Fréttir eftir árum


Fréttir

50 grunnskólar um allt land tóku þátt í Stelpur og tækni í ár

22.5.2020

Stelpur og tækni dagurinn var haldinn í grunnskólum út um allt land síðasta miðvikudag. Í ár tóku stelpur úr um 50 skólum þátt og sökum sérstakra aðstæðna var dagskránni streymt á netinu. 

Markmiðið með deginum, sem hefur verið haldinn undanfarin ár í HR, er að hvetja stelpur til náms í tæknigreinum. Þannig gengur dagskráin út á það að vekja áhuga þeirra á ýmsum möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn. Að verkefninu stenda Háskólinn í Reykjavík ásamt Ský og Samtökum iðnaðarins en dagurinn er hluti af „Girls in ICT Day“- verkefni ESB.

Konur eru um 30% þeirra sem skrá sig í tækninám á háskólastigi hér á landi. Það er því til mikils að vinna við að laða fleiri konur að tækninámi enda er sú þekking afar mikilvæg atvinnulífinu og áríðandi að sem fjölbreyttastur hópur komi að því að skapa atvinnutækifæri framtíðarinnar. 

Stelpur og tækni 2020 „þetta snýst ekki bara um að sitja við tölvu og forrita“Nemendur HR tóku þátt í að fræða stelpur út um allt land um tækninám á háskólastigi. 

Dagskrá dagsins gekk út á að fræða þátttakendur og leyfa þeim að prófa, t.d. vefsíðugerð. Stelpurnar voru mjög ánægðar með daginn og það virtist alls ekki setja strik í reikninginn að streyma fyrirlestrum og vinnustofum enda var nú hægt að ná til skólanna hvar sem þeir eru á landinu.