Fréttir eftir árum


Fréttir

400 stelpur kynntust tæknifögum í HR

29.4.2016

 

Takmarkið að brjóta niður staðalímyndir

Háskólinn í Reykjavík, ásamt Ský og Samtökum iðnaðarins stóðu fyrir viðburðinum Stelpur og tækni í gær. Þá heimsóttu um fjögur hundruð stelpur úr grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi háskólann og nærri 20 tæknifyrirtæki. Markmiðið með viðburðinum er að vekja áhuga stelpna á fjölbreyttum möguleikum í tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.

„Látum ekki starfsheitin blekkja okkur“

Áður en dagskráin hófst sagði Salka Sól Eyfeld, tónlistar- og leikkona, nokkur orð. Hún fjallaði í stuttri ræðu um staðalímyndir, til dæmis um karllæg starfsheiti. „Mikið af vinnuheitum eru karlkyns orð. Orð eins og sérfræðingur, læknir, vísindamaður, flugmaður, vélvirki, tónlistarmaður og rappari. Þetta eru allt karlkyns orð. En við megum ekki láta það blekkja okkur! Þó svo að orðin hljómi eins og einungis karlmenn séu færir um þessi störf erum við stelpurnar full færar um að gegna þessum störfum, en kannski er þetta hluti af ástæðunni afhverju konur sækjast síður í nám til að gegna þessum störfum.“

Tölvuleikir og brotaþol beina

Stelpurnar héldu því næst í mismunandi vinnusmiðjur sem voru haldnar í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR, Skema og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar. Viðfangsefnin voru af ólíkum toga og í ár var meðal annars boðið upp á vinnusmiðjur um uppbyggingu tölvuleikja, heilarita, félagsgervigreind og brotaþol kjúklingabeina.

Stelpur og tækni 2016: Þáttakendur deila reynslu sinni

Margvísleg tæknifyrirtæki heimsótt

Eftir að vinnustofunum lauk fóru stelpurnar í heimsókn í tæknifyrirtæki. Þar miðluðu konur sem starfa hjá fyrirtækjunum reynslu sinni, gefin var innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Þau fyrirtæki sem stelpurnar heimsóttu í ár voru: Advania, Alcoa, CCP, GreenQloud, Íslandsbanki, Landsvirkjun, LS Retail, Marel, Mentor, NOVOMATIC Lottery Solutions, Meniga, Microsoft, Opin Kerfi, ORF Líftækni, Plain Vanilla, Qlik, Síminn og Tempo Software.

Haldinn víða í Evrópu

Viðburðurinn var nú haldinn í þriðja sinn og hefur dagskráin aldrei verið umfangsmeiri. „Girls in ICT Day“ er haldinn víða um Evrópu í apríl á hverju ári og er styrktur af ITU (International Telecommunication Union) og Evrópusambandinu í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. HR hefur haldið utan um daginn hér á landi frá upphafi, árin 2014 og 2015. Stelpur og tækni fór upphaflega af stað með styrk úr framkvæmdasjóði jafnréttismála og hefur nú hlotið veglegan styrk úr samfélagssjóði Alcoa.