Fréttir eftir árum


Fréttir

553 nemendur brautskráðir í Hörpu

20.6.2015

Útskrift í júní 2015553 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. Aldrei hafa fleiri nemendur útskrifast frá háskólanum. 368 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 184 úr meistaranámi og einn nemandi útskrifaðist með doktorsgráðu. Um 3500 nemendur stunduðu nám við skólann á síðasta skólaári.

Flestir luku námi frá tækni- og verkfræðideild háskólans, eða 201 nemandi, þar af 62 með meistaragráðu. 183 nemendur útskrifuðust úr viðskiptadeild, þar af 83 með meistaragráðu. Lagadeild útskrifaði 77 nemendur, þar af 37 með meistaragráðu. Tölvunarfræðideild útskrifaði 92 nemendur, þar af 2 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu   

Í ávarpi sínu til útskriftarnema fjallaði dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, meðal annars um mikilvægi menntunar í síkviku, alþjóðlegu umhverfi: „Ísland nýtur þess að hafa aðgengi að dýrmætum auðlindum í orku, í hafi og í náttúru. Við horfum líka til þess að nýting okkar á þessum auðlindum sé sjálfbær til framtíðar og vonandi auðnast okkur að halda því. En til þess að svo megi verða, þá þurfum við stöðugt að finna nýjar leiðir til að skapa verðmæti og til að bæta okkar samfélag, án þess að ganga á auðlindir framtíðarinnar. Þetta tvennt - hraðar breytingar umheimsins og hagsmunir Íslands til lengri tíma - kallar skýrt á það að við nýtum menntun okkar og hugvit til að breyta okkar samfélagi, skapa ný tækifæri og þora að takast á við krefjandi verkefni.  Og það eru engir betur í þann stakk búnir en þeir sem hér útskrifast í dag.“

Ari Kristinn Jónsson

Ari greindi einnig frá helstu niðurstöðum könnunar sem gerð var nýlega meðal útskriftarnema við HR. Þar kom m.a. fram að 83% þeirra útskriftarnema sem stefna á  vinnumarkaðinn eru þegar komin með vinnu og flestir þeirra sem eru að leita að vinnu eru bjartsýnir á að fá vinnu fljótlega. Einnig telja 83% útskriftarnema að nám við HR hafa undirbúið þá vel eða mjög vel fyrir þátttöku í atvinnulífinu.

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja og varaformaður stjórnar HR veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Þau hlutu að þessu sinni: Guðrún Ólöf Olsen, BA í lögfræði; Arnar Guðjón Skúlason, BSc í sálfræði; Tómas Ken Magnússon; BSc í tölvunarstærðfræði; Bjarki Ágúst Guðmundsson, BSc í tölvunarstærðfræði og Tómas Arnar Guðmundsson, BSc í rekstrarverkfræði.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS og MBA frá HR árið 2007, flutti hátíðarávarp útskriftarinnar og Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, BSC í hugbúnaðarverkfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.

Hægt er að sjá myndir frá útskriftinni á Facebook síðu HR.