Fréttir eftir árum


Fréttir

1000 sjúklingar þyrftu skönnun en aðeins 100 sendir út

27.5.2015

Heilbrigðistæknidagurinn var haldinn í fimmta sinn í Háskólanum í Reykjavík fimmtudaginn 21. maí sl. Í ár var yfirskrift dagsins „Jáeindaskanni: tækni, rekstur og klínísk not“. Að dagskránni stóðu tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Heilbrigðistæknifélag Íslands og  Landspítali – háskólasjúkrahús.

Á heilbrigðistæknideginum fluttu fræðimenn erindi um jáeindaskanna (PET-skanna) en á Íslandi er ekki til slíkur skanni. Umræða hefur verið í þjóðfélaginu og á Alþingi nýlega um þörfina á jáeindaskanna hér á landi en nú eru krabbameinssjúklingar sendir til Norðurlandanna í slíka meðferð. Oft sker jáeindaskönnun úr um meðferðarákvarðanir, þar sem komið er í veg fyrir óþarfa skurðaðgerðir þegar lyfja- og geislameðferð er meira viðeigandi.

Heilbrigðistæknidagur í HR

Fyrri hluti dagskrárinnar bar heitið „Tækni og rekstur“ og fjölluðu erindi þeirra Ragnheiðar Haraldsdóttur, forstjóra Krabbameinsfélagsins, dr. Rer. Nat. Simone Beer, frá rannsóknarstofnuninni Jülich í Þýskalandi, Brynjars Vatnsdal, heilbrigðisverkfræðings hjá Landspítala og Birnu Jónsdóttur, röntgenlæknis hjá Domus Medica um tækniframfarir í gerð jáeindaskanna, kaup og rekstur slíks tækis hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi og velt var upp þeirri spurningu hvort reka eigi slíkt tæki hér á landi.

Seinni hluti dagskrár hét „Klínísk not“ þar sem fjallað var um notkun jáeindaskanna í meðferð við krabbameini og við Alzheimer-sjúkdómi. Í þeim hluta héldu erindi þau Jakob Jóhannsson, yfirlæknir geislameðferðar krabbameina, Landspítala og Háskóla Íslands, Jón Snædal, yfirlæknir á öldrunarlækningadeild á Landakoti, Landspítala - háskólasjúkrahúsi og Garðar Mýrdal, yfireðlisfræðingur á Geislaeðlisfræðideild Landspítalans. Fundarstjóri á Heilbrigðistæknideginum var Erna Magnúsdóttir, aðjúnkt og rannsóknarsérfræðingur við Læknadeild HÍ.

Að minnsta kosti þúsund manns þurfa skönnun

Fram kom að hundruð krabbameinssjúklinga eigi að fara í jáeindaskanna í tengslum við greiningu og meðferð árlega. Eftir einungis 2-3 ár þykir líklegt að það verði komin öflug meðferð fyrir snemmgreindan Alzheimer sjúkdóm sem mun krefjast þess að jáeindaskönnun liggi fyrir áður en meðferð hefst. 

Jón Snædal, yfirlæknir á öldrunarlækningadeild á Landakoti, Landspítala - háskólasjúkrahúsi sagði að líklega yrðu það þá um 200 Alzheimersjúklingar árlega sem þyrftu þá að fara í skönnun. Í dag væri þörfin nær 50 en fæstir þeirra væru sendir til Skandinavíu í jáeindaskönnun. 

„Það eru að minnsta kosti eitt þúsund manns, varlega áætlað, sem þyrftu að fara í svona skönnun á ári bara vegna krabbameina, en í dag eru um 100 sendir út. Sumir segja að raunþörfin sé nær 2000 skönnum á ári en sumir eitilfrumukrabbameinssjúklingar eru sendir út oftar en þrisvar á meðan á meðferð stendur. Ljóst er að sumir sjúklingar þurfa margar skannanir á meðan á meðferð stendur. Fólki er varla upp á það bjóðandi að þurfa að ferðast til útlanda í miðri krabbameinsmeðferð. Og reyndir er sú að margir sjúklinga eru ekki í nógu góðu ásigkomulagi til ferðarinnar og eru því ekki sendir út.“

Heilbrigðistæknidagur í HR