Fréttir eftir árum


Fréttir

ADHD og afbrotahegðun

24.9.2014

Á málstofu í Háskólanum í Reykjavík mánudaginn 22. september voru kynntar nýlegar rannsóknir á ADHD og afbrotahegðun. Fjallað var sérstaklega um rannsóknir á ADHD meðal íslenskra ungmenna og tengsl ADHD við lyfjamisnotkun, afbrot og falskar játningar við yfirheyrslu.

ADHDFyrirlesarar voru Gísli H. Guðjónsson, prófessor emeritus í klínískri réttarsálfræði við King´s College í London og prófessor í sálfræði við HR og Susan Young, dósent í klínískri réttarsálfræði við Imperial College í London og gestaprófessor við HR og Bucks New University.

Susan og Gísli hafa unnið saman að fjölda rannsókna á ADHD á liðnum árum, meðal annars í samstarfi við rannsóknarteymi á sálfræðisviði Háskólans í Reykjavík.

Niðurstöður rannsókna þeirra sýna að um 30% þeirra ungmenna sem dæmd eru til fangelsisvistar eru með ADHD, eða athyglisbrest og ofvirkni.

„Til þess að fyrirbyggja falskar játningar er best að reyna að koma í veg fyrir að þessir einstaklingar lendi í slæmum félagsskap eins og afbrotahópum eða byrji að nota vímuefni,“ segir Gísli í samtali við mbl.is.