Fréttir eftir árum


Fréttir

Afreksíþróttafólk fær styrki til náms

22.5.2017

Íþróttasvið tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík mun frá og með næsta hausti velja nemendur í afrekshóp. Nemendur sem veljast í hópinn geta stillt námshraða sinn eftir álagi í íþróttum og þrír nemendur úr hópnum munu hljóta styrki til BSc-náms. Þá gefst þeim tækifæri til nota sérhæfðan búnað til rannsókna sem deildin býr yfir, þiggja ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga og fræðimanna íþróttasviðs, meðal annars til að mæla árangur sinn og afköst.

Hafrun_Kristjansdottir_mai2017Hafrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri íþróttafræðisviðs, segir sviðið vilja koma til móts við afreksfólk í íþróttum svo að það geti sinnt náminu á meðan það sinnir æfingum og keppni. „Í mörgum tilfellum er afreksíþróttafólk jafnframt framúrskarandi námsmenn sem gott er að hafa í nemandahópnum. Við höfum unnið mikið með afreksíþróttafólki, og höfum haft það í námi hér, svo við vitum af reynslunni að það er nauðsynlegt að veita þeim meiri sveigjanleika,“ segir hún.

Til að vera gjaldgengir þurfa nemendurnir að æfa og keppa reglulega í sinni íþróttagrein. Þeir munu þurfa að leggja fram æfinga- og keppnisáætlun sem er staðfest af þjálfara eða sérsambandi, og fara í einu og öllu eftir lyfjareglum ÍSÍ. Sérstök valnefnd fer yfir umsóknir og sker úr um hverjir uppfylla viðmið fyrir afrekshópinn, en allir sem uppfylla skilyrðin hljóta inngöngu. Nefndin velur svo allt að þrjá einstaklinga sem fá skólagjöld niðurfelld úr hópi þeirra sem komast í afrekshópinn.

Einstaklingum í afrekshópi bjóðast nákvæmar grunnmælingar á líkamlegu og sálrænu ástandi sínu tvisvar sinnum á skólaárinu í samvinnu við þjálfara, og ráðleggingar um æfingaáætlun. „Afkastamælingar skipta miklu máli fyrir afreksíþróttamenn. Það er ekki hlaupið að því að komast í slíkar mælingar hérlendis en við höfum búnað og getu til að gera slíkar mælingar. Niðurstöður þeirra geta svo auðveldað nemandanum að ná enn lengra,“ segir Hafrún.

BSc í íþróttafræði