Notkun á bestunarmódeli við verkniðurröðun í framleiðslu

Samkeppni í framleiðsluiðnaði er stöðugt að aukast. Fyrirtæki framleiða gjarnan sambærilegar vörur og keppa um hylli kaupenda á grundvelli verðs, gæða og sveigjanleika. Til að skapa sér samkeppnisforskot þurfa fyrirtæki að hámarka afköst og nýta sínar fjárfestingar í tækjum og mannauði sem best. Þar getur árangursrík verkniðurröðun skipt höfuð máli og með aukinni samkeppni hefur mikilvægi verkniðurröðunar aukist enn frekar.

Í meistaraverkefni sínu vann Rannveig Guðmundsdóttir með verkniðurröðunarverkefni úr lyfjaframleiðslu Actavis. Verkefnið gengur út á að raða pöntunum frá viðskiptavinum niður á framleiðsluvélar á fjórum framleiðslustigum; blöndun, töfluslátt, húðun og pökkun.

Eins og algengt er í lyfjaframleiðslu þá á framleiðslan sér stað í lotum hjá Actavis. Þá eru vörur sem tilheyra sömu vörufjölskyldu framleiddar saman í lotu í því skyni að lágmarka uppsetningartíma á framleiðsluvélunum.

Myndin sýnir tilbúið dæmi um mögulegar framleiðsluleiðir fyrir vöru í gegnum framleiðsluferli lyfjafyrirtækis

Gerð er langtíma lotuáætlun sem er byggð á söluspám. Einnig er gerð skammtímaáætlun byggð á raunverulegum pöntunum. Þessar áætlanir þurfa að mæta sem best breytilegum kröfum viðskiptavina og stuðla að hámarks afköstum á sama tíma og þær þurfa að lágmarka kostnað við framleiðsluna. Gerð langtíma og skammtíma áætlanna er því flókið og tímafrekt verkefni.

Í verkefninu sínu þróaði Rannveig bestunarlíkan sem raðar pöntunum niður á framleiðsluvélar og hjálpar þannig til við að gera góðar skammtímaáætlanir á sjálfvirkan máta. Skammtímaáætlunin sem bestunarlíkanið býr til er byggð á langtímaáætluninni og þeim skorðum sem hún setur. Rannveig prófaði bestunarlíkanið með raungögnum úr framleiðslu Actavis og bar niðurstöður saman við skammtímaáætlanir sem gerðar voru á handvirkan máta.

Niðurstöður Rannveigar gefa til kynna að hægt sé að nota bestunarlíkan til að gera góðar skammtímaáætlanir. Að auki gæti notkun á bestunarlíkani dregið verulega úr þeim tíma sem þarf að eyða í niðurröðun verka. Einnig benda rannsóknir Rannveigar til þess að besta mögulega árangri við gerð framleiðsluáætlanna megi ná með því að nýta sjálfvirk bestunarlíkön í bland við sérfræðiþekkingu þeirra starfsmanna fyrirtækisins sem best til þekkja. 

Þannig getur bestunarlíkanið ekki komið í stað reynslu og þekkingar sérfræðinga, en það getur hins vegar hjálpað til að gera vinnu þeirra ennþá árangursríkari og um leið sparað tíma og fyrirhöfn.


Umsóknarvefur



Gott að vita:



Var efnið hjálplegt? Nei