Fréttir eftir árum


Fréttir

350 íbúðir og einstaklingsherbergi í Háskólagörðum HR

3.6.2015

Háskólagarðar HRHáskólinn í Reykjavík áformar að byggja 350 nýjar íbúðir og einstaklingsherbergi, auk leikskóla og þjónustuhúsnæðis, í nýjum Háskólagörðum vestan Öskjuhlíðar. Borgarráð samþykkti í síðustu viku að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir svæðið. Unnið er að hönnun og fjármögnun bygginga á svæðinu og vonast er til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, segir að nýjum Háskólagörðum sé ætlað að bæta úr brýnni þörf nemenda skólans á íbúðarhúsnæði. „Nýir Háskólagarðar eru brýnt hagsmunamál nemenda við HR og liður í áætlun HR um að skapa öflugt þekkingarþorp við skólann. Ég er þess vegna mjög ánægður með að þetta verkefni sé nú komið í fullan gang.“

Fyrirhugaðar íbúðir eru ætlaðar til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir nemendur og starfsfólk fyrirtækja sem starfa hjá HR og öðrum þekkingarfyrirtækjum í nágrenninu. Miðað er við litlar íbúðir og einstaklingsherbergi með sameiginlegri aðstöðu. Byggingar verða almennt tvær til fjórar hæðir. Á jarðhæð er gert ráð fyrir möguleika á dagvöruverslun og annarri þjónustu. Syðst á svæðinu, næst Háskólanum í Reykjavík, er gert ráð fyrir leikskóla og annarri hverfisþjónustu.

Við hönnun bygginga á svæðinu verður sérstök áhersla á að tengja byggðina vel við umhverfið með sjálfbærni og vistvænar samgöngur að leiðarljósi. Byggðin mun einkennast af skjólgóðum og friðsælum inngörðum og göngu- og hjólastígum sem tvinna svæðið saman við útivistarsvæði Öskjuhlíðar. Bygging Háskólagarðanna er óháð framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni.

Nýtt deiliskipulag var unnið af Kanon Arkitektum, í samstarfi við HR og Reykjavíkurborg, í kjölfar hugmyndasamkeppni um skipulag svæðisins sem haldin var í fyrra. Skipulagið verður til sýnis og kynningar í anddyri skrifstofa Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14 á næstu dögum.

Háskólagarðar HR