Fréttir eftir árum


Fréttir

627 brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík

22.6.2019

Háskólinn í Reykjavík brautskráði 627 nemendur við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag, laugardaginn 22. júní. 400 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 225 úr meistaranámi og tveir nemendur útskrifuðust með doktorsgráðu. Í útskriftarhópnum voru 301 kona og 326 karlar.

Brautskráningin 22. júní 2019 

Í fyrsta skipti var brautskráð frá sjö deildum, samkvæmt nýju skipulagi háskólans. Flestir luku námi frá verkfræðideild háskólans, eða 152 nemendur, þar af 79 úr grunnnámi, 71 úr meistaranámi og 2 með doktorsgráðu. Frá viðskiptadeild háskólans útskrifuðust 143 nemendur, þar af 80 með meistaragráðu. Tölvunarfræðideild útskrifaði 125 nemendur, þar af 9 með meistaragráðu. Sálfræðideild útskrifaði 76 nemendur, þar af 23 með meistaragráðu. Lagadeild útskrifaði 62 nemendur, þar af 31 með meistaragráðu. Frá iðn- og tæknifræðideild útskrifuðust 36 nemendur úr grunnnámi. Loks útskrifuðust 33 nemendur frá íþróttafræðideild, þar af 11 úr meistaranámi.

Ari-rektor-a-utskrift-HR-vor-2019Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík


Í ávarpi sínu til útskriftarnema talaði Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, um að háskólar beri mikla ábyrgð þegar kemur að því að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina og kynnti nýja stefnu sem háskólinn hefur sett sér til að standa undir þeirri ábyrgð:

"Í menntun horfum við til þess að mæta nýrri kynslóð nemenda og nýjum þörfum samfélags með auknum sveigjanleika, stafrænni tækni og verkefnadrifnu námi í samstarfi við atvinnulíf og alþjóðlega samstarfsaðila. Um leið horfum við til þess að mæta nýjum menntunarþörfum þeirra sem þegar eru á vinnumarkaði, þar með talið útskrifuðum HR-ingum. Þannig tryggjum við menntun til tækifæra, fyrir alla og á öllum æviskeiðum. Í þekkingu leggjum við áherslu á að skapa þekkingu sem styður við framþróun samfélagsins, að miðla nýjustu þekkingu erlendis frá og verða miðstöð þeirrar þekkingar sem þarf til að brúa milli samfélags og tæknibyltingar.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, veitt verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi.

Þau hlutu að þessu sinni: Esther Ýr Óskarsdóttir BA í lögfræði, Jevgenij Stormur Guls BSc í vél- og orkutæknifræði, Þóra Kristín Jónsdóttir BSc í íþróttafræði, Guðrún Þóra Sigurðardóttir BSc í hátækniverkfræði, Matthías Davíðsson BSc í tölvunarfræði, Karen Kristinsdóttir BSc í sálfræði og Sverrir Bartolozzi BSc í hagfræði og fjarmálum.

Ragnhildur Ágústsdóttir, BSc í viðskiptafræði frá HR árið 2005, frumkvöðull og sölustjóri samstarfsaðila Microsoft á Íslandi, flutti hátíðarávarp útskriftarinnar og Sindri Ingólfsson, BSc í tölvunarstærðfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.

Hér er hægt er að horfa á upptöku frá brautskráningunni HR

Útskriftarhópurinn í tölum:

 • Verkfræðideild 152
  Grunnnám 79, meistaranám 71, doktorsnám 2. Konur 75, karlar 77.
 • Viðskiptadeild 143
  Grunnnám 63, meistaranám 80. Konur 79, karlar 64.
 • Tölvunarfræðideild 125
  Grunnnám 116, meistaranám 9. Konur 30, karlar 95.
 • Sálfræðideild 76
  Grunnnám 53, meistaranám 23. Konur 61, karlar 15.
 • Lagadeild 62
  Grunnnám 31, meistaranám 31. Konur 37, karlar 25.
 • Iðn- og tæknifræðideild 36
  Konur 5, karlar 31.
 • Íþróttafræðideild 33
  Grunnnám 22, meistaranám 11. Konur 14, karlar 19.