Spurt og svarað

Hver er tilgangur rannsóknarinnar?
Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna samspil lífsánægju, félagslegs stuðnings, streitu og áfalla. Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning um mikilvægi geðheilsu. Markmið þessarar rannsóknar er að fá heildstæða mynd af geðheilsu Íslendinga og skoða hvernig félagslegur stuðningur getur gagnast sem best við streituvaldandi aðstæður og áföll. Þetta hefur aldrei verið kannað með þessum hætti áður hér á landi.

Hvað verður gert við niðurstöðurnar?
Niðurstöður rannsóknarinnar geta gefið mikilvægar upplýsingar um áhrif streituvaldandi aðstæðna og áfalla á geðheilsu. Niðurstöðurnar verða nýttar til að stuðla að markvissari forvörnum og meðferðarúrræðum á Íslandi. Svör þín geta því hjálpað til við að hanna árangursrík stuðningsúrræði fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áföllum. 

Af hverju er haft samband við mig?
Þátttakendur í rannsókninni eru fólk 18 til 80 ára og er valið af handahófi úr Þjóðskrá. 

Af hverju ætti ég að taka þátt? Hver er minn ávinningur af því að taka þátt?
Niðurstöður þessarar rannsóknar gætu gefið mikilvægar upplýsingar um áhrif áfalla á geðheilsu fólks á Íslandi og hjálpað til við að þróa stuðningsúrræði fyrir þá einstaklinga sem verða fyrir áföllum. 

Til að geta þróað úrræði þarf að hafa áreiðanlegar upplýsingar til að byggja á. Þín þátttaka er ákaflega mikilvæg og getur stuðlað að aukinni þekkingu um áhrif streituvaldandi aðstæðna og áfalla á geðheilsu fólks. 

Hverjir standa á bak við rannsóknina?
Rannsóknin er unnin af vísindamönnum við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík og Háskólann í Illinois í Chicago. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent og er annar aðalrannsakandi dr. Rannveig Sigurvinsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík. 

Aðrir rannsakendur eru Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur og dr. Sarah E. Ullman, prófessor við Háskólanum í Illinois í Chicago. 

Hvernig eru gögnin varðveitt?
Svör þátttakenda verða ekki tengd við persónuauðkenni við vinnslu gagnanna. Rannsakendur hafa einir aðgang að gögnum og þau eru varðveitt á læstu gagnadrifi Háskólans í Reykjavík. 

Rannsóknaraðilar eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem þátttakandi veitir og lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og skilmálum Persónuverndar vegna rannsóknarinnar verður fylgt í hvívetna. Rannsóknin er unnin með samþykki Vísindasiðanefndar og hefur verið tilkynnt til Persónuverndar. 

Hvað þarf ég að gera?
Sérþjálfaðir spyrlar hafa samband við þig símleiðis frá sálfræðisviði Háskólans í Reykjavík og bjóða þér að taka þátt í rannsókninni sem felst í því að svara spurningum í síma. 

Ég hef ekki glímt við neinn vanda, þarf ég að svara?
Til að fá sem réttasta mynd af geðheilsu íslensku þjóðarinnar og tíðni streituvaldandi aðstæðna og áfalla er mikilvægt að sem flestir taki þátt. Þannig er jafn mikilvægt að fólk sem hefur ekki upplifað áföll eða streitu taki þátt og fólk sem hefur upplifað slíkt.

Hvað gerist ef ég er byrjuð/aður að svara og hef ekki tíma til að klára spurningarnar?
Þér er frjálst að taka hlé eða hætta þátttöku hvenær sem er. Spyrillinn mun bjóða þér tíma sem þér hentar til að halda áfram að svara könnuninni. 

Þarf ég að svara öllum spurningunum?
Nei, þú getur alltaf valið að svara ekki ákveðnum spurningum. 

Hvað tekur rannsóknin langan tíma?
Rannsóknin tekur á bilinu 20 til 40 mínútur. 

Ég er hrædd um að það verði erfitt fyrir mig að svara sumum spurningum. Get ég fengið stuðning ef þess þarf?
Ef þú vilt ræða í trúnaði við meðferðaraðila þér að kostnaðarlausu, þá er þér velkomið að hafa samband við Sjöfn Evertsdóttur sálfræðing hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni í síma 899 4969 og netfang: sjofn@asm.is og fá viðtalstíma hjá sálfræðingi þér að kostnaðarlausu.

Til baka



Var efnið hjálplegt? Nei