Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Ekki lengur bið við kassann

21.5.2019

Með notkun nýrrar lausnar, sem þótti skara fram úr í námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja árið 2019, gætu biðraðir við afgreiðslukassa í matvöruverslunum heyrt sögunni til. Með Simplex geta viðskiptavinir skannað vörurnar jafnóðum og þær eru teknar úr hillunni með símanum og um leið sett þær beint í fjölnota poka. Svo er greitt fyrir vörurnar með snjallsímanum. Hægt er að bæta rekstur verslana og um leið koma í veg fyrir biðraðir við afgreiðslukassa.

Námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja lauk á föstudaginn með lokahófi þar sem vinningslið hlutu verðlaun og nemendurnir fengu tækifæri til að gleðjast saman yfir afrakstri síðustu þriggja vikna.

Önnum í HR er skipt upp í tvö tímabil, fyrst er kennt í 12 vikur og svo tekur við námsmat úr þessum námskeiðum. Að því loknu taka við hagnýtir þriggja vikna áfangar þar sem nemendur nýta þá þekkingu sem þeir hafa náð sér í. Langstærsta þriggja vikna námskeiðið sem kennt er í HR er Nýsköpun og stofnun fyrirtækja en í ár tóku yfir 500 nemendur þátt í því. Þeir mynda 4-5 manna hópa og því voru hóparnir, og þar af leiðandi nýsköpunarhugmyndirnar,  um 100 talsins í ár.

1. Verðlaun: Simplex

Það lið sem hlaut Guðfinnuverðlaunin í ár, fyrstu verðlaun sem veitt eru fyrir bestu útfærslu á viðskiptahugmynd, hlaut hópurinn Simplex, eins og kom fram hér að ofan.

Hópur nemenda stendur í tröppunum í SólinniÍ hópnum eru Gunnar Már Gunnarsson (tölvunarfræði), Katla Rún Garðarsdóttir (viðskiptafræði), Natalía María Helen Ægisdóttir (lögfræði), Róbert Elís Villalobos (hugbúnaðarverkfræði) og Ólafur Ingi Kárason (hátækniverkfræði).

2. Verðlaun: Cell trade

Önnur verðlaun hlutu nemendur sem standa að hugmyndinni Cell trade. Það er hugbúnaður fyrir snjallsíma sem líkir eftir einskonar stafrænni kauphöll og gefur notendum tækifæri til að fjárfesta í áhrifavöldum.

Hópur nemenda stendur í tröppunum í Sólinni

Hópinn skipa þau Andri Viðar Kristmannsson (hátækniverkfræði), Erla Guðrún Sturludóttir (tölvunarfræði), Haukur Húni Árnason (hugbúnaðarverkfræði), Helgi Gunnar Jónsson (viðskiptafræði) og Pétur Már Bernhöft (lögfræði).

3. Verðlaun: Geotag

Þriðju verðlaun hlaut Geotag, smáforrit fyrir snjallsíma sem byggt er á frægum leikjum, svo sem eltingarleik og stórfiskaleik.

Hópur nemenda stendur í tröppunum í SólinniÍ hópnum eru: Eyþór Örn Aanes Hafliðason (tölvunarfræði), Ingibjörg Sigríður Ingvarsdóttir, Hlynur Freyr Halldórsson (viðskiptafræði), Sunneva Sjöfn Höskuldsdóttir (fjármálaverkfræði) og Hilmar Páll Stefánsson (hugbúnaðarverkfræði).

Samfélagsábyrgð: Mazu, öryggishjálmur fyrir sjómenn

Veitt eru sérstök verðlaun fyrir þá hugmynd sem þykir hafa sérstaklega góð áhrif á samfélagið. Þau verðlaun í ár hlutu Mazu, öryggishjálmur sem er hannaður fyrir sjómenn og gæti bjargað lífum þeirra. Búnaðurinn býður upp á þráðlaus fjarskipti, neyðarsendi og ljósmerki.

Hópur nemenda stendur í tröppunum í SólinniÍ hópnum eru: Erlendur Ágúst Stefánsson, Guðrún Ósk Jóhannesdóttir, Halla Kristín Kristinsdóttir, Oddný Karólína Hafsteinsdóttir, Sigurður Björn Oddgeirsson og Thelma Sveinsdóttir. Þau eru öll nemendur í haftengdri nýsköpun.

Hönnunarsprettur og hópavinna

Þátttakendur eru nemendur á fyrsta ári í viðskiptadeild, lagadeild og verkfræðideild, nemendur í iðnrekstrarfræði og haftengdri nýsköpun ásamt nemendum tölvunarfræðideildar sem taka námskeiðið á öðru ári. Námskeiðið er valfag hjá nemendum íþróttafræðideildar og sálfræðideildar.

Nemendurnir setja fram nýja viðskiptahugmynd og gera viðskiptaáætlun og kynnast því nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, gerð viðskiptaáætlunar og þverfaglegri samvinnu strax í upphafi námsins. Sérfræðingar frá HR og úr atvinnulífinu leiðbeina hópunum í gegnum ferlið og stýra þeim í gegnum svokallaðan hönnunarsprett.