Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

220 brautskráðir í dag

28.1.2017

220 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. 163 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi og 56 úr meistaranámi.

Flestir luku námi frá tækni- og verkfræðideild háskólans, eins og fyrri ár, eða 84 nemendur, þar af 18 með meistaragráðu. 72 nemendur útskrifuðust úr tölvunarfræðideild, þar af fjórir með meistaragráðu. Viðskiptadeild útskrifaði 44 nemendur, þar af 21 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu. Lagadeild útskrifaði 20 nemendur, þar af 13 með meistaragráðu.

Í ávarpi sínu til útskriftarnema sagði dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, að við lifum á einstökum tímum sem skapi bæði áskoranir og tækifæri. Byltingar í tækni og samfélagi muni gerbreyta störfum og lífi um allan heim og líklegt sé að um helmingur þeirra starfa sem útskriftarnemar starfi við í framtíðinni, séu óþekkt í dag. Til að takast á við þessar breytingar þurfi öfluga háskóla.

„Til að takast á við þessa framtíð verðum við að nýta menntun og hugvit til að breyta okkar samfélagi, skapa ný tækifæri og þora að takast á við krefjandi verkefni. Það þýðir að öflugt háskólastarf verður undirstaða lífskjara okkar á Íslandi til framtíðar. Háskólamenntun er grundvöllur sköpunar verðmæta, hvort sem litið er til þess að hámarka afrakstur þeirra dýrmætu náttúrulinda sem við njótum eða að skapa nýjar lausnir og nýjar vörur með hugvitinu. Háskólamenntun er líka forsenda þeirrar þjónustu sem veitt er í okkar samfélagi, hvort sem horft er til heilbrigðiskerfis, réttarkerfis eða annarra þátta. Loks eru rannsóknir og nýsköpun í háskólum uppspretta nýrrar þekkingar og tækni, bæði fyrir þau fyrirtæki sem þegar eru til og ekki síður fyrir þau sem enn á eftir að stofna,“ sagði Ari meðal annars í ræðu sinni.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Þau hlutu að þessu sinni: Ingveldur Anna Sigurgeirsdóttir, BSc  í viðskiptafræði; Marta Bryndís Matthíasdóttir, BA í lögfræði; Fanney Sigurðardóttir, BSc í tölvunarfræði og Hákon Valur Dansson, BSc í hátækniverkfræði.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins flutti hátíðarávarp við athöfnina og Bjarki Þórsson ML í lögfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.

Útskrifarhópurinn í tölum

Lagadeild

Grunnnám 7, meistaranám 13

Tækni- og verkfræðideild

Grunnnám 66, meistaranám 18

Tölvunarfræði

Grunnnám 68, meistaranám 4

Viðskiptadeild

Grunnnám 22, meistaranám 21, doktorsnám 1