Fréttir eftir árum


Fréttir

591 brautskráður frá Háskólanum í Reykjavík

17.6.2018

Háskólinn í Reykjavík brautskráði 591 nemanda við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær, laugardaginn 16. júní. 390 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 199 úr meistaranámi og tveir nemendur útskrifuðust með doktorsgráðu. Í útskriftarhópnum voru 271 konur og 320 karlar.

Flestir luku námi frá frá tækni- og verkfræðideild háskólans, eða 214 nemendur, þar af 79 með meistaragráðu. Frá viðskiptadeild háskólans útskrifuðust 211 nemendur, þar af 95 með meistaragráðu. Tölvunarfræðideild útskrifaði 120 nemendur, þar af 7 með meistaragráðu og tvo með doktorsgráðu. Lagadeild útskrifaði 46 nemendur, þar af 18 með meistaragráðu.

Stuðningur við nýsköpun mikilvægur

Í ávarpi sínu til útskriftarnema talaði dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, um framtíðina í ljósi breytinga og tækifæra fyrir Ísland. Hann sagði undirstöður Íslands vera traustar. Þjóðin hafi náttúruauðlindir til að byggja á, hér sé tæknivætt traust lýðræðissamfélag og Íslendingar hugmyndaríkir og duglegir. Veikleiki Íslands sé að hafa setið eftir í fjárfestingu í háskólamenntun, nýsköpun og öðrum lykilþáttum, en nú horfi til betri vegar: „Stjórnvöld hafa boðað aukin fjárframlög til háskóla til að styrkja menntun, rannsóknir og áhrif háskóla á samfélagið. Á sama tíma er unnið að eflingu umhverfis nýsköpunar, bæði með því að móta skýra stefnu til framtíðar og með því að fjárfesta verulega í auknum stuðningi við nýsköpun. Þetta eru stór jákvæð skref,“ sagði hann meðal annars í ræðu sinni.

Védís Hervör Árnadóttir, samskipta- og miðlunarstjóri Viðskiptaráðs Íslands, veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Þau hlutu að þessu sinni: Hjalti Jón Guðmundsson BA í lögfræði, Sigurður Davíð Stefánsson BSc í rekstrarverkfræði, Andrea Björnsdóttir BSc í viðskiptafræði og Hanna Ragnarsdóttir BSc í tölvunarfræði.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem útskrifaðist með meistaragráðu í lögfræði frá HR árið 2012, flutti hátíðarávarp útskriftarinnar og Hjalti Rúnar Oddsson, meistaranemi í íþróttavísindum og þjálfun, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.

Hægt er að horfa á upptöku frá brautskráningunni á vef HR: https://livestream.com/ru/2018juni

Hópur fólks stendur í miðjum hátíðarsalÚtskrifarhópurinn í tölum

Viðskiptadeild 211

Grunnnám 116, meistaranám 95. Konur 121, karlar 90.

Tækni- og verkfræðideild 214

Grunnnám 135, meistaranám 79. Konur 89, karlar 125.

Lagadeild 46

Grunnnám 28, meistaranám 18. Konur 28, karlar 18.

Tölvunarfræði 120

Grunnnám 111, meistaranám 7, doktorsnám 2. Konur 33, karlar 87.