Fréttir eftir árum


Fréttir

184 kandídatar brautskráðir

1.2.2015

Háskólinn í Reykjavík brautskráði 184 kandídata í gær, laugardaginn 31. janúar og fór athöfnin fram í Hörpu.

Útskriftarnemendur sem luku grunnprófi nú voru 132 talsins. Flestir luku námi frá tækni- og verkfræðideild að þessu sinni eða 66. Næst flestir útskrifuðust úr viðskiptadeild með grunngráðu eða 32 nemendur.

51 nemandi lauk meistara- eða doktorsnámi.  17 nemar luku meistaranámi frá tækni- og verkfræðideild, 15 frá viðskiptadeild, 10 frá lagadeild og sex nemendur luku meistaranámi við tölvunarfræðideild. Þrír doktorsnemar voru brautskráðir. Tveir þeirra útskrifuðust með doktorspróf í verk- og tæknivísindum og einn með doktorspróf í lögum. Þetta er í fyrsta sinn sem HR útskrifar doktor í lögfræði. 

HR útskriftAri Kristinn Jónsson, rektor HR, Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar og Milosz Hodun, fyrstu doktor í lögum sem útskrifast frá Háskólanum í Reykjavík.

Tæplega helmingur allra þeirra kandídata sem útskrifuðust í gær eru brautskráðir frá tækni- og verkfræðideild HR eða 46%.

Viggó Ásgeirsson, MBA frá HR árið 2009, flutti hátíðarávarp útskriftarinnar. Hann er einn stofnenda Meniga og mannauðsstjóri fyrirtækisins. Úlfar Karl Arnórsson, útskriftarnemi í vél- og orkutæknifræði, flutti ávarp fyrir hönd nemenda.

Hreggviður Jónsson, formaður stjórnar Viðskiptaráðs Íslands, afhenti eftirtöldum nemendum viðurkenningar VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur við fjórar akademískar deildir HR; Birki Jóhannssyni, viðskiptadeild, Kareni Björnsdóttur, lagadeild, Kristni Hlíðari Grétarssyni, tækni- og verkfræðideild og Þresti Thorarensen, tölvunarfræðideild.

HR útskriftMeðal þess sem Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, fjallaði um í ávarpi sínu til útskriftarnemenda var efling menntunar í landinu til að skapa þjóðinni verðmæti og bæta lífskjör til framtíðar. Sagði hann einu sjálfbæru leiðina fram á við að byggja á hugviti og þekkingu:

„Íslendingar njóta þess að eiga dýrmætar náttúruauðlindir sem eru grunnur sjávarútvegs, orkufreks iðnaðar og ferðaþjónustu. En verðmætasköpunin verður ekki aukin með því að ganga stöðugt lengra í ásókn okkar í auðlindirnar. Við þurfum að nýta hugvit okkar, þekkingu og sköpunargetu til að skapa ný verðmæti og lífskjör til framtíðar. Það gerist annars vegar með því að nýta betur þær auðlindir sem við eigum og hámarka þau verðmæti sem við sköpum með þeim. Hins vegar gerist það svo með því að skapa nýjar afurðir, nýjar lausnir og nýja tækni sem virkja fyrst og fremst hugvit okkar og sköpun. 

HR útskrift Viggó Ásgeirsson hélt hátíðarávarp.

Samhliða því að leggja áherslu á gæði menntunar, hefur HR tekist að fjölga til muna þeim sem kjósa að sækja háskólamenntun á sviðum tækni, viðskipta, laga og skyldra greina, og þannig lagt sitt af mörkum til að mæta þörfum atvinnulífs og samfélags. Þá höfum við undanfarin ár lagt sérstaka áherslu á að fjölga konum sem sækja sér háskólamenntun á sviði tæknigreina og vex hlutfall þeirra stöðugt.“

Við óskum þessum útskrifuðu HR-ingum til hamingju  með áfangann.