Fréttir eftir árum


Fréttir

„Að sjá nemendur blómstra er það besta sem ég veit“

VÍSINDAHORNIÐ // Dr. Anna Sigríður Islind elur upp næstu kynslóð tölvunarfræðinga í HR, leiðir stafrænivæðingu í Svefnbyltingunni þar og elskar Stelpur & tækni og Systur

17.11.2022

Tölvunarfræðingurinn Anna Sigríður Islind var lengi að máta sig við fagið. Á tímabili íhugaði hún að segja skilið við það og gerast frekar læknir eða bara skartgripahönnuður. Ekkert varð þó af því og segir hún síbreytileika tölvunarfræðinnar hafa verið það sem togaði hana sífellt aftur til baka. Hún lauk doktorsprófi í tölvunarfræði og í dag starfar hún sem dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Henni er umhugað um að fagið sé fyrir alla og segir til að mynda mikilvægt að halda áfram að afmá þá karllægu ímynd sem fagið virðist óvart hafa fengið á sig.

Dr. Anna Sigríður Islind - Tölvunarfræðingur og dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík

Nám lá vel fyrir Önnu Siggu eins og hún er ætíð kölluð, sem hlaut skólastyrk fyrir framúrskarandi árangur í menntaskóla að loknu stúdentsprófi árið 2004.

Þá íhugaði ég fyrst að fara í tölvunarfræði og lét slag standa þegar mér bauðst skólastyrkur við tölvunarfræðideildina í HR. Ég ætlaði samt aldrei að vera tölvunarfræðingur, fór bara í tölvunarfræði og síðan að vinna við fagið. Svo ákvað ég á einum tímapunkti að ég ætlaði aldrei að vinna aftur við fagið heldur ætlaði ég að venda mínu kvæði í kross og fara og læra eitthvað allt annað. Ástæðan var hreinlega sú að ég var orðin pínu þreytt á að vera eina stelpan og orðin leið á þeim anda og kúltúr sem ríkti gjarnan á tölvudeildum á þessum tíma. Síðan ég byrjaði að forrita fyrir 18 árum síðan hefur samt mikið breyst, sem betur fer. Þegar ég ákvað að söðla um bjó ég í Svíþjóð og skoðaði alls konar háskólanám en leitin bar mig alltaf aftur að tölvunarfræðinni. Það varð úr að ég lauk BSc. í tölvunarfræði með aðra nálgun en það sem ég hafði lært áður í HR, með meiri áherslu á notendamiðaða hugbúnaðargerð, gagnamiðaða nálgun og enn meiri áherslu á gagnastrúktúr. Að því loknu fór ég beinustu leið í meistaranám og það var svo gaman að allt í einu var ég komin í doktorsnám. Á milli meistaranámsins og doktorsnámsins sótti ég reyndar um og komst inn í læknisfræði en sá þá enn og aftur að mig langaði greinilega innst inni alveg að verða tölvunarfræðingur, ég fann það þegar ég mátaði mig aðeins við það að gera eitthvað annað enn eina ferðina. Loksins var ég endanlega búin að finna mína hillu innan tölvunarfræðinnar,

segir Anna Sigga í léttum dúr.

Anna Sigga lauk doktorsgráðu í tölvunarfræði frá Svíþjóð árið 2018 og var ráðin inn í tölvunarfræðideild HR síðla árs 2018. Hún flutti því til Íslands með börnunum þrem, eiginmanninum og hundinum og hefur verið mikill HR-ingur allar götur síðan.

Síbreytileiki tölvunarfræðinnar hét erindi Önnu Siggu sem hún hélt nýverið á Advania ráðstefnunni. Hún segir að í því kristallist sú sýn og metnaður sem hún hafi fyrir faginu sínu.

Ég var beðin um að taka fyrir efnistök um það hvernig við gætum breikkað bilið þannig að bæði stelpur og já, í raun bara allir eigi jafnan möguleika á að finna sinn samastað í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði. Staðalímyndin af tölvunarfræðingnum sem gjarnan er dregin upp er að mínu mati mjög einsleit og fyrir mér ætti engin staðalímynd að vera til. Það eru í raun allir tölvunarfræðingar einstakir og það eiga allir heima í faginu. Ég held að þessi klassíska staðalímynd hafi óvart orðið of karllæg því starfið og fagið er það í raun alls ekki og mitt markmið í lífinu er að fólki líði vel og að allir finni sína hillu innan tölvunarfræðibransans. Þess utan þá eru tölvunarfræðingar og hugbúnaðarverkfræðingar, rétt eins og notendur okkar, alls konar fólk. Fjölbreytni verður að vera lykilatriði fyrir okkur sem hönnum og þróum tölvukerfi til að verðum ekki hlutdræg og gerum grundvallarmistök sem leiða til þess að tölvukerfin okkar bera merki um einsleitni.


Varðandi kynjahallann í faginu segir hún að alltaf megi gera betur en tveir lykilþættir innan HR hafi haft mikil jákvæð áhrif. Annað sé framtakið Stelpur og tækni, þar sem stelpur á grunnskólaaldri eru markvisst kynntar fyrir námi og störfum í tækni, og hitt er nemendafélagið Systur.

Anna-Sigridur-Islind-5

 

Innan félagsins er unnið óeigingjarnt og fallegt starf og ég vildi óska að Systur hefðu verið starfandi þegar ég var í tölvunarfræðinni. Ansi margt hefur breyst síðan þá og samfélagið hefur líka þroskast almennt. Mér finnst ótrúlega gaman að horfa yfir salinn þegar ég er að kenna og sjá að það eru ekki bara stelpur heldur líka strákar í Systra-peysum sem þýðir að við erum öll í þessu saman. Við erum öll tölvunarfræðin og allir vinna saman að því að búa til stað þar sem öllum líður vel.


Gaman að leysa vandamál

Spurð hvað heilli helst við tölvunarfræðina segir Anna Sigga að sér hafi alltaf þótt gaman að leysa vandamál og allar hennar rannsóknir hafi í raun snúist um að nota nýja tækni og mælitæki á byltingakenndan hátt til að safna gögnum og beita nýrri aðferðafræði á þau. Hún hafi þannig mikinn áhuga á nýrri tækni og hvernig megi leysa vandamál með því að beita tækninni á spennandi máta. Um leið hafa allir rannsóknir hennar miðast að umbótum í samfélaginu og mikið til í heilbrigðiskerfinu þar sem það að bæta stöðu þeirra sem minna mega sín er henni mikið hugleikið.

Anna-Sigridur-Islind-4

 

Þetta hefur alltaf verið kappsmál fyrir mig persónulega og sýnir sig líka í rannsóknum mínum. Að hanna og þróa tölvukerfi fyrir þá sem enginn kannski er að hanna fyrir og hafa ekki kraftinn til að eiga röddina sjálfir, það fær mitt rannsóknarhjarta til að tifa. Þetta hefur drifið mig áfram í mínum störfum og varð líka til þess að ég kom aftur og aftur að tölvunarfræðinni. Það er mikilvægt að ætla ekki bara að forrita af því að manni finnst það gaman eða af því það er vel borgað heldur líka til að það gagnist einhverjum vel og kraftur tækninnar getur svo sannarlega skapað betra líf fyrir komandi kynslóðir.

 

Anna Sigga kennir tölvunarfræðinemum í dag bæði gagnasafnsfræði er snýr að hönnun og þróun gagnagrunna sem er þá bakendinn og hún kennir líka upplifunarhönnun notendaviðmóta sem er framendinn á tölvukerfunum sem nemendur læra að hanna og þróa í HR. Flestir tölvunarfræðingar sérhæfa sig í öðru hvoru en það að hún hafi frá upphafi viljað skilja allt kerfið í heild kemur sér vel við kennsluna. Þá leiðbeinir hún einnig doktorsnemum og segir það sína ástríðu að koma á framfæri næstu kynslóð rannsakenda.

Dr. Anna Sigríður Islind - Tölvunarfræðingur og dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík

 

Það er svo ótrúlega gaman að sjá aðra þroskast í gegnum rannsóknir og sjá t.d. grunnnema blómstra í því sem þau eru að finna upp í lokaverkefnum. Ég held utan um lokaverkefnin á næstu önn og við höfum þegar fengið fullt af fyrirspurnum frá fyrirtækjum sem langar að fá til sín nemendur frá okkur enda hefur HR gott orðspor og mikið er sóst eftir samstarfi við okkur. Eins er gaman að sjá hve margir fá vinnu strax að lokinni útskrift. Það er sótt í okkar nemendur því þeir eru vandaðir og það færir mikla gleði í kennarahjartað. Það að fylgja doktorsnemunum eftir í þeirra vinnu. Að sjá nemendur blómstra er líka það besta sem ég veit.

 

Tölvunarfræðingar alls staðar

Dr. Anna Sigríður Islind - Tölvunarfræðingur og dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík

Innan veggja HR er unnið rannsóknastarf þvert á deildir og leiðir Anna Sigga til að mynda stafrænivæðingu (e. Digital innovation) í Svefnbyltingunni þar sem tölvunarfræði-, íþróttafræði-, verkfræði- og sálfræðideild vinna þverfaglega að stórri rannsókn á svefnvenjum Evrópubúa. Hún segir slíkt þverfaglegt samstarf ekki algilt í erlendum háskólum og hún sé gjarnan spurð hvort slíkt samstarf sé ekki erfitt. Hún svari þá til að svo sé þvert á móti heldur auðgi þverfagleikinn frekar rannsóknirnar og sem betur fer megi segja að í raun séu engir veggir í HR því það sé alveg sama úr hvaða deild fólk komi. HR-ingar vinni saman svo lengi sem þeir myndi tengsl sín á milli og deili rannsóknarsýn. Anna Sigga segir mikilvægt að frá upphafi náms láti tölvunarfræðingar sig rannsóknarverkefni varða, séu með í fjölbreyttum verkefnum og nýti tækifærin til að hafa áhrif í gegnum rannsóknir.

 

Það er einna skemmtilegast við þetta fag að við erum alltaf að færa eldlínuna. Það er til að mynda ekkert allt af því sannreynt sem spáð var fyrir um hérna í denn varðandi getu gervigreindar dagsins í dag. Það er alltaf eitthvað nýtt að koma fram á sjónarsviðið og við erum sífellt að vinna með spennandi áskoranir. Fagið er svo síbreytilegt að það eru byltingarkenndar framfarir innan tölvunarfræðinnar almennt og hjá okkar rannsóknarfólki í HR á hverju ári og af því að allt er svo síbreytilegt þá er líka nánast alltaf gaman. Ef manni finnst ekki gaman í dag þá verður bara gaman á morgun, því þá koma nýjar áskoranir og nýjar uppgötvanir fram á sjónarsviðið sem móta tölvunarfræði morgundagsins. Tölvunarfræðingar eru líka alls staðar orðið sem mér finnst svo skemmtilegt. Það þarf tölvunarfræðinga alls staðar því tæknin er orðin alls staðar það hefur líka breyst, það er meiri vitundarvakning fyrir mikilvægi þess að hafa tækniþenkjandi starfsfólk í lykilstöðum. Tæknin er ekki lengur bara inn á tölvudeildinni eins og áður fyrr heldur er hún einfaldlega alls staðar.

 

Þess ber að geta að Anna Sigríður Islind verður gestur í Vísindavagninum, hlaðvarpssyrpu í HR hlaðvarpinu eftir helgi.

////////

Dr. Anna Sigríður Islind is raising the next generation of computer scientists in HR, leading digitization in the Sleep Revolution there, and loves Girls & Technology (Stelpur & Tækni) and Sisters. Computer scientist Anna Sigríður Islind spent a long time trying to get to grips with the profession. At one point, she considered quitting and becoming a doctor or just a jewelry designer. However, nothing came of it, and she says that the ever-changing nature of computer science kept pulling her back in. She completed her doctorate in computer science, and today she works as an associate professor at Reykjavík University's computer science department. She says that computer science is for everyone and believes it is essential to continue erasing the masculine image the profession has acquired through the years.