Viðskiptafræði og verslunarstjórnun diplóma

Sífellt eru gerðar auknar kröfur til stjórnenda í atvinnulífinu og flestir þeirra hafa lokið háskólanámi. Nýtt fagháskólanám í verslunarstjórnun er ætlað að gefa starfandi verslunarstjórum færi á að styrkja sig í starfi en verslunarstjórn fylgir mikil ábyrgð. Í starfinu felst meðal annars umsjón með mannauði, markaðs- og sölumálum, birgðastjórn, fjármálum og þjónustu.

Viðskiptafræði & Hagfræði - Kynningarmyndband

 

Um námið

Nám sem opnar dyr

Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík bjóða sameiginlega upp á nýtt nám í verslunarstjórnun í samstarfi við Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntasjóð verslunarinnar, VR og Samtök verslunar og þjónustu. Námið byggir meðal annars á hæfnigreiningu fyrir starf verslunarstjóra, viðhorfskönnun meðal starfandi verslunarstjóra og samvinnu um þróun þess í samstarfi við lykilfyrirtæki í verslun og þjónustu.

Umsóknir

Almennur umsóknarfrestur í námið er 15. júní og 20. janúar ár hvert. Hægt er að sækja um í námið á vefsíðu Bifrastar.

Metið til eininga

Markmiðið með náminu er að opna dyr fyrir þá sem mennta sig í verslun og þjónustu og vilja halda áfram í háskólanám. Það er metið til eininga til áframhaldandi náms í viðskiptafræði til BSc-gráðu, bæði við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Háskólarnir meta gagnkvæmt háskólaeiningarnar (ECTS), óháð því hvor háskólinn kennir einstaka námskeið.

Tveggja ára nám með vinnu

Námið, sem er 60 ECTS einingar, kennt með vinnu tekur tvö ár í dreifnámi. Það byggir að hluta til á áföngum sem eru kenndir til BSc-gráðu í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Einnig er um nýja áfanga að ræða sem eru sérstaklega þróaðir með sérþarfir verslunarinnar í huga og hafa verið þróaðir í samstarfi við fyrirtæki í greininni. 

Styrkur af samstarfi

Styrkur námsins liggur bæði í virku samstarfi við atvinnulífið og í samstarfi háskólanna tveggja um þróun þess og kennslu.

Góð þjónusta við nemendur

Verkefnastjóri annast námsráðgjöf, utanumhald námsins, samskipti við nemendur og samræmingu kennslu og þjónustu háskólanna tveggja. Umsækjendur fá einstaklingsmiðaða aðstoð við að skipuleggja námið í upphafi. Samhliða náminu er nemendum boðið upp á stuðning sem veitir þeim tækifæri til að þróa leiðtogahæfni sína, laða fram það besta í starfsfólki. Slík þekking getur aukið ánægju allra starfsmanna og bætt samskipti á vinnustaðnum.

Að námi loknu

Ábyrgðarmikið starf verslunarstjórans

Verslunarstjórar sinna ábyrgðarmiklum stjórnendastörfum og algengt er að þeir stýri tugum starfsmanna og beri ábyrgð á hundruð milljóna króna veltu. Að námi loknu eiga útskrifaðir nemendur að vera enn betur í stakk búnir til að takast á við dagleg störf, auk þess að eiga möguleika á frekara námi til BSc-gráðu í viðskiptafræði.

Aðstaða

Fjölbreytt kennsla og góð aðstaða

Í diplómanámi í viðskiptafræði og verslunarstjórnun fer kennsla fram í fjarnámi, á vinnuhelgum og með vinnustofum, bæði í Háskólanum í Reykjavík og á Bifröst.

Nemandi lærir í Sólinni

Þjónusta og góður aðbúnaður

Í háskólabyggingu HR er aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.

Kennslustofur og lesherbergi

Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.  

Þjónusta 

Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu. 

Verslanir og kaffihús

Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.

Kennarar

Vísindamenn og sérfræðingar tveggja háskóla

Nemendur í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna og sérfræðinga á fagsviðinu, stundakennara og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.

Skipulag náms

Vinnulotur, skylduáfangar og lokaverkefni

Námið er fjórar annir. Það hefst með vinnulotu í námstækni og aðferðafræði. Þrír skylduáfangar í verslunarstjórnun eru kjarni námsins fyrstu þrjár annirnar, en lokaverkefni sem unnið er með fyrirtæki nemandans, er kjarni þeirrar síðustu. Gert er ráð fyrir að verkefni í þessum áföngum séu að verulegu leyti unnin út frá starfi og fyrirtæki nemandans og að nám hans geti þannig gagnast því fyrirtæki sem hann starfar hjá.

Skipting námsins:

 • Skylduáfangar 18 ECTS
 • Grunnáfangar í viðskiptafræði 30 ECTS
 • Valáfangar í viðskiptafræði 6 ECTS
 • Lokaverkefni 6 ECTS

Í tveggja ára námi er gert ráð fyrir því að nemandi taki þrjá áfanga á önn. Heimilt er að taka námið á lengri tíma eða allt að fjórum árum, en fyrstu þrjár annir skal nemandi þó að lágmarki alltaf taka einn sameiginlegan skylduáfanga.

Skylduáfangar

Skylduáfangar eru kenndir í dreifnámi (blöndu af stað- og fjarnámi) og stendur hver áfangi yfir í tólf vikur. Þeir heita birgða-, vöru- og rekstrarstjórnun, kaupmennska og verslunarréttur.

Kennsla í skylduáföngum

Kennsla samanstendur af fyrirlestrum, umræðutímum og verkefnavinnu, bæði í fjarnámi og á þremur vinnuhelgum. Stjórnendur úr atvinnulífinu halda fyrirlestra í vinnustofum og þannig lögð áhersla á að nemendur kynnist því sem er efst á baugi hverju sinni. Hver skylduáfangi hefst með tveggja daga vinnulotu á Bifröst frá föstudegi yfir á laugardag en síðari tvær vinnuloturnar eru í Háskólanum í Reykjavík.

Birgða- / vöru- og rekstrarstjórnun

 • Pantanir og innkaup
 • Samþykkt reikninga
 • Vörumóttaka og endursendingar
 • Vörutalningar
 • Rýrnunareftirlit og afskriftir
 • Upplýsingatækni (Excel): Grunnatriði, gagnagreining og pivot-töflur og skráning sölu
 • Ákvörðun um tegundir og vörur sem á að selja
 • Samskipti við birgja
 • Aðfangakeðjur og flutningar
 • Straumlínustjórnun (e. lean management)

Kaupmennska

 • Sölumennska, samningatækni og sala
 • Markaðsfræði verslana
 • Vörumerkjastjórnun
 • Framsetning vöru
 • Eftirlit með útliti verslana
 • Verðmerkingar
 • Skipulagning verslana
 • Nýting upplýsingatækni til að skrá sölutölur, greina gögn og meta áætlanir
 • Greining á sölutölum og spá fyrir um framtíðarveltu
 • Aðferðir og leiðir til að auka sölu, afla nýrra markaða og auka viðskipti
 • Samskipti við viðskiptavini, birgja, sölumenn og yfirstjórn

Verslunarréttur

 • Yfirlit um samninga- og kauparétt
 • Neytendaréttur og neytendavernd
 • Starfsmannalöggjöf og kjarasamningar
 • Skipulag vaktakerfis
 • Samskipti við trúnaðarmenn og stéttarfélög
 • Lög og reglur um vinnutíma og aðbúnað
 • Vinnuvernd og öryggismál
 • Öryggisstjórnun
 • Einelti og áreitni
 • Öryggismál
 • Hollustuhættir
 • Heilbrigðiseftirlit
 • Gámes

Grunnáfangar í viðskiptafræði

Nemendur taka fimm grunnáfanga í viðskiptafræði í bundnu vali í báðum háskólunum, í fjarnámi hjá Bifröst eða í staðarnámi hjá HR samkvæmt skipulagi hvors háskóla um sig. Miðað er við að nemandi taki tvo slíka áfanga á önn en heimilt er að ráða eigin námshraða hvað grunnáfanga varðar.

Grunnáfangar eru:

 • Rekstararhagfræði
 • Stjórnun
 • Mannauðsstjórnun
 • Þjónustustjórnun
 • Reikningshald

Valáfangar í viðskiptafræði

Einnig velja nemendur einn af neðangreindum áföngum sem valfag:

 • Markaðsfræði
 • Breytingastjórnun
 • Gæðamál og þjónusta
 • Vörumerkjastjórnun
 • Stafræn markaðssetning
 • Vinnusálfræði
 • Neytendahegðun

Lokaverkefni

Lokaverkefni getur verið einstaklingsverkefni eða hópverkefni, en er val nemanda. Lokaverkefni er unnið í samstarfi við fyrirtæki í verslun í samstarfi við umsjónarkennara.

Inntökuskilyrði

Umsóknarfrestur

Almennur umsóknarfrestur í námið er 15. júní eða 5. janúar ár hvert.

Nauðsynlegur undirbúningur

Almenn inntökuskilyrði er stúdentspróf eða sambærilegt nám. Reynsla af verslunarstjórnun eða víðtæk starfsreynsla á sviði verslunar er skilyrði.

Einstaklingar sem uppfylla almenn inntökuskilyrði en skortir grunnþekkingu í stærðfræði, íslensku og ensku þurfa að hafa lokið þessum greinum áður en þeir hefja nám. Æskilegt er að nemandi búi yfir hæfni sem samsvarar:

 

 • 3. hæfniþrepi í stærðfræði, einkum á sviði algebru, falla, tölfræði og líkindafræði.
 • 3. hæfniþrepi í íslensku, einkum hvað varðar tjáningu í ræðu og riti.
 • 3. hæfniþrepi í ensku, einkum í lestri fræðitexta.

 

Skólagjöld

Skólagjöld, miðað við að námið sé tekið á tveimur árum, eru í heild kr. 830.000,- án niðurgreiðslna eða styrkja. Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks ásamt Starfsmenntasjóði verslunarinnar, SVS og SV, niðurgreiða og styrkja skólagjöld félagsmanna í VR/LÍV, að því gefnu að fyrirtæki og einstaklingur sæki um saman og hafi rétt á hámarksstyrk.

 • Nánari upplýsingar um skólagjöld og styrki sjóðanna má finna á starfsmennt.is

Sækja um 


Var efnið hjálplegt? Nei