Framvindureglur

Reglur þessar byggja á almennum reglum um nám og námsmat Háskólans í Reykjavík

1. Inntaka nemenda

Eftirtaldir geta sótt um nám í Háskólagrunni:

1.1 Þau sem lokið hafa skilgreindu starfsnámi, þ.e. burtfararprófi úr iðn-, verkmennta- eða fjölbrautaskóla eða sambærilegu námi. Ekki er gerð krafa um sveinspróf.

1.2 Þau sem hafa lokið Menntastoðum. Æskilegt er að umsækjendur hafi reynslu af vinnumarkaði.

1.3 Þau sem hafa stundað nám við framhaldsskóla en ekki lokið námi. Hver umsókn er metin og skoðuð sérstaklega en að öllu jöfnu er miðað við að bóklegur undurbúningur jafngildi um 70 fein (42 ein.) og að umsækjendur hafi lokið áföngum í stærðfræði, íslensku og ensku. Auk þess er krafist starfsreynslu og að umsækjendur hafi náð 20 ára aldri.

1.4 Þau sem hafa lokið stúdentsprófi en þurfa meiri undirbúning í stærðfræði og raungreinum. Lengd námsins, einingafjöldi og samsetning er háð fyrra námi umsækjanda.

2. Mat á fyrra námi

2.1. Til þess að nemandi fái nám frá öðrum skólum metið skal hann að öðru jöfnu hafa lokið prófi í hliðstæðum námskeiðum með lágmarkseinkunnina 7,0. Nemandi sem óskar eftir því að fá fyrra nám sitt metið sækir um það til verkefnastjóra Háskólagrunns. Námsmatsnefnd deildarinnar fer yfir umsóknir um mat og er niðurstaða hennar bindandi. Hægt er að sækja um mat á fyrra námi í fimm vikur frá því kennsla hefst á viðkomandi önn. Eftir fimmtu viku er ekki tekið við óskum um mat á fyrra námi.

2.2. Hliðstæð námskeið úr öðrum skólum eru skráð á námsferil sem metið (M). Til að geta útskrifast með lokapróf í Háskólagrunni HR skal þó almennt miða við að nemandi hafi a.m.k. tekið lokaáfanga hverrar námsgreinar. Nemandi sem er skráður í deildina getur, að öllu jöfnu, ekki tekið samtímis hliðstæða áfanga úr öðrum skólum og fengið metna inn í Háskólagrunn. Þetta á ekki við um sænsku/norsku.

2.3. Við mat á fyrra námi gildir almennt að námskeið eldri en 7 ára eru ekki metin.

3. Námsframvinda

3.1 Námstími nemenda sem hefja fullt nám að hausti er tvær annir en námstími nemenda sem hefja nám um áramót er þrjár annir. Námstími og samsetning náms nemenda, sem teknir eru inn skv. 1.3 og 1.4 er háð fyrra námi.

3.2 Um námslok og endurinnritun gildir eftirfarandi:

3.2.1 Nemandi í fullu námi skal ljúka námi sínu skv. kennsluskrá á einu ári. Ef námi er ekki lokið tveimur árum eftir innritun þarf nemandi að sækja um endurinnritun vilji hann halda áfram námi.

3.2.2 Nemandi sem hefur nám um áramót skal ljúka námi sínu skv. kennsluskrá á þremur önnum. Ef námi er ekki lokið þremur árum eftir innritun þarf nemandi að sækja um endurinnritun vilji hann halda áfram námi.

3.2.3 Nemandi í hálfu námi skal ljúka námi sínu á tveimur árum. Ef námi er ekki lokið fjórum árum eftir innritun þarf nemandi að sækja um endurinnritun vilji hann halda áfram námi.

3.2.4 Þegar nemandi óskar eftir endurinnritun tekur ný innritun mið af gildandi námskrá hverju sinni. Við endurinnritun heldur nemandi einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri.

3.3 Til að mega halda áfram í fullu námi á vorönn má í mesta lagi vera ólokið 10 fein af samanlögðu námsefni undanfarandi anna. Sé 11 – 21 fein ólokið er hægt að semja um þátttöku að hluta í áföngum vorannar að uppfylltum skilyrðum um tengsl undanfara og eftirfara. Sé meira en 21 fein ólokið af samanlögðu námsefni undanfarinna anna er þátttaka í áföngum á vorönn óheimil.

3.4 Nemandi sem lýkur námi skv. kennsluskrá útskrifast með lokapróf frá Háskólagrunni HR. Nemandi getur sótt um það í upphafi skólaárs að gera hlé á námi sínu eða að stunda nám samkvæmt sérstakri áætlun sem víkur frá ofangreindu. Umsóknin, ásamt áætlun um námsframvindu til námsloka, skal send til skrifstofu Háskólagrunns, studd viðeigandi gögnum. Gildar ástæður fyrir námshléi eða hægferð í námi eru t.d. barnsburður eða veikindi.

3.5 Nemendur sem áður hafa lokið stúdentsprófi eru skráðir í viðbótarnám við stúdentspróf. Skipulag náms, áfangar og einingafjöldi tekur mið að því hvert nemendur stefna.

Verkefnastjóri Háskólagrunns HR og nemendaskrá hafa eftirlit með námsframvindu nemenda.

4. Námsstyrkir

Nemendur í Háskólagrunni HR sem bestum árangri ná á próftímabili haustannar eiga þess kost að fá námsstyrk og fá skólagjöld næstu annar felld niður. Til þess að vera gjaldgengir þurfa nemendur, að öllu jöfnu, að ljúka einingum sem svara til fulls náms á viðkomandi önn og þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum viðkomandi annar samkvæmt samþykktri námsáætlun. Eingöngu námskeið sem nemendur ljúka á hefðbundnu próftímabili, eða fyrir þann tíma, eru tekin með við þessa ákvörðun. Í útreikningi á meðaleinkunn gilda eingöngu próf sem tekin eru í fyrsta sinn í tilteknu námskeiði, þ.e. sjúkrapróf gilda en endurtektarpróf ekki.

5. Annað

Undanþágur frá reglum þessum eru aðeins veittar með samþykki námsmatsnefndar.

Umsóknir um undanþágur skulu sendar til skrifstofu Háskólagrunns HR, studdar viðeigandi gögnum.

Gildistaka: Reglur þessar gilda fyrir nemendur sem innritast í Háskólann í Reykjavík og hefja nám frá og með 1. janúar 2023.

- Þannig samþykkt á fundi deildarráðs þann 13. febrúar 2007

- Þannig samþykkt með áorðnum breytingum 3. mars 2009

- Þannig samþykkt með áorðnum breytingum 2. febrúar 2010

- Þannig samþykkt með áorðnum breytingum 7. október 2011

- Þannig samþykkt með áorðnum breytingum 13. nóvember 2015.

- Þannig samþykkt með áorðnum breytingum 12. apríl 2019

- Þannig samþykkt með áorðnum breytingum 17. nóvember 2022


Var efnið hjálplegt? Nei