Fréttir eftir árum


Fréttir

60 nemendur brautskráðir með lokapróf úr Háskólagrunni HR

13.6.2021

Háskólinn í Reykjavík brautskráði í gær, föstudaginn, 11. júní, 60 nemendur með lokapróf úr Háskólagrunni HR. Við brautskráninguna hlaut Una Mattý Jensdóttir viðurkenningu Samtaka iðnaðarins fyrir bestan námsárangur.

Sex nemendur brautskráðust úr lögfræðigrunni, 20 úr tækni- og verkfræðigrunni, 13 úr tölvunarfræðigrunni og 21 úr viðskiptafræðigrunni. Til viðbótar stunduðu 45 nemendur viðbótarnám við stúdentspróf á skólaárinu. Alls hafa 2.384 nemendur útskrifast með lokapróf úr Háskólagrunni og frumgreinadeild HR, frá stofnun deildarinnar árið 1964. Meirihluti þeirra hefur í framhaldinu sótt háskólanám við HR. Opið er fyrir umsóknir í Háskólagrunn HR fyrir næsta skólaár til 15. júní.

60 nemendur brautskráðir með lokapróf úr Háskólagrunni HRGlæsilegur útskriftarhópur með lokapróf úr Háskólagrunni HR ásamt Önnu Sigríði Bragadóttur, Forstöðumanni Háskólagrunns HR, og Ara Kristni Jónssyni, rektor HR.

Háskólagrunnur HR er eins árs til þriggja anna undirbúningsnám fyrir háskólanám sem lýkur með lokaprófi sem veitir rétt til háskólanáms. Nemendur velja sér grunn miðað við það háskólanám sem stefnt er að í framhaldinu. Einnig er boðið upp á undirbúningsnám fyrir háskólanám fyrir einstaklinga sem hafa lokið stúdentsprófi en þurfa að bæta við sig einingum, aðallega í raungreinum, fyrir draumaháskólanámið. Næsta haust verður í fyrsta skipti boðið upp á nám við Háskólagrunn HR á Austurlandi í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Við athöfnina flutti Margrét Arnardóttir, vélaverkfræðingur og framkvæmdastjóri framleiðslu- og tæknisviðs hjá Ölgerðinni, ávarp fyrir hönd eldri nemenda. Af hálfu útskriftarnema talaði Sigfús Axfjörð Sigfússon.

Eftirtaldir nemendur hlutu viðurkenningar fyrir góðan árangur:

  • Anna María Sigurðardóttir - viðurkenning fyrir góðan árangur í náttúrufræði.
  • Ágústa Björk Sch. Bergsveinsdóttir - viðurkenning frá viðskipadeild HR fyrir góðan árangur í þjóðhagfræði og bók- og reikningshaldi.
  • Gissur Már Jónsson - viðurkenning fyrir góðan árangur í ritun og aðferðafræði
  • Hálfdán Bjarnason -viðurkenning fyrir tölfræði og viðskiptastærðfræði
  • Helgi Michael Guðmundsson - viðurkenning fyrir dönsku frá danska sendiráðinu
  • Margrét Halla María Johnson - viðurkenning fyrir dönsku frá danska sendiráðinu, fyrir náttúrufræði, fyrir ritun og aðferðafræði.
  • Patrekur Þór Agnarsson - viðurkenning frá tölvunarfræðideild HR fyrir forritun
  • Sigurbjörg Katla Valdimarsdóttir - viðurkenning fyrir besta árangur í raungreinum og viðurkenning í ensku.
  • Una Mattý Jensdóttir - viðurkenning frá Samtökum iðnaðarins fyrir besta árangur á lokaprófi úr Háskólagrunni. Auk þess viðurkenning fyrir góðan árangur í íslensku og góðan árangur í stærðfræði.