Spurt og svarað

 • Hver er tilgangur rannsóknarinnar?
  Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort sýndarveruleiki gagnist við að upplýsa þolendur kynferðisofbeldis um réttarsal og vanlíðan tengda honum. Þátttakendum verður boðið að prófa sýndarveruleikaumhverfið og viðbrögð verða metin með spurningalistum, viðtali og líffræðilegum mælingum.
 • Hvað verður gert við niðurstöðurnar?
  Niðurstöður rannsóknarinnar geta gefið mikilvægar upplýsingar um hvort sýndarveruleikatækni geti nýst til að stuðnings einstaklingum sem fara í gegnum dómskerfið. Niðurstöðurnar verða nýttar til að stuðla að markvissari inngripum og stuðningi á Íslandi. Þátttaka þín getur því hjálpað til við að hanna árangursrík stuðningsúrræði fyrir fólk sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi. 
 • Hver getur tekið þátt í rannsókninni?

  Leitað er að konum og körlum sem passa í annan hvorn neðangreindra hópa:

  1. Eru 18 ára eða eldri, hafa verið beitt kynferðisofbeldi einhvern tíma um ævina og hafa borið vitni í réttarsal um kynferðisbrot gegn þeim sjálfum.
  2. Eru 18 ára eða eldri, hafa verið beitt kynferðisofbeldi einhvern tíma um ævina og hafa ekki borið vitni í réttarsal um kynferðisbrot gegn þeim sjálfum.

 • Af hverju ætti ég að taka þátt? Hver er minn ávinningur af því að taka þátt?
  Niðurstöður þessarar rannsóknar gætu gefið mikilvægar upplýsingar um sýndarveruleika sem mögulegt stuðningsúrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis í réttarkerfinu.
  Til að geta þróað úrræði þarf að hafa áreiðanlegar upplýsingar til að byggja á. Þín þátttaka er ákaflega mikilvæg og getur stuðlað að aukinni þekkingu um áhrif sýndarveruleikans á líðan fólks. 
 • Hverjir standa á bak við rannsóknina?
  Rannsóknin er unnin af vísindamönnum við sálfræðideild og tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Rannveig Sigurvinsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík. Rannsóknin er framkvæmd í samstarfi við Ríkislögreglustjóra.
 • Hvernig eru gögnin varðveitt?
  Svör þátttakenda verða ekki tengd við persónuauðkenni við vinnslu gagnanna. Rannsakendur hafa einir aðgang að gögnum og þau eru varðveitt á læstu gagnadrifi Háskólans í Reykjavík.

  Rannsóknaraðilar eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem þátttakandi veitir og lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og skilmálum Persónuverndar vegna rannsóknarinnar verður fylgt í hvívetna. Rannsóknin er unnin með samþykki Vísindasiðanefndar, VSN 20-061. 
 • Hvað þarf ég að gera?
  Ef þú hefur áhuga á rannsókninni þá getur þú fyllt út formið á forsíðu rannsóknarinar Dómssalur í sýndarveruleika og skráð upplýsingar þínar, svo hefur rannsakandi samband við þig. Þér er einnig velkomið að hafa samband við Hildi Skúladóttur, meistaranema í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík með tölvupósti ( hildurs13@ru.is ) eða í síma 846 6691.
 • Hvað gerist ef ég byrja að taka þátt og hætti svo við?
  Þér er frjálst að taka hlé eða hætta þátttöku hvenær sem er. Rannsakendur eru sérþjálfaðir og munu geta veitt stuðning á staðnum ef þátttakandi kemst í uppnám. 
 • Hvað tekur rannsóknin langan tíma?
  Rannsóknin tekur um það bil 90 mínútur.
 • Hefur COVID-19 áhrif á þessa rannsókn?
  Í rannsókninni verður smitvarna gætt, þar sem tekið verður mið af sóttvarnarviðmiðum hverju sinni og allur búnaður verður sótthreinsaður milli þátttakenda.
 • Get ég fengið stuðning ef þess þarf?
  Ef þú vilt ræða í trúnaði við meðferðaraðila þér að kostnaðarlausu, þá er þér velkomið að hafa samband við Þóru Sigfríði Einarsdóttur hjá Domus Mentis Geðheilsustöð í síma 581 1009 og fá viðtalstíma hjá sálfræðingi þér að kostnaðarlausu.


Var efnið hjálplegt? Nei