Fréttir eftir árum


Fréttir

208 brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík

2.2.2020

208 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær, laugardaginn, 1. febrúar. 153 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 54 úr meistaranámi og einn úr doktorsnámi.

Utskrift-2020-v-wAf samfélagssviði útskrifuðust samtals 71 nemandi, 31 úr grunnnámi og 40 úr meistaranámi. Þar af útskrifuðust þrír með BSc gráðu frá íþróttafræðideild, tíu úr grunnnámi og 18 úr meistaranámi frá lagadeild, sex úr grunnnámi og einn úr meistaranámi frá sálfræðideild og 12 úr grunnnámi og 21 úr meistaranámi frá viðskiptadeild.

Af tæknisviði útskrifuðust samtals 137 nemendur, 122 úr grunnnámi, 14 úr meistaranámi og einn úr doktorsnámi. Þar af útskrifuðust 52 úr grunnnámi úr iðn- og tæknifræðideild, úr tölvunarfræðideild útskrifuðust 52 úr grunnnámi og þrír úr meistaranámi og úr verkfræðideild útskrifuðust 18 úr grunnnámi, ellefu úr meistaranámi og einn úr doktorsnámi.

Brautskráning frá Háskólanum í Reykjavík 2020.Í ávarpi sínu til útskriftarnema sagði dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, m.a. að háskólar beri mikla ábyrgð þegar kemur að því að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina. Til þess hafi Háskólinn í Reykjavík markað sér skýra stefnu um þróun menntunar og þekkingar: 

Í menntun horfum við til þess að mæta nýrri kynslóð nemenda og nýjum þörfum samfélags með auknum sveigjanleika, stafrænni tækni og verkefnadrifnu námi í samstarfi við atvinnulíf og alþjóðlega samstarfsaðila. Um leið horfum við til þess að mæta menntunarþörfum þeirra sem þegar eru á vinnumarkaði, þar með talið útskrifuðum HR-ingum. Þannig tryggjum við menntun til tækifæra, fyrir alla og á öllum æviskeiðum. Í þekkingu leggjum við áherslu á rannsóknir sem styðja við framþróun samfélagsins, að miðla nýjustu vitneskju og aðferðum erlendis frá og að verða miðstöð þeirrar þekkingar sem þarf til að brúa milli samfélags og tæknibyltingar, sagði Ari meðal annars í ræðu sinni.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur. Þau hlutu að þessu sinni: Elín Lára Reynisdóttir BSc í íþróttafræði, Valgarður Ragnheiðar Ívarsson BSc í tölvunarfræði, Jónína Sigrún Birgisdóttir BSc í sálfræði, Þorri Geir Rúnarsson BSc í viðskiptafræði, Björgvin Grétarsson BSc í byggingartæknifræði, Hannes Rannversson BSc í rekstrarverkfræði og Sonja L. Estrajher Eyglóardóttir BA í lögfræði.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem var í fyrsta útskriftarárgangi HR í lögfræði árið 2007, flutti hátíðarávarp við athöfnina og Eðvarð Þór Eyþórsson, BSc í byggingartæknifræði flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.

Hægt er að horfa á upptöku frá brautskráningunni á vef HR: https://livestream.com/ru/brautskraning2020feb