Upplýsingabréf

Kæri viðtakandi

Þér er boðið að taka þátt í rannsókn um geðheilsu karla og kvenna á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna samspil geðheilsu, lífsánægju, félagslegs stuðnings, streitu og áfalla. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík (HR) og annar aðalrannsakandi er dr. Rannveig Sigurvinsdóttir, lektor við sálfræðisvið HR.

Verndari verkefnisins er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning um mikilvægi geðheilsu. Markmið þessarar rannsóknar er að fá heildstæða mynd af geðheilsu Íslendinga og skoða hvernig félagslegur stuðningur getur gagnast sem best við streituvaldandi aðstæður og áföll. Þetta hefur aldrei verið kannað með þessum hætti áður hér á landi. 


Við bjóðum þér að taka þátt því nafn þitt kom upp í tilviljunarúrtaki 18-80 ára úr Þjóðskrá. Þetta er langtímarannsókn sem verður gerð árið 2019 og svo aftur að einu og tveimur árum liðnum.

Þátttakan felst í að svara símakönnun og mögulega ítarlegra viðtali fyrir þá sem hafa áhuga á því. Hringt verðurfrá Háskólanum í Reykjavík og þú beðin(n) að svara spurningum. Áætlað er að hvert símtal taki um 20 til 40 mínútur. Í lok könnunarinnar verður þér boðið að svara spurningunum aftur að ári liðnu og að taka afstöðu til hvort þú hafir áhuga á að haft verði samband við þig aftur til að taka þátt í öðrum hluta þessarar rannsóknar, þ.e. viðtalshluta hennar. Þá verður þér boðið að gefa kost á að haft verði samband við þig á næstkomandi árum og þér boðin þátttaka í öðrum rannsóknum á þessu sviði. 

Nafn þitt eða aðrar persónurekjanlegar upplýsingar verða ekki tengd við svör þín. Rannsóknin er unnin með samþykki Vísindasiðanefndar og hefur verið tilkynnt til Persónuverndar. Það er undir þér komið að ákveða hvort þú viljir taka þátt. Ef þú ákveður að taka þátt er þér frjálst að hætta í rannsókninni hvenær sem er eða sleppa að svara einstökum spurningum án útskýringa. Engin áhætta felst í því að svara spurningunum en ef þú upplifir einhver óþægindi á meðan þú svarar er þér að sjálfsögðu velkomið að taka hlé eða hætta þátttöku hvenær sem er. Öll rannsóknargögn verða varðveitt án persónuauðkenna og öllum rannsóknargögnum verður eytt að rannsóknarúrvinnslu lokinni.

Ekki er greitt fyrir þátttöku í rannsókninni en hún getur verið bæði áhugaverð og fræðandi fyrir þátttakendur. Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar í vísindaritum og kynntar almenningi í fjölmiðlum og á opnum fyrirlestrum. 

Ef þú hefur einhverjar spurningar er þér velkomið að hafa samband við ábyrgðarmann rannsóknarinnar, Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, í síma 599 6432 eða í tölvupósti: bryndis@hr.is. Ef þú vilt ræða í trúnaði við meðferðaraðila er þér velkomið að hafa samband við Sjöfn Evertsdóttur, sálfræðing hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni í síma 899 4969 og eða í tölvupósti: sjofn@asm.is og fá viðtalstíma hjá sálfræðingi þér að kostnaðarlausu.

Með von um góðar viðtökur, fyrir hönd rannsakenda,
Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent,
sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík
Sími: 599 6432, bryndis@hr.isVar efnið hjálplegt? Nei