Upplýsingabréf
Upplýsingar til þátttakenda
Þér er boðið að taka þátt í rannsókn. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Rannveig Sigurvinsdóttir, lektor við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) og annar aðalrannsakandi er dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, prófessor við sálfræðideild HR. Hér fyrir neðan eru upplýsingar um rannsóknina, af hverju hún er gerð og hvernig. Endilega lestu textann vel áður en þú ákveður hvort þú viljir taka þátt í henni.
Tilgangur
Tilgangur þessarar rannsóknar er skoða og meta mögulegt úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Sýndarveruleika umhverfi hefur verið þróað sem byggir á réttarsal við Héraðsdóm Reykjavíkur, sem þolendum kynferðisofbeldis verður boðið að prófa og viðbrögð þeirra metin með spurningalistum, viðtali og líffræðilegum mælingum.
Þátttakendur
Leitað er að konum og körlum sem passa í annan hvorn neðangreindra hópa:
- Eru 18 ára eða eldri, hafa verið beitt kynferðisofbeldi einhvern tíma um ævina og hafa borið vitni í réttarsal um kynferðisbrot gegn þeim sjálfum.
- Eru 18 ára eða eldri, hafa verið beitt kynferðisofbeldi einhvern tíma um ævina og hafa ekki borið vitni í réttarsal um kynferðisbrot gegn þeim sjálfum.
Hvað felur þátttaka í sér?
Þátttaka í rannsókninni tekur um 90 mínútur þar sem þú hittir rannsakendur í húsakynnum Háskólans í Reykjavík at Menntavegi 1, 102 Reykjavík við hlið móttökunnar. Þar byrjar þú að fylla út spurningalista sem tekur um 15-30 mínútur að fylla út. Listarnir meta áfallastreituröskun, þunglyndi, kvíða, streitu, sjálfsmat og skynjaða stjórn á streituvekjandi atburði. Áður en þú ferð í umhverfið verður þú tengd/tengdur við hjartsláttar og blóðþrýstingsmæli sem og aðstoðuð/aðstoðaður við að setja á þig sýndarveruleikabúnað og fara í sýndarveruleikaumhverfi í um 10 mínútur. Þar verður þú beðin/n um að ganga inn í dómsalinn, setjast til móts við dómara og segja nafn þitt og kennitölu. Þar eftir færðu tækifæri á að skoða þig um, en í sýndardómsalnum verða sýndarveruleikapersónur sem eru dómari, verjandi, ákærði, saksóknari, réttargæslumaður og ritari. Þú verður beðin/n að svara spurningum á meðan þú ert í sýndarveruleikanum, til dæmis að segja frá streituvaldandi atburði, eða verða beðin/n um að lýsa eigin líðan. Að því loknu verður þú beðin/beðinn um að fylla út spurningalista sem tekur um 10-15 mínútur, listarnir meta líkamleg einkenni, trúverðugleika sýndarveruleikans og áhrif þess að hafa verið í dómsalnum. Þá verður tekið viðtal við þig þar sem spurt er nánar út í líðan þína á meðan þú varst í umhverfinu og hvernig þér fannst reynslan vera. Þér er heimilt að taka hlé eða hætta þátttöku hvenær sem er.
Trúnaður
Allar upplýsingar sem þátttakendur veita í rannsókninni verða meðhöndlaðar samkvæmt ströngustu reglum um trúnað og nafnleynd og fara að lögum um persónuvernd. Spurningalistarnir verða auðkenndir með þátttakendanúmeri sem verður ekki hægt að rekja til þátttakenda. Allar niðurstöður verða ópersónugreinanlegar.
Ávinningur og áhætta/óþægindi fyrir þátttakendur
Ekki er greitt fyrir þátttöku í þessari rannsókn. Ávinningurinn felst helst í því að þátttakendur leggja sitt af mörkum til að auka þekkingu á nýtingu sýndarveruleika til að upplýsa þolendur kynferðisofbeldis, minnka kvíða þeirra og vonandi hvetja þá til að leita réttar síns.
Persónuvernd, úrvinnsla og eyðing rannsóknargagna
Rannsóknin tekur mið af alþjóðlegum samþykktum, svo sem Helsinki-sáttmálanum og tilmælum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar um siðfræði og mannhelgi í vísindarannsóknum. Öll rannsóknargögn verða varðveitt rafrænt hjá ábyrgðarmanni á meðan á úrvinnslu stendur. Spurningarlistarnir verða einungis með rannsóknarnúmeri og svörin því ekki rekjanleg til þátttakanda. Öll tölvuúrvinnsla byggist á meðaltölum eða svörum allra þátttakanda og niðurstöður því ekki rekjanlegar til einstaka þátttakanda á nokkurn hátt. Öllum rannsóknargögnum verður eytt við lok rannsóknar.
Um rétt þátttakenda
Spurningalistarnir verða settir fram á ópersónugreinanlegu formi. Þér er frjálst að sleppa því að svara einstaka spurningum á listanum ef þær valda vanlíðan eða ef svar er óvíst. En mikilvægt er fyrir gæði rannsóknarinnar að sem flestum spurningum sé svarað eins nákvæmlega og unnt er. Þú getur hætt við þátttöku hvenær sem er án nokkurra skýringa. Ef upp kemur vanlíðan eftir að hafa tekið þátt í rannsókninni þá er þér frjálst að hafa samband við Þóru Sigfríði Einarsdóttur, sálfræðing, sími 770 7252, og bóka viðtal þér að kostnaðarlausu. Þér er einnig frjálst að hafa samband við ábyrgðarmann rannsóknarinnar, Rannveigu S. Sigurvinsdóttur, ef einhverjar spurningar vakna.
Rannsóknin er unnin með samþykki Vísindasiðanefndar. Þér er ávallt frjálst að hætta þátttöku í rannsókninni og ef þú hefur spurningar um rétt þinn sem þátttakandi í vísindarannsókn getur þú snúið þér til Vísindasiðanefndar, Borgartúni 21, 4.hæð, 105 Reykjavík. Sími: 551-7100, fax: 551-1444, tölvupóstfang: vsn@vsn.is
Með von um góðar undirtektir,
________________________________
Rannveig S. Sigurvinsdóttir
Lektor við Háskólann í Reykjavík
Netfang: rannveigs@ru.is