Fréttir eftir árum


Fréttir

600 brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík

20.6.2020

Háskólinn í Reykjavík brautskráði 600 nemendur við hátíðlegar athafnir í Hörpu í dag laugardaginn 20. júní. Vegna takmarkana á hópastærðum vegna COVID-19 var brautskráningunni skipt í tvær athafnir og voru nemendur tæknisviðs útskrifaðir fyrir hádegi og nemendur samfélagssviðs eftir hádegi. 437 nemendur brautskráðust úr grunnnámi, 160 úr meistaranámi og þrír úr doktorsnámi. Í útskriftarhópnum voru 269 konur og 331 karl.

Utskrift_Hera

Flestir luku námi frá tölvunarfræðideild háskólans að þessu sinni, eða 144 nemendur, þar af fjórir með meistaragráðu. Frá viðskiptadeild háskólans útskrifuðust 133 nemendur, þar af 51 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu. Frá verkfræðideild útskrifuðust 126, þar af 49 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu. Sálfræðideild útskrifaði 74 nemendur, þar af 21 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu. Það er í fyrsta sinn sem doktorsnemi útskrifast frá sálfræðideild háskólans. Lagadeild útskrifaði 53 nemendur, þar af 19 með meistaragráðu. Frá íþróttafræðideild útskrifuðust 44 þar af 17 úr meistaranámi. Loks útskrifuðust 26 nemendur frá iðn- og tæknifræðideild.

Í ávarpi sínu til útskriftarnema talaði Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, meðal annars um mikilvægi samkeppni sem driffjöður fyrir fjölbreytni og framþróun í íslensku háskólaumhverfi:

„Samkeppnin hefur gert miklu meira en að styrkja HR. Hún hefur skilað ótrúlegum framförum fyrir háskólakerfið í heild sinni. Í dag er háskólastarf á Íslandi öflugra, breiðara og sterkara en ella hefði verið og það er til hagsbóta fyrir okkur öll. Það sem þó skiptir okkur mestu máli er að samkeppni hefur fært nemendum valkosti í sínu námi. Nemendur geta valið milli mismunandi háskóla og þannig valið sér nám, aðstöðu, kennsluhætti og þjónustu sem hentar þeim best. Þessi samkeppni um nemendur heldur okkur líka á tánum. Því er það okkur í HR alltaf efst í huga að tryggja nemendum okkar nám í hæsta gæðaflokki, fyrsta flokks aðstöðu og það sem mestu skiptir, tækifæri til að skapa sér sína eigin framtíð.“

Útskriftarnemendur 2020 af Tæknisviði Háskólans í ReykjavíkÚtskriftarhópurinn sem útskrifaðist frá tæknisviði HR

Þórður Atlason, BSc í hugbúnaðarverkfræði og Eygló María Björnsdóttir, BSc í viðskiptafræði og tölvunarfræði fluttu ávörp fyrir hönd útskriftarnemenda.Verðlaun Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi hlutu að þessu sinni: Hákon Ingi Stefánsson diplóma í rafiðnfræði, Kristjana Ósk Kristinsdóttir BSc í heilbrigðisverkfræði, Gunnar Guðmundsson BSc í íþróttafræði, Íris Þóra Júlíusdóttir BA í lögfræði, Jóhanna Margrét Gunnarsdóttir BSc í sálfræði, Hávar Snær Gunnarsson BSc í hagfræði og fjármálum og Þórður Friðriksson BSc í hugbúnaðarverkfræði.

Útskriftarnemendur 2020 af Samfélagssviði Háskólans í ReykjavíkÚtskriftarhópurinn sem útskrifaðist frá samfélagssviði HR

Hægt er að horfa á upptöku frá brautskráningunni á vef HR: https://livestream.com/ru/brautskraningjuni2020

Útskriftarhópurinn í tölum:

Verkfræðideild 152

 • Grunnnám 79
 • Meistaranám 71
 • Doktorsnám 2. Konur 75, karlar 77


Viðskiptadeild 143

 • Grunnnám 63 
 • Meistaranám 80. Konur 79, karlar 64


Tölvunarfræðideild 125

 • Grunnnám 116
 • Meistaranám 9. Konur 30, karlar 95


Sálfræðideild 76

 • Grunnnám 53
 • Meistaranám 23. Konur 61, karlar 15


Lagadeild 62

 • Grunnnám 31
 • Meistaranám 31. Konur 37, karlar 25


Iðn- og tæknifræðideild 36

 • Konur 5, karlar 31


Íþróttafræðideild 44

 • Grunnnám 28
 • Meistaranám 17. Konur 8, karlar 9