Fréttir eftir árum


Fréttir

32 nemendur brautskráðir úr frumgreinadeild HR

14.6.2015

Útskrift frumgreinaHáskólinn í Reykjavík brautskráði á föstudag 32 nemendur með frumgreinapróf frá frumgreinadeild háskólans. Frumgreinanám við HR veitir fólki með iðnmenntun eða aðra menntun en stúdentspróf og reynslu úr atvinnulífinu, undirbúning fyrir háskólanám.


Í ár var kynjahlutfall brautskráðra nemenda frá frumgreinadeildinni í fyrsta skipti jafnt. Flestir eru með starfsreynslu úr verslunar- og þjónustugeiranum, margir hafa lokið sveinsprófi í iðngrein og enn aðrir hafa sinnt verkamannastörfum, en þátttaka á vinnumarkaði er eitt skilyrða þess að komast í námið. Stærstur hluti brautskráðra nemenda hyggst halda áfram námi við akademískar deildir HR í haust. Elsti nemandinn sem útskrifaðist í ár er 43 ára en sá yngsti 21 árs. 


Við brautskráninguna hlaut Rakel María Brynjólfsdóttir viðurkenningu Samtaka iðnaðarins fyrir bestan árangur í frumgreinanámi. Í máli Málfríðar Þórarinsdóttur, forstöðumanns frumgreinanámsins við HR, kom fram að meginmarkmiðið með náminu sé að kenna nemendum öguð vinnubrögð sem nýtist í fyrirhuguðu háskólanámi. Í ræðu sinni sagði hún einnig: „Skemmtilegt og krefjandi eru þau einkunnarorð sem nemendur gefa náminu og þegar skoðaðar eru umsagnir nemenda um námið stendur nokkuð upp úr þeim lýsingum að þetta hafi verið mjög góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám, góður bekkjarandi, mikil samvinna nemenda, skemmtilegir félagar og hjálpsamir og metnaðarfullir kennarar.“


Þetta er í 73. sinn sem nemendur brautskrást úr frumgreinanámi við HR, sem er það elsta sinnar tegundar hér á landi. Frá því að það var stofnsett í Tækniskóla Íslands árið 1964 hafa1976 nemendur útskrifast. Undanfarin 12 ár hafa flestir nemendur tekið námið á þremur önnum en nú hefur það verið stytt í eitt ár og skipulagi þess breytt þannig að nemendur velja strax þann undirbúning sem hentar fyrirhuguðu námi á háskólastigi. Við skipulagsbreytingarnar var tekið mið af aðgangsviðmiðum akademískra deilda Háskólans í Reykjavík og aðalnámskrá framhaldsskólanna.


Frekari upplýsingar um frumgreinanám við Háskólann í Reykjavík er að finna á vefsíðunniwww.ru.is/frumgreinanam