Fréttir eftir árum


Fréttir

42 nemendur ljúka undirbúningsnámi fyrir háskóla í Háskólagrunni HR

15.6.2020

Hópur stendur í tröppunum í SólinniHáskólinn í Reykjavík brautskráði á föstudaginn, 12. júní, 42 nemendur sem hafa lokið Háskólagrunni HR frá frumgreinadeild háskólans.

Þrettán nemendur brautskráðust af tækni- og verkfræðigrunni deildarinnar, 21 af laga- og viðskiptagrunni og átta af tölvunarfræðigrunni. Til viðbótar hafa 23 nemendur lokið viðbótarnámi við stúdentspróf við deildina.  

Samtals hafa 2.324 nemendur útskrifast með lokapróf frá frumgreinadeild HR. Meirihluti þeirra hefur í framhaldinu sótt um akademískt nám við HR. Opið er fyrir umsóknir í Háskólagrunn HR fyrir næsta skólaár til 22. júní næstkomandi en í dag er síðasti umsóknarfrestur fyrir grunnnám við háskólann.

Hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur

Við brautskráninguna hlaut Matthías Mar Birkisson viðurkenningu Samtaka iðnaðarins fyrir bestan árangur í Háskólagrunni HR. Matthías hlaut jafnframt raungreinaverðlaun HR fyrir ágætan árangur í raungreinum og viðurkenningu fyrir ágætan árangur í stærðfræði.

Aðrir sem hlutu viðurkenningar eru:

 

  • Aldís Hlín Skúladóttir: Viðurkenning fyrir ágætan árangur í stærðfræði.
  • Anna Líney Ívarsdóttir: Viðurkenning frá viðskiptadeild HR fyrir ágætan árangur í bókhaldi, reikningshaldi og þjóðhagfræði, viðurkenning fyrir ágætan árangur í hugmyndasögu og náttúrufræði.
  • Halla Kolbeinsdóttir: Viðurkenning fyrir ágætan árangur í hugmyndasögu.
  • Hrannar Freyr Markússon Kreye: Viðurkenning frá tölvunarfræðideild HR fyrir ágætan árangur í forritun.
  • Pétur Kristófersson: Viðurkenning Danska sendiráðsins fyrir ágætan árangur í dönsku og viðurkenning fyrir ágætan árangur í íslensku, ritun og aðferðafræði og náttúrufræði.
  • Selma Brá Jökulsdóttir : Viðurkenning fyrir ágætan árangur í ensku.

 

Við athöfnina flutti Óðinn Bolli Björgvinsson, rennismiður, vöruhönnuður og framleiðslusérfræðingur hjá Össuri, ávarp fyrir hönd eldri nemenda. Af hálfu útskriftarnema talaði Halla Kolbeinsdóttir.

Við óskum öllum brautskráðum til hamingju með áfangann.