Taugabrautir afhjúpaðar

Markmið rannsóknar Írisar Drafnar Árnadóttur, nema í heilbrigðisverkfræði, var að sýna fram á aðferð til að prenta taugabrautir í heila út í þrívídd. „Með þessu var ég að halda áfram með verkefni sem var búið að vinna innan verkfræðideildar þar sem höfuðkúpur voru prentaðar út í þrívídd, ásamt æxli, til að aðstoða lækna við undirbúning aðgerða.”

Hún segir mikilvægt fyrir skurðlækna að vita hvernig taugabrautirnar liggja, hvernig æxli í heilanum líti út og hvar það sé staðsett. „Læknar nota tækni í dag sem nýtist vel til að gefa mynd af þessu en með þrívíddarprentuninni er viðfangsefnið orðið áþreifanlegra og um leið minnkar áhættan af aðgerðinni.“ Íris segir það hafa sýnt sig að með því að æfa sig á þrívíddarmódeli fyrir flóknar aðgerðir geti læknar stytt tímann sem aðgerðin tekur, þeir geti framkvæmt hana með meiri nákvæmni og náð betri árangri. Allt eykur þetta öryggi sjúklingsins.

Íris vann verkefnið út frá segulómsmyndum af höfði sjúklings ásamt svokölluðum DTI-myndum (e. diffusion tensor imaging) en þær sýna stefnur vetnisatóma í heilanum. Út frá þessum upplýsingum er hægt að gera kort af taugabrautum heilans.

HeilbrigðisverkfræðiÍris Dröfn með taugabrautir sem eru prentaðar út í þrívíddarprentara.


„Ég set myndirnar inn í forrit og fæ þannig mynd af taugabrautunum en þetta geri ég í samstarfi við lækni. Forritið reiknar út frá stefnunum hvernig örmjóir taugaþræðirnir liggja. Þetta lítur út eins og listaverk. Að því loknu þarf að breyta listaverkinu í áþreifanlegan hlut. Niðurstöðurnar eru fluttar í forrit sem við erum með hér í heilbrigðistæknisetrinu sem heitir Mimics og er notað við gerð þrívíddarlíkana. Markmiðið var að prenta út taugabrautirnar í þrívídd. Það var alltaf tvísýnt um hvort þetta myndi takast, en það tókst.“

Til að fá líkan af höfuðkúpu þarf tölvusneiðmyndir. Líkanið er prentað hjá Össuri en fyrirtækið prentar út þrívíddarlíkön af höfuðkúpum fyrir heilbrigðistæknisetrið. „Þessi vinnsla er mjög nákvæm og gefur góða raun. Ísland er eina landið, svo við vitum til, þar sem svona módel, eða það sem er kallað rapid prototyping, er notað í klínískri starfsemi.“

Hún segir næsta skref vera að þróa þetta áfram og til þess þarf að prófa aðferðina á fleiri sjúklingum. Íris Dröfn lauk meistaranámi í heilbrigðisverkfræði vorið 2017. Gott að vita:Var efnið hjálplegt? Nei