Fréttir eftir árum


Fréttir

Áhrif rafbílavæðingar eru jákvæð en duga ekki til að ná markmiðum um losun

2.11.2018

Áhrif rafbílavæðingar fyrir íslenskt samfélag eru jákvæð en breytingarnar taka þó of langan tíma til að ná  markmiðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Sá frestur sem landsmenn hafa, þar til bann við kaupum á bifreiðum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti tekur gildi, er of langur og aðgerðin því of seinvirk. Rafbílabæðingin er nauðsynlegur hluti aðgerða okkar til að minnka losun  á gróðurhúsalofttegundum en til viðbótar þarf að efla almenningssamgöngur og breyta ferðavenjum.

Þetta eru niðurstöður skýrslu sem Eyjólfur Ingi Ásgeirsson og Hlynur Stefánsson, dósentar við tækni- og verkfræðideild skrifuðu, meðal annarra, um greiningu á áhrifum orkuskipta í bílaflota Íslendinga. Þeir tóku þátt í að kynna niðurstöður skýrslunnar á ráðstefnu í gærmorgun. Samorka, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Orkusetur, Íslensk Nýorka og Græna Orkan stóðu fyrir gerð skýrslunnar og leituðu í framhaldinu til fræðimanna innan Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Miðað var við ákveðnar aðstæður, eða sviðsmyndir, þar sem spáð var fyrir um samsetningu bílaflotans, orkunotkun og útblástur frá 2018 til 2050.

Þó að rafbílavæðingin ein og sér dugi ekki til að við náum markmiðum um losun eru heildaráhrif hennar ótvírætt jákvæð, bæði þegar litið er til þjóðhagslegra stærða í víðu samhengi og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Þess má að lokum geta að skýrslan tók aðeins til hagrænna áhrif þess að skipta yfir í rafbíla þó að aðrir innlendir orkugjafar séu fyrir hendi, svo sem vetni, metan og lífdísill.

Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar - skýrsla

Hlynur_Stefansson

Eyjolfur_Ingi_Asgeirsson_1541153055607

Hlynur Stefánsson og Eyjólfur Ingi Ásgeirsson.