Fréttir eftir árum


Fréttir

92% nemenda HR ánægð með viðbrögð háskólans við COVID-19

21.4.2020

Í niðurstöðum nýrrar könnunar meðal nemenda Háskólans í Reykjavík kemur meðal annars fram að 92% nemenda eru mjög eða frekar ánægð með viðbrögð háskólans við COVID-19. 

Háskólinn hefur unnið markvisst að því að lágmarka áhrif lokunar háskóla á framvindu náms og að klára vorönnina þannig að nemendur hafi sömu tækifæri og áður til að halda áfram námi, útskrifast og fara í framhaldsnám. Á sama tíma hefur háskólinn lagt áherslu á að veita nemendum sem bestan stuðning og sem mest svigrúm í ljósi erfiðra aðstæðna. 

Heimanám gengur betur nú en áður

Allt nám var fært á netið, nemendum gert kleift að fá „staðið“ fyrir námskeið í stað hefðbundinnar einkunnar, og margvíslegar aðrar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi kennslu, námsmati, tímasetningum prófa og fleiru. Þá hafa nemendur haft greiðan aðgang að sérfræðingum og ráðgjöfum sem leiðbeina þeim varðand bæði nám og líðan.

Heimanám nemenda gengur betur nú en fyrir rúmum tveimur vikum og telja 40% nemenda að heimanám gangi mjög eða frekar vel, samanborið við 32% þegar sambærileg könnun var gerð í lok mars. 

Nemandi á gangi í Háskólanum í Reykjavík

Ný staða í atvinnumálum sumarsins

Spurt var um atvinnustöðu og horfur hjá nemendum, sér í lagi varðandi sumarið. Um 20% þeirra nemenda sem svöruðu könnuninni hafa misst vinnuna nýlega vegna COVID-19 og vinnan hefur minnkað hjá öðrum 20% nemenda. Þá hefur vinnan aukist hjá rúmlega 7% nemenda. 

45% nemenda eru komnir með sumarvinnu en helmingur nemenda er ekki kominn með vinnu fyrir sumarið. Af þeim sem ekki eru komin með vinnu telja 66% ólíklegt að þau muni fá vinnu fyrir sumarið. Um 35% nemenda telja það mjög eða frekar líklegt að þeir myndu nýta sér sumarnám ef viðeigandi námskeið yrðu í boði. 

Könnunin var gerð dagana 16. til 20 apríl. Svör bárust frá 690 nemendum.