Fréttir eftir árum


Fréttir

86 nemendur brautskráðir frá frumgreinadeild HR

16.6.2016

Háskólinn í Reykjavík brautskráði í dag 86 nemendur með frumgreinapróf. Frumgreinanám við HR veitir fólki með iðnmenntun eða aðra menntun en stúdentspróf og reynslu úr atvinnulífinu, undirbúning fyrir háskólanám. Til viðbótar luku 14 nemendur viðbótarnámi við stúdentspróf í stærðfræði og raungreinum. 

Þetta er langstærsta brautskráningin í sögu deildarinnar, sem er sú 75. í röðinni en samtals hafa 2094 nemendur útskrifast frá deildinni þau rúmlega 50 ár sem hún hefur verið starfrækt.

Eftirtaldir nemendur hlutu viðurkenningar:

 

  • Rannveig V. Eriksen hlaut viðurkenningu Samtaka iðnaðarins fyrir bestan árangur í frumgreinanámi. Hún fékk jafnframt viðurkenningu fyrir ágætan árangur í íslensku.  
  • Jón Ægir Sigmarsson, Óskar Ágúst Albertsson og Sverrir Jónsson fengu viðurkenningar frá Íslenska stærðfræðafélaginu fyrir ágætan árangur í stærðfræði.
  • Óskar Ágúst Albertsson, Sverrir Jónsson og Úlfur Jóhann Edvardsson fengu viðurkenningar fyrir ágætan árangur í raungreinum
  • Guðmundur Rafn Ásgeirsson og Kristian Valur Laursen Ólason fengu viðurkenningar frá tölvunarfræðideild HR fyrir ágætan árangur í forritun og Kristian fékk að auki viðurkenningar fyrir ágætan árangur í ensku og náttúrufræði.
  • Eiður Ágúst Egilsson fékk viðurkenningu frá þýska sendiráðinu fyrir ágætan árangur í þýsku Valdís Halldórsdóttir fékk viðurkenningu frá danska sendiráðinu fyrir ágætan árangur í dönsku. Valdís fékk jafnframt viðurkenningar fyrir ágætan árangur í hugmyndasögu og íslensku.
  • Ásdís Erna Guðmundsdóttir og Maríanna Ósk Sigfúsdóttir fengu viðurkenningur fyrir ágætan árangur í íslensku
  • Magnús Dilan Soransson fékk viðurkenningu fyrir ágætan árangur í ensku

 Útskriftarnemendur í Sólinni

Við athöfnina fluttu Arnar Helgi Ágústsson og Ásdís Erna Guðmundsdóttir ávörp fyrir hönd útskriftarnema og Kristbjörg Theodórs Jónsdóttir, verkefnisstjóri við heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítalans, flutti ávarp fyrir hönd eldri nemenda en það eru 25 ár síðan Kristbjörg lauk prófi frá frumgreinadeild Tækniskóla Íslands, fyrirrennara frumgreinadeildar HR. Við athöfnina flutti Þuríður Elín Sigurðardóttir nokkur lög við undirleik Tómasar Jónssonar.

Athöfninni var streymt á netinu en sex útskriftarnemar eru í Vínarborg í Austurríki í þýskunámi og starfsþjálfun á vegum Erasmus+ menntaáætlunar Evrópusambandsins.

Málfríður Þórarinsdóttur, forstöðumaður frumgreinanámsins við HR, sagði við brautskráninguna að meginmarkmiðið með náminu væri að kenna nemendum öguð vinnubrögð sem nýtist þeim í háskólanámi. Í ræðu sinni sagði hún einnig: „Skemmtilegt og krefjandi eru þau einkunnarorð sem nemendur gefa náminu og þegar skoðaðar eru umsagnir nemenda um námið stendur nokkuð upp úr þeim lýsingum að þetta hafi verið mjög góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám, góður bekkjarandi, mikil samvinna nemenda, skemmtilegar félagar og hjálpsamir og metnaðarfullir kennarar.“

Síðastliðið haust var tekið upp nýtt skipulag sem gerir nemendum kleift að ljúka frumgreinanámi á einu ári í stað þriggja anna áður. Nemendur velja strax í upphafi frumgreinanáms þann undirbúning sem hentar fyrirhuguðu námi á háskólastigi. Undanfarin 12 ár hafa flestir tekið námið á þremur önnum. Í hópnum sem brautskráðist í dag eru 28 einstaklingar sem eru að ljúka náminu samkvæmt eldra skipulagi og 58 sem eru að ljúka nýja eins árs náminu. Í brautskráningarhópnum eru 29 konur og 57 karlmenn. Mikill meirihluti þeirra hyggst halda áfram námi við HR í haust.

Frekari upplýsingar um frumgreinanám við Háskólann í Reykjavík er að finna á vefsíðunni www.ru.is/frumgreinanam 

Fleiri myndir frá brautskráningunni í dag eru á Facebook-síðu HR