglýstar á Starfasíðu HR. Með umsókn skulu fylgja staðfest afrit af prófskírteinum, feril- og ritaskrá ásamt drögum að rannsóknaráætlun. Umsækjandi skal tilgreina sérstaklega óskir sínar um leiðbeinanda úr röðum kennara í fastri stöðu við lagadeild Háskólans í Reykjavík og skal umsókn og rannsóknaráætlun samþykkt af honum.


Umsögn nemanda

Jóna Benný Í doktorsnámi mínu er ég að rannsaka hvort sjúklingum sem lenda í áföllum í tengslum við meðferðir hjá heilbrigðisstarfsmönnum sé tryggt réttaröryggi og þá aðallega með tilliti til laga um sjúklingatryggingu. Einnig rannsaka ég hvort það hafi áhrif á réttarstöðu sjúklinga hvort viðkomandi meðferð hafi átt sér stað innan opinbera heilbrigðisgeirans eða einkageirans. Kennarar lagadeildar búa að víðtækri reynslu og eru afkastamiklir í rannsóknum. Ég myndi segja að helsti kostur lagadeildar HR sé þessi mannauður.

Jóna Benný Kristjánsdóttir, doktorsnemi og stundakennari við lagadeild HR

Var efnið hjálplegt? Nei