Fréttir eftir árum


Fréttir

217 brautskráðir við hátíðlega athöfn í Hörpu

10.2.2018

IMG_10022018_164044217 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. 162 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 54 úr meistaranámi og einn nemandi úr doktorsnámi.

Frá tækni- og verkfræðideild luku 62 nemendur grunnnámi, 10 meistaranámi og einn doktorsnámi. 61 nemandi útskrifaðist úr tölvunarfræðideild, þar af 55 úr grunnnámi og sex með meistaragráðu. Viðskiptadeild útskrifaði 36 nemendur úr grunnámi og 25 úr meistaranámi. Lagadeild útskrifaði 22 nemendur, þar af níu úr grunnnámi og 13 með meistaragráðu.

IMG_10022018_164120Frumkvöðlastarf fyrir framtíðina

Í ávarpi sínu til útskriftarnema sagði dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR m.a. að stjórnvöld hafi á síðustu mánuðum boðað betri tíma í háskólastarfi og nýsköpun á Íslandi. Fjárframlög til háskóla hafi verið aukin með það að markmiði að efla háskólastarf og þannig fjárfesta í framtíðinni. Á sama tíma sé unnið að eflingu umhverfis nýsköpunar og frumkvöðlastarfs sem sé annar lykilþáttur til framtíðar.

„Þetta eru mjög jákvæð skref. Takist okkur að halda áfram á þessari vegferð, þá er framtíð okkar á Íslandi björt. Samkeppnishæfni landsins mun stóreflast, samfélag okkar njóta aukinna lífsgæða og menntaðir einstaklingar munu áfram finna sín bestu tækifæri á Íslandi,“ sagði Ari meðal annars í ræðu sinni.

Verðlaun veitt fyrir góðan námsárangur

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Þau hlutu að þessu sinni: Brynjar Gauti Guðjónsson, BSc í viðskiptafræði, Sigríður María Egilsdóttir, BA í lögfræði, Agnes Jóhannesdóttir, BSc í hugbúnaðarverkfræði og Magnús Hagalín Ásgeirsson, BSc í byggingartæknifræði.

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja flutti hátíðarávarp við athöfnina og Sonja Björg Jóhannsdóttir, BSc í sálfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.