Fréttir eftir árum


Fréttir

140 ný sumarstörf í HR

12.5.2021

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um 140 ný sumarstörf hjá Háskólanum í Reykjavík. Hægt er að senda inn starfsumsóknir til og með 23. maí. Flest störf hefjast 1. júní og er starfstímabilið tveir eða tveir og hálfur mánuður. Störfin eru hluti af atvinnuátaki Félagsmálaráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Háskólans í Reykjavík og eru sérstaklega ætluð nemum, 18 ára og eldri.

Hægt að skoða störfin eftir deildum og sækja um á vefsíðunni https://jobs.50skills.com/ru/is

Sumarstörfin eru mjög fjölbreytt. Allar akademískar deildir háskólans óska eftir starfskröftum háskólanema til að aðstoða við nýsköpun í kennslu með þróun kennsluefnis og kennsluaðferða og við fjölbreyttar rannsóknir. Mikið er um störf sem tengjast tölvunarfræði, til dæmis við forritun, gerð smáforrita og þróun notendaviðmóts. Einnig má nefna aðstoð við stafræna íslensku hjá Mál- og raddtæknistofu HR sem nýlega stóð fyrir hinni vinsælu Lestrarkeppni grunnskólanna í samstarfi við Almannaróm. Svefnsetur HR óskar eftir starfsfólki í fjölbreytt störf, meðal annars fyrir undirbúningsvinnu fyrir svefnrannsóknir. Einnig má nefna rannsóknir á þróun vélnámsaðferða, notkun minnisprófa vegna heilaskaða, hermilíkönum, afleiðingum heilahristings, bálkakeðjum og hagfræðirannsóknir. Störf sem tengjast starfsemi Háskólans í Reykjavík og veita jafnframt dýrmæta reynslu eru til dæmis við markaðsmál, vefmælingar og mannauðsmál.