Fréttir eftir árum


Fréttir

Áhrifaríkt málþing HR um stríðið í Úkraínu og stöðu flóttabarna og ungmenna á Íslandi

25.3.2022

Áætlað er að 1.500 flóttamenn frá Úkraínu leiti hingað á næstu vikum og að þeirra á meðal verði margar fjölskyldur með börn. Paola Cardenas, doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík, og klínískur sálfræðingur í Barnahúsi, hefur á undanförnum 3 árum rannsakað félagslegar aðstæður og líðan flóttabarna- og ungmenna á Íslandi

Paola kynnti helstu niðurstöður rannsóknarinnar á málþingi sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík hinn 24. mars, sem hafði yfirskriftina „Stríðið í Úkraínu: Staða flóttabarna og -ungmenna á Íslandi – hvernig getum við gert betur?“

Þátttakendur á málþinginu „Stríðið í Úkraínu: Staða flóttabarna og -ungmenna á Íslandi – hvernig getum við gert betur?“

Þátttakendur á málþinginu f.v. Ólöf Ásta Farestweit forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, Paola Cardenas,  Didar Farid Kareem, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir forseti samfélagssviðs HR, Sayed Hashimi og Jasmina Vajozovic Cranac formaður nefndar sem heldur utan um móttöku flóttamanna frá Úkraínu í Reykjavík.

Rannsóknina sína gerði Paola meðal ungs fólks á aldrinum 13-24 ára og talaði alls við 75 manns sem að meðaltali höfðu verið 1,8 ár á flótta áður en þau komu til Íslands. Niðurstöður sýna að algengasta ástæðan fyrir flótta frá heimalandi er öryggisleysi en 85,3% sögðust hafa flúið vegna skorts á öryggi, 40% vegna ofsókna og 38,7% vegna stríðsátaka. Þá sýndi rannsóknin að helmingur þátttakenda sýndu einkenni áfallastreituröskunar yfir klínískum mörkum og þriðjungur sýndi merki um þunglyndi. Helmingur þeirra hafði hins vegar ekki notið neinnar sálfræði meðferðar og þriðjungi hafði aldrei verið boðin nein aðstoð.

„Kennitalan hefur oft mikið að segja. Ungmennin fá til að mynda ekki að taka þátt í íþrótta- eða félagsstarfi án kennitölu og eins getur kennitöluleysið reynst hindrun þegar kemur að því að sækja um vinnu og skóla. Til að gera betur þurfum við að ná að skapa meira hvetjandi umhverfi þar sem stuðningur við fólk er í fyrrirúmi. Það er til dæmis nauðsynlegt að gera fólki grein fyrir þeirri sálfræðiþjónustu sem er í boði,“ sagði Paola.

Listamaðurinn Ragnar Kjartansson ávarpaði einnig samkomuna en hann hefur unnið með Rauða Krossinum sem sjálfboðaliði auk þess að hafa starfað með bæði úkraínskum og rússneskum listamönnum. Ragnar sagði hið merka verk úkraínska listmálarans Kazimir Malevich, „Black Square“, í raun vera sorglega táknrænt dæmi um stöðuna í dag. Rússnesk yfirvöld reyndu að draga Úkraínu og jafnvel fleiri þjóðir inn í svartan kassa og þjóðir heims yrðu að taka sig saman við að fylla hann með mörgum litum. 

Meðal annars framsögufólks voru Didar Farid Kareem, túlkur og menningarmiðlari, og Sayed Hashimi, ungur flóttamaður, en hann sagði áhrifaríka og átakanlega sögu sína af komunni til Íslands.

Hér má finna upptöku frá málþinginu