Mun blóðbankinn þurfa að líða skort

Rannsókn Guðlaugar Jökulsdóttur var á sviði íbúamiðaðra rannsókna um lýðfræðileg áhrif varðandi framboð og eftirspurn blóðgjafa. Verkefnið fól í sér smíð á spálíkani til þess að spá fyrir um stöðu blóðgjafa og blóðþega í framtíðinni.

Starf blóðbankans hefur alltaf staðið Guðlaugu nærri var henni mikið í mun að menn og konur gefi blóð, en framboð mætti vera mun meira. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð hérlendis áður og því var spálíkanið hugsað sem gott tól fyrir blóðbankann til þess að spá fyrir um framtíðina og geta í kjölfarið lagt aukna áherslu á blóðsöfnun.

Rannsóknaraðferðin sem notast var við fól í sér að bera kennsl á vandamálið varðandi minnkandi framboð af blóðgjöfum samhliða aukinni eftirspurn eftir inngjöf blóðs með því að smíða spálíkan. Gögnum var safnað frá Blóðbankanum og Hagstofu Íslands og spálíkan var sett upp í Excel. Nokkrir áhrifaþættir voru settir inn í módelið með það að leiðarljósi að Blóðbankinn gæti sett inn og tekið út úr módelinu það sem verið væri að skoða hverju sinni. Þessir áhrifaþættir eru til dæmis kyn blóðgjafa og aukin tíðni blóðgjafa kvenna.

Niðurstöður rannsóknarinnar veittu vísbendingar um að áhrif lýðfræðilegra breytinga á framboð og eftirspurn blóðgjafa á Íslandi séu til staðar og að vandamálið sé raunverulegt og að taka þurfi á því. Næstu skref eru að upplýsa æsku landsins um mikilvægi blóðgjafa  til þess að auka fjölda ungra blóðgjafa. Aðallega þyrfti þó að leggja áherslu á að auka fjölda kvengjafa með það að markmiði að jafna fjölda kven- og karlblóðgjafa á Íslandi og anna eftirspurn í framtíðinni. 


UmsóknarvefurGott að vita:Var efnið hjálplegt? Nei